Forstjóri breska ríkisútvarpsins BBC hvetur eindregið til þess að, og segir raunar vinnu að því hafna, að útsendingar allra miðla þess, sem og annarra fjölmiðla í landinu, verði alfarið í gegnum netið á næsta áratug. Það myndi þýða að tímamót yrðu í sögu þessa elsta ríkisútvarps heims og að hefðbundnum sjónvarps- og útvarpsútsendingum, í gegnum loftnet, sem eiga sér 100 ára sögu yrði hætt. Hann vill einnig endurskoða hið óvinsæla afnotagjald og nýta stofnunina til að auka traust í bresku samfélagi.
Forstjórinn Tim Davie ræddi þetta og fleira sem varðar framtíð BBC á opinberum fundi í gær. Í Bretlandi hefur borið töluvert á umræðu um framtíð BBC og hvort þörf sé á slíkum miðli í stafrænni veröld internetsins.
BBC er ríkisútvarp en slíkir miðlar eru á mörgum öðrum tungumálum en íslensku yfirleitt kallaðir almannaþjónustumiðlar (e. public service broadcasters) en miðlar af þessu tagi eru þá yfirleitt í eigu hins opinbera eins og algengast er í Evrópu eða til að mynda menntastofnana og félagasamtaka en það á við um marga slíka miðla í Bandaríkjunum. Almannaþjónustumiðlar hafa ekki hagnaðarmarkmið að leiðarljósi og hafa oft mun víðtækari skyldum að gegna samkvæmt lögum en einkareknir fjölmiðlar.
BBC var stofnað 1922 en hefur verið rekið í núverandi mynd samkvæmt konunglegri stofnskrá (e. royal charter), sem kveður á um skyldur þess og hlutverk, síðan 1927 sem hefur verið uppfærð reglulega síðan þá.
Davie kallar eftir því að útsendingar allra fjölmiðla í landinu ekki bara BBC verði alfarið færðar á netið á næstum árum og að áætlanir í þá veru verði gerðar á landsvísu. Hann segir BBC hins vegar geta leikið lykilhlutverk við að sjá til þess að slík áætlun verði framkvæmd með sangjörnum hætti og með jafnræði að leiðarljósi. Davie segir að við þetta megi ekki skilja neinn eftir og á þá væntanlega einna helst við eldra fólk.
Hann segir BBC hafa lagt undanfarin ár aukna áherslu á framleiðslu efnis fyrir stafræna miðla og að stofnunin telji réttast að stefna formlega að því að á næsta áratug verði allar útsendingar stafrænar og í gegnum netið. Kallar hann eftir samvinnu við stjórnvöld og aðra fjölmiðla til að þessi breyting gangi sem greiðlegast fyrir sig ekki bara hjá stofnuninni sem hann stýrir heldur fyrir allt landið. Vill hann meina að slíkar breytingar myndu minnka kostnað og hafa ýmisleg önnur góð áhrif. Davie segir stofnunina vera að skoða ýmsar tæknilegar lausnir til að auðvelda áhorfendum að höndla þessar breytingar.
Davie sagði einnig í ræðunni að BBC myndi leggja aukna áherslu á mótvægi við útbreiðslu falsfrétta og upplýsingaóreiðu með því að kanna sannleiksgildi fullyrðinga. Markmiðið sé að auka traust á upplýsingum og stofnunum þjóðfélagsins. BBC hefur þegar komið sérstakri þjónustu á í þessu skyni sem ber heitið BBC Verify en til stendur að efla hana töluvert. Davie segir nauðsynlegt að vinna gegn upplýsingafalsi sem ógni sjálfu lýðræðinu
Eins og raunin hefur verið með íslenska ríkisútvarpið er fjármögnun BBC umdeild í Bretlandi. Helsti tekjustofninn er afnotagjald sem lagt er á hvert á heimili og er greitt ef á heimilinu er sjónvarpstæki sem tekur við útsendingum í gegnum loftnet. Ljóst er því að breyta þarf þessu ef slíkar útsendingar eiga að leggjast af. Davie segir hins vegar að hann sé tilbúinn til að endurskoða afnotagjaldið og ræða nýjar fjármögnunarleiðir. Hann leggur hins vegar áherslu á að BBC verði að hafa nægilega traustan fjárhag til að sinna hlutverki sínu og skyldum og koma verði í veg fyrir hnignun stofnunarinnar en töluvert hefur verið um niðurskurð hjá henni undanfarin misseri.
Davie telur nauðsynlegt að hvernig sem BBC verði fjármagnað í framtíðinni verði að sjá til þess að sem flestir landsmenn leggi sitt af mörkum. Hvort það yrði í formi nefskatts eins og hér á landi, fjölmiðlagjalds sem lagt er á eitt tæki, sem tekur við stafrænum útsendingum, á hverju heimili eins og í Danmörku eða með öðrum leiðum á eftir að koma í ljós.
Þegar kemur að fjármögnuninni telur Davie þó alveg ljóst að ein breyting kæmi ekki til greina og velta má því fyrir sér hvort það mætti ekki horfa til þessara orða hans þegar rætt er um fjármögnun RÚV. Davie þvertekur fyrir að BBC fari að selja auglýsingar eða verði breytt í áskriftarmiðil:
„Það myndi ekki standast kröfur um uppbyggingu trausts almannaþjónustumiðils.“