„Það þurfti eitthvað alveg extra til að loka þessum ástarsamningi. Einhvern veginn varð Sigurður að ná henni vestur úr glaumlífinu í Reykjavík og þá dugði nú ekki að bjóða upp á torf og grjót til að búa í. Þá sló okkar maður til og lét kaupfélagið byggja almennileg híbýli yfir þau og það er húsið fræga á Arngerðareyri,“ segir Karl Axelsson, lögfræðingur og hæstaréttardómari um hjónaband frænku sinnar, Ástu Jónsdóttur, og Sigurðar Þórðarsonar kaupfélagsstjóra sem kenndur er við bæinn Laugaból í Ísafirði á Vestfjörðum.
Fjallað var um ástarsögu Sigurðar og Ástu í útvarpsþættinum Þetta helst á RÚV.
Sigurður lét Kaupfélag Nauteyrarhrepps byggja kastalahúsið fræga á Arngerðareyri við Ísafjörð fyrir Ástu svo hún vildi giftast honum. Kaupfélagið var svo lítið að í því voru einungis 35-55 félagar þegar það starfaði á árunum 1915-1934. Sigurður var kaupfélagsstjóri þess allan tímann. Bygging hússins leiddi til þess að kaupfélagið varð gjaldþrota, þar sem það hafði engan veginn ráð á að byggja þetta fína hús.
Karl segir Sigurð hafa þurft að byggja stórt þar sem annar maður, mun ríkari, vildi einnig vinna ástir Ástu, Stefán Þorláksson úr Mosfellsdal sem Halldór Laxness gerði ódauðlegan í minningabók sinni Innansveitarkróniku. Stefán var frumkvöðull og dugnaðarmaður sem var miklu efnaðri en kaupfélagsstjórinn. Stefán erfði fé eftir föður sinn og varð landskunnur fyrir framkvæmdasemi.
„Þegar Stefán Þorláksson var orðinn hreppstjóri í Mosfellssveit og sestur í hverabú sitt í dalnum, þá gnæfði hann svo hátt yfir aðra menn í sveit þessari, að ekki höfðu aðrir gert betur síðan Egill Skallagrímsson gróf þar í fúakeldum kistur sínar góðar sem sagan kallar silfurkistur af einhverskonar feimni en ég held áreiðanlega að hafi verið gullkistur.“
Þannig lýsir Halldór Laxness honum í Innansveitarkróniku.
„Það var sannarlega ást en eitthvað hefur karlinn hann Sigurður þurft að leggja með sér til að sigra Stebba í Reykjahlíð. Það gerðist svona,“ segir Karl.
Eftir gjaldþrota Kaupfélags Nauteyrarhrepps var fenginn endurskoðandi á vegum Sambands íslenskra samvinnufélaga til að skoða bókhald þess. Endurskoðandinn taldi ómögulegt að selja húsið upp í skuldir. Í sérstakri endurskoðendaskýrslu sem hann skrifaði um um stöðu kaupfélagsins sagði hann að bygging kastalans væri sérstök. „Húsið verður varla hægt að selja fyrir það sem á því hvílir, sökum þess að ekki er sjáanleg þörf fyrir það á þessum stað.“