Karlmaður hefur verið sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir líkamsárás og gripdeild með því að ráðast á konu í stigahúsi fjölbýlishúss í Reykjavík, með þeim afleiðingum að hún rifbeinsbrotnaði, og stela farsíma hennar.
Samkvæmt ákæru átti brotið sér stað í ágúst 2023. Veittist maðurinn að konunni, sem er um sextugt, inni í stigahúsinu með því að grípa um hana og kasta henni á stéttina fyrir utan stigahúsið þannig að konan lenti á vinstri hlið líkamans, síðan kastað símahulstri í hana og sparkað í vinsti úlnlið hennar. Afleiðingarnar voru þær að konan hlaut fjölbrot á rifjum vinstra megin (sundurbrot á rifbeinum 6-11), mar á hné og mar á öðrum stöðum á úlnlið og hendi. Maðurinn hrifsaði í kjölfarið til sín farsíma konunnar og yfirgaf síðan svæðið.
Maðurinn mætti ekki fyrir dóm og boðaði ekki forföll en ekki hafði tekist að birta honum ákæruna og það var því gert í Lögbirtingablaðinu. Fjarvera mannsins var talin ígildi játningar og því var hann sakfelldur.
Hann hafði ekki áður verið sakfelldur hér á landi fyrir refsivert brot. Það var metið honum til refsiauka að árásin var tilefnislaus og olli konunni töluverðu líkamstjóni. Við hæfi þótti því að dæma hann í 60 daga skilorðsbundið fangelsi.
Konan krafðist um tveggja milljóna króna í miskabætur auk vaxta og dráttarvaxta. Dómnum þótti við hæfi að bæturnar yrðu um 885.000 krónur, auk vaxta og dráttarvaxta. Þar af eru 500.000 krónur í miskabætur en afgangurinn bætur vegna lækniskostnaðar, stuldar á símanum og vegna skemmda sem urðu á gleraugum konunnar.