fbpx
Þriðjudagur 29.júlí 2025
Fréttir

Mygla knýr á um nýjan grunnskóla – Gæti kostað hvern íbúa eina og hálfa milljón

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 28. júlí 2025 17:30

Þorpið Þórshöfn er hluti af sveitarfélaginu Langanesbyggð. Mynd: Langanesbyggð.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sveitarfélaginu Langanesbyggð er vandi á höndum vegna myglu sem fundist hefur í grunnskólanum í þorpinu á Þórshöfn, sem tilheyrir Langanesbyggð, en það er eini grunnskóli sveitarfélagsins. Kannaðar hafa verið mögulegar lausnir og nú stefnir í að farin verði sú leið að byggja nýjan grunnskóla en áætlaður kostnaður við það nemur um einni og hálfri milljón króna á hvern íbúa í sveitarfélaginu. Ljóst virðist því að um töluvert fjárhagslegt högg er að ræða fyrir þetta tæplega 600 manna sveitarfélag.

Fjallað hefur verið um málið á fundum sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins undanfarna mánuði og greint hefur verið frá því í fundargerðum. Á sérstökum aukafundi sveitarstjórnar þann 23. júlí síðastliðinn var loks samþykkt að móta frekar þá lausn að nýr grunnskóli verði byggður í stað þess gamla, á nýjum stað. Samkvæmt fundargerð er áætlaður kostnaður 852 milljónir króna. Samkvæmt vef Hagstofunnar voru 560 íbúar í sveitarfélaginu þann 1. janúar síðastliðinn. Því, miðað við þessar tölur, nemur kostnaðurinn rétt yfir einni og hálfri milljón króna á hvern einasta íbúa.

Myglan

Í fundargerð er upphaf málsins rifjað upp. Þar kemur fram að í maí síðastliðnum hafi vaknað sterkur grunur um myglu í grunnskólanum. Strax hafi verið farið í að rannsaka og taka sýni í þeim hluta skólans sem grunurinn beindist að. Í ljós hafi komið að mygla var til staðar í þeim hluta. Ákveðið hafi verið að fara í frekari rannsóknir og sýnatöku á fleiri stöðum í skólanum.

Segir enn fremur í fundargerðinni að alls hafi 66 sýni verið tekin í þessum rannsóknum og af þeim hafi mygla greinst í 22 sýnum en að auki hafi verið 3 menguð sýni sem í raun þýði mygla. Myglan hafi mest verið undir gólfdúk en sterkur grunur sé um að gró leynist víða í veggjum og lofti. Auk sýnatöku hafi verið farið í rakamælingar á nokkrum stöðum í skólanum og komið í ljós að raki hafi mælst víða yfir mörkum, sérstaklega í norðurhluta frá inngangi, í holi, göngum og stofum. Minnstur hafi rakinn verið í vesturhluta norðurálmu. Rakamælingar sýni að hætta sé á frekari útbreiðslu myglu í skólanum og mjög erfitt að afmarka hana nema með enn frekari rannsóknum.

Þrír kostir í stöðunni

Starfsemi grunnskólans hefur verið komið fyrir í öðru húsnæði í sveitarfélaginu á meðan unnið er að framtíðarlausn. Í fundargerð sveitarstjórnar er síðan fjallað um þær lausnir sem sveitarstjóra, Birni Lárussyni, var falið að kanna.

Þrír kostir voru kannaðir. Að gera við þær skemmdir sem þegar hafa orðið að undangengnum frekari rannsóknum, að rífa núverandi skólahúsnæði og byggja nýtt á grunni þess og loks að byggja nýjan skóla á nýjum stað.

Segir í fundargerðinni að fyrirtækinu Faglausn hafi verið falið að meta kostnað við allar þessar þrjár leiðir. Í ljós hafi komið að tiltölulega lítill munur sé á kostnaði við hverja leið en mikil óvissa væri í útreikningunum og kostir og gallar væru við allar þrjár leiðir. Útreiknaður kostnaður hafi verið allt frá 696 milljónum við viðgerð, 932 milljónir við að rífa skólann og byggja nýjan á sama stað og 852 milljónir að byggja nýjan skóla á nýjum stað. Tekið er sérstaklega fram að yrði farin sú leið að rífa núverandi skóla og byggja nýjan á sama stað yrði fyrst að klára niðurrifið áður en hægt væri að hefjast handa við bygginguna.

Nýr skóli

Í fundargerðinni kemur fram að allir þrír kostirnir hafi verið ræddir á sérstökum vinnufundi sveitarstjórnar og velferðar- og fræðslunefndar. Niðurstaðan varð síðan sú að sveitarstjórn felur sveitarstjóra og skólastjóra í samvinnu við hönnuð að útfæra frekar síðastnefndu leiðina, að byggja nýjan skóla á nýjum stað í þorpinu og fara um leið í greiningu á því hvaða útfærslu byggingarinnar sé þörf á.

Þegar tillögur liggi fyrir verði sveitarstjórn gerð grein fyrir þeim og sveitarstjóra falið að undirbúa íbúafund um málið til að kynna kosti, kalla eftir hugmyndum og undirbúa málið til að það væri tækt til ákvörðunar í sveitarstjórn. Sveitarstjórn óskar jafn framt eftir því að unnið verði samkvæmt þeirri tímalínu að í næsta og þar næsta mánuði fari fram hugmyndavinna og íbúafundur. Í janúar 2026 verði framkvæmdin síðan boðin út og hefjist svo í apríl 2026. Loks skuli stefnt að því að nýr grunnskóli verði tilbúinn til notkunar skólaárið 2027-28.

Umfangsmeiri en talið var í fyrstu

Á síðasta fundi sveitarstjórnar, á undan þessum aukafundi, sem fram fór 4. júní síðastliðinn kom fram í skýrslu sveitarstjórans sem birt er í fundargerð að um fjárhagslegt áfall væri að ræða en þá lá áætlaður kostnaður ekki fyrir. Sagði sveitarstjórinn að hann væri að vinna í að færa til liði í fjárhagsáætlun og að fresta þyrfti líklega einhverjum öðrum kostnaðarliðum og framkvæmdum. Sagði hann að hugsanlega þyrfti að grípa til lántöku en það væri þó síðasta úrræðið. Segir enn fremur í skýrslunni:

„Varðandi fjármálin þá höfum við spennt bogann hátt þetta árið en samt sem áður er alltaf hægt að finna lausn þó ef til vill verði ekki allir sáttir við hana.“

Á fundi byggðaráðs þann 25. júní var síðan greint frá því að komið hafi í ljós að myglan væri umfangsmeiri en leit út fyrir í fyrstu sem hafi breytt stöðunni sem uppi væri. Það hefur væntanlega haft sín áhrif á áætlaðan kostnað við að gera við skólann, til hækkunar, og að ákveðið hafi verið loks að beina sjónum að því að byggja nýjan skóla á nýjum stað.

Á meðan unnið er að því er ljóst að kennsla og önnur starfsemi Grunnskólans á Þórshöfn fer fram í öðru húsnæði næstu tvö skólaár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Segir að mál Trump og Epstein-skjalanna geti endað með ríkisrétti – „Þetta er örvænting á stigi sem við höfum ekki séð áður“

Segir að mál Trump og Epstein-skjalanna geti endað með ríkisrétti – „Þetta er örvænting á stigi sem við höfum ekki séð áður“
Fréttir
Í gær

Lítill pylsuhundur lifði í eitt og hálft ár í óbyggðunum – „Hún er orðin svolítið sjálfstæðari“

Lítill pylsuhundur lifði í eitt og hálft ár í óbyggðunum – „Hún er orðin svolítið sjálfstæðari“
Fréttir
Í gær

Hvora leiðina er best að keyra hringveginn? – Önnur leiðin er styttri

Hvora leiðina er best að keyra hringveginn? – Önnur leiðin er styttri
Fréttir
Í gær

Lögðu á miðjum vegi og á móti umferð – „Vorum næstum búin að klippa hurðina af bílnum þegar við keyrðum fram hjá“

Lögðu á miðjum vegi og á móti umferð – „Vorum næstum búin að klippa hurðina af bílnum þegar við keyrðum fram hjá“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Slanga í flugvél – „Ég hafði eitt tækifæri til þess að grípa hana“

Slanga í flugvél – „Ég hafði eitt tækifæri til þess að grípa hana“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kærði 25 ára gamla ákvörðun til að koma í veg fyrir nýja bálstofu í Gufunesi

Kærði 25 ára gamla ákvörðun til að koma í veg fyrir nýja bálstofu í Gufunesi