Hin árlega Drusluganga er í þann mund að hefjast í miðborg Reykjavíkur. Formaður Landsambands lögreglumanna spyr á Facebook hvort það megi ekki vænta þess að hin umdeildu samtök Skjöldur Íslands muni láta sjá sig.
Í Druslugöngunni verður gengið frá Hallgrímskirkju niður að Austurvelli núna klukkan tvö í dag. Eins og áður er gangan til stuðnings þolendum kynferðisofbeldis og til að mótmæla því almennt. Gangan í ár er tileinkuð minningu Ólöfu Töru Harðardóttur, baráttukonu gegn kynferðisofbeldi, sem lést í janúar á þessu ári.
Skjöldur Íslands eru eins og áður hefur komið fram samtök fólks, meðal annars karlmanna sem hlotið hafa dóma fyrir ofbeldi, sem tók upp á því nýlega að ganga um miðborg Reykjavíkur í sérmerktum jökkum með táknum sem haldið hefur verið fram að séu í fasískum anda. Er yfirlýstur samtakanna meðal annars að verja konur gegn ofbeldi, ekki síst af hálfu útlendinga. Lögreglan hefur lýst því yfir að ekki sé þörf á aðstoð samtakanna og raunar muni hugsanleg afskipti þeirra gera illt vera. Hefur ríkislögreglustjóri sagt að ekki verði liðið að fólk taki lögin í eigin hendur.
Fjölnir Sæmundsson formaður Landsambands lögreglumanna spyr á Facebook hvort að liðsmenn Skjaldar Íslands muni í ljósi yfirlýsts tilgangs samtakanna ekki taka þátt í göngunni:
„Vinkona mín í lögreglunni spurði mig hvort ég héldi að það væri ekki öruggt að Skjaldar hópurinn sem gefur sig út fyrir að vera verndari íslenskra kvenna og leigubílstjóra mæti ekki örugglega í Druslugönguna á eftir? Ég held að það hljóti bara að vera.“
Gera verður ráð fyrir því að þessi orð séu sett fram í kaldhæðni.