Vel á fjórða hundrað hafa skrifað undir undirskriftalista til að mótmæla sölu félagsheimilisins Hnitbjarga á Raufarhöfn. Vilja margir íbúar að heimilið verði um ókomna tíð í eigu samfélagsins.
„Nú hefur Norðurþing ákveðið að skoða sölumöguleika félagsheimilis okkar, Hnitbjörg. Við mótmælum þessari ákvörðun harðlega — bæði sem íbúar, brottfluttir Raufarhafnarbúar, aðrir sem eiga djúpar taugar til þessa einstaka staðar og þeir sem vilja leggja málstaðnum lið,“ segir í færslu með undirskriftalista á vefsvæðinu island.is.
Listinn var settur í loftið í gær, fimmtudaginn 3. júlí, og gildir til 1. ágúst næstkomandi. Þegar þetta er skrifað hafa 346 skrifað undir. Það eru umtalsvert fleiri en búa í sjálfu þorpinu á austanverðri Melrakkasléttu. En íbúafjöldinn er í kringum 180 manns.
„Hnitbjörg hefur í áratugi verið hjartað í samfélagi okkar: vettvangur tónleika, ráðstefna, menningarviðburða og ómetanlegra samverustunda bæjarbúa og gesta. Þetta hús stendur ekki aðeins fyrir steinsteypu – heldur tengsl milli kynslóða, raddlaust minningasafn og samastaður í gleði og sorg,“ segir í færslunni. „Með því að skrifa undir undirskriftalistann lýsir þú eindregnum stuðningi við að viðhalda félagsheimilinu Hnitbjörg á Raufahöfn, sem opinberu og lifandi rými fyrir núverandi og komandi kynslóðir. Við viljum ekki sjá Hnitbjörg glatast úr höndum Raufarhafnarbúa Við krefjumst þess að Hnitbjörg verði áfram í eigu samfélagsins – fyrir fólkið, framtíðina og menningararfleifð okkar. Látum rödd okkar heyrast – Hnitbjörg á ekki að fara á sölu!“
Norðurþing er ekki eina sveitarfélagið sem er í söluhugleiðingum á félagsheimilum. Í Skagafirði stendur til að selja félagsheimili Rípurhrepps við litla hrifningu sveitunga í Hegranesi.