fbpx
Sunnudagur 27.júlí 2025
Fréttir

Trump sagður sjaldan hafa lagst jafn lágt í hefnigirni – Fjandmaður sviptur aðgangi að hundi sem hann borgaði fyrir

Ritstjórn DV
Laugardaginn 26. júlí 2025 21:30

Donald Trump, Bandaríkjaforseti. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir síðustu forsetakosningar í Bandaríkjunum fór Donald Trump, núverandi forseti landsins, ekki í grafgötur með að hann hyggðist jafna sakirnar við ýmsa aðila sem hann taldi hafa gert á hlut sinn í fyrri forsetatíð sinni frá 2017-2021 og á meðan baráttu hans við að komast aftur í Hvíta húsið stóð. Meðal þeirra sem hafa fengið að kenna á þessu eru saksóknarar sem komu að málarekstri fyrir dómstólum gegn honum en margir þeirra hafa verið reknir. Einn þeirra sem Trump hefndi sín á er maður sem hefur að baki margra áratuga störf innan leyniþjónustustofnana Bandaríkjana. Gagnrýnendur forsetans segja málið bera vott um hann og hans fólk hafi sjaldan lagst jafn lágt í hefnigirni sinni og að um hreinan smásmálarhátt sé að ræða en í þessu tilfelli nýtti forsetinn sér, reyndar með óbeinum hætti, hund til að ná sér niðri á viðkomandi.

Eins og í flestum málum sem snúa að Donald Trump eru skoðanir á aðgerðum hans til að jafna sakirnar við allt þetta fólk skiptar. Stuðningsmenn hans segja eðlilegt að láta spillta embættismenn og aðra sem beitt hafi forsetann órétti finna til tevatnsins en andstæðingar hans segja um óréttlætanlega framgöngu manns í þessari stöðu að ræða, forseti Bandaríkjanna eigi ekki að nýta embættið í persónulega hefndarleiðangra.

Susan

Það er tímaritið  The Atlantic sem fjallar um málið. Tímaritið er ekki ofarlega á vinsældarlista Trump eftir að ritstjóra þess, Jeffrey Goldberg, var fyrir mistök bætt inn í hópspjall Pete Hegseth varnarmálaráðherra og fleiri embættismanna, á skilaboðaforritinu Signal, um yfirstandandi hernaðaraðgerðir í Jemen. Reyndu Trump og hans menn að minnka skaðann með því að gera lítið úr Goldberg, tímaritinu og alvarleika málsins en á endanum sagði þjóðaröryggisráðgjafi forsetans, Mike Waltz, af sér en það var hann sem bætti Goldberg inn í hópspjallið.

Það sem málið sem hér um ræðir snýst um er ljós Labrador-hundur að nafni Susan og maður á níræðisaldri sem heitir James Clapper. Hann var æðsti yfirmaður njósnamála (e. Director of National Intelligence) á árunum 2010-2017, mest alla forsetatíð Barack Obama.

James Clapper. Mynd: Office of the Director of National Intelligence – Wikimedia Commons.

Tulsi Gabbard gegnir þessari stöðu í dag sem er ígildi ráðherraembættis en sá einstaklingur sem gegnir embættinu á sæti í ríkisstjórn Bandaríkjanna.

Tulsi Gabbard

Hundurinn Susan hlaut þjálfun hjá leyniþjónustunni CIA í að leita að sprengjum og sprengiefni en hún þykir sérstaklega hæf í að finna vel faldar sprengjur og er talin munu verða afar mikilvæg við að auka öryggi starfsmanna stofnunarinnar, sérstaklega við hættulegar aðstæður.

Clapper hefur fyrir uppihald og þjálfun Susan fyrir milligöngu góðgerðarsamtaka en hann fékk að velja nafnið á henni og nefndi hundinn í höfuðið á eiginkonu sinni, sem lést 2023. Susan Clapper starfaði sjálf meðal annars fyrir þjóðaröryggisráð Bandaríkjanna en hún var mikill dýravinur.

Útskriftin

Hundurinn Susan lauk nýlega þjálfun sinni sem fór fram í þjálfunarmiðstöð CIA í Herndon í Virginíu. Sérstök útskriftarathöfn, fyrir Susan og væntanlega fleiri hunda sem lokið hafa sams konar þjálfun, fór fram í miðstöðinni í lok maí síðastliðins. Clapper ætlaði sér að vera viðstaddur en daginn áður en athöfnin átti að fara fram var honum tilkynnt að tilskipun Trump forseta þýddi að honum væri bannað að vera viðstaddur athöfnina.

Trump virðist ekki vera mikill hundavinur, raunar líkir hann fólki yfirleitt við hunda ef hann vill gera lítið úr því. Það gerði hann til dæmis þegar hann fagnaði dauða ISIS-leiðtogans Abu Bakr al-Baghdadi:

„Hann dó eins og heigull og hundur.“

Trump hefur einnig hafnað því að fylgja fordæmi margra forvera sinna og fá sér hund.

Trump hefur ekki farið leynt með andúð sína á Clapper og líkt honum í því skyni við hund.

Helsta ástæðan fyrir þessu viðhorfi forsetans í garð Clapper er framganga hins síðarnefnda við rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016. Trump hefur sakað Barack Obama og embættismenn hans, þar á meðal Clapper, um að hafa búið allt það mál til með fölsunum og lygum en rannsókn, undir stjórn Robert Muller fyrrum forstjóra alríkislögreglunnar FBI, leiddi í ljós að slík afskipti hafi átt sér stað og tengsl hafi verið milli sumra ráðgjafa Trump og fulltrúa rússneskra stjórnvalda í aðdraganda kosninganna. Það fundust hins vegar ekki sannanir fyrir samvinnu milli þessara aðila um að hafa markviss áhrif á niðurstöðu kosninganna.

Trump gremst einnig án efa að undanfarin ár hefur Clapper ekki farið leynt með þá skoðun sína að forsetinn sé ekki hæfur til að gegna embættinu.

Hefnd

Eftir að Trump tók aftur við forsetaembættinu í janúar á þessu ári var hann fljótur að refsa Clapper með því að svipta hann, með sérstakri tilskipun, öryggisheimild hans, sem meðal annars veitir aðgang að leynilegum gögnum. Fleiri einstaklingar voru þó sviptir öryggisheimild sinni með þessari tilskipun.

Aðilar innan CIA töldu ljóst að þessi tilskipun Trump þýddi að ekki einungis mætti Clapper ekki vera viðstaddur útskrift Susan heldur væri honum beinlínis meinað að stíga fæti inn í nokkra byggingu eða landareign sem hýsir starfsemi stofnunarinnar. Fulltrúar leyniþjónustunnar létu þó áðurnefnd góðgerðarsamtök um að tilkynna Clapper um að hann mætti ekki mæta á athöfnina.

Þetta allt virðist teljast nokkuð ankannalegt í ljósi þeirrar stöðu sem Clapper gengdi í bandarísku stjórnkerfi en auk áðurnefndrar stöðu yfirmanns njósnamála á hann að baki margra áratuga reynslu af njósnastörfum og ýmsum stjórnunarstöðum í þeim geira í Bandaríkjunum.

Þótt Clapper hafi greitt fyrir þjálfun og uppihald Susan og þar með í raun gefið bandaríska ríkinu hana var honum bannað að sjá hana útskrifast úr þjálfuninni. Engin leynd hvíldi yfir athöfninni. Það þurfti ekki sérstaka aðgangsheimild til að vera viðstaddur og myndir af henni hafa verið birtar á samfélagsmiðlum.

Clapper vildi ekki tjá sig um málið við The Atlantic og sérstaklega er tekið fram að það hafi ekki verið hann sem upplýsti fjölmiðilinn um málið. Shane Harris sem skrifar umfjöllunina segir að margir hafi móðgast fyrir hönd Clapper, sér í lagi í ljósi starfa hans til margra áratuga fyrir land og þjóð. Harris skrifar að þótt málið virðist smávægilegt sýni það ágætlega af hversu miklum krafti Trump og hans fólk leitar hefnda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Varaþingmaður segir fjölmiðla og stjórnvöld hafa farið fram með offorsi – Ekki hættulegra að búa í Grindavík en víða annars staðar

Varaþingmaður segir fjölmiðla og stjórnvöld hafa farið fram með offorsi – Ekki hættulegra að búa í Grindavík en víða annars staðar
Fréttir
Í gær

Bandaríska vegabréfið aldrei jafn máttlaust og nú – Flest evrópsk vegabréf sterkari

Bandaríska vegabréfið aldrei jafn máttlaust og nú – Flest evrópsk vegabréf sterkari
Fréttir
Fyrir 2 dögum
Hulk Hogan látinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bruninn í Tryggvagötu 4-6: Tveir kettir fundust látnir í gærkvöldi – „Hann fær enga aðstoð hjá félagsmálayfirvöldum“

Bruninn í Tryggvagötu 4-6: Tveir kettir fundust látnir í gærkvöldi – „Hann fær enga aðstoð hjá félagsmálayfirvöldum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilja nefna flugvöllinn í Birmingham eftir Ozzy Osbourne – Undirskriftasöfnun hafin

Vilja nefna flugvöllinn í Birmingham eftir Ozzy Osbourne – Undirskriftasöfnun hafin