Þrýst var á yngsta sakborninginn í Gufunesmálinu að taka á sig alla sökina í málinu. Það er að hafa misþyrmt manni á sjötugsaldri svo illa að hann lést í mars síðastliðnum.
Þetta kemur fram hjá RÚV.
Segir að annar sakborningur í málinu hafi reynt að koma til hans bréfi á meðan þeir voru báðir í einangrun. Einnig að verjandi piltsins hafi þurft að grípa til öryggisráðstafana á heimili sínu.
Fimm eru ákærð, þar af þrír menn fyrir manndráp á manninum, sem var numinn á brott frá Þorlákshöfn og skilinn eftir í Gufunesi. Tveir þeirra eiga sakaferil að baki, en ekki hinn 19 ára gamli. Hin tvö eru ákærð fyrir frelsissviptingu, rán og peningaþvætti.
Í bréfi sem fannst á útivistarsvæði fanga á Hólmsheiði og annar sakborningur skrifaði er pilturinn beðinn að taka á sig alla sök. Sagt er að vegna aldurs síns muni hann ekki fá þungan dóm, 18 mánuði í mesta lagi segir í bréfinu. Hann kæmi út sem „legend“ ef hann myndi taka þetta á sig. Að lokum er honum sagt að kveikja í bréfinu. Það voru hins vegar fangaverðir sem fundu bréfið.
Einnig kemur fram í frétt RÚV að reynt hafi verið að hafa áhrif á piltinn í gegnum nána aðstandendur. Meðal annars að skipta um lögmann.