fbpx
Þriðjudagur 06.maí 2025
Fréttir

Ellilífeyrisþegar sagðir hafa valdið vatnstjóni á gistiheimili

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 6. maí 2025 18:00

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa er til húsa í Borgartúni 29 í Reykjavík.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur komist að niðurstöðu í ágreiningsmáli manns við gistiheimili, en nafn þess og mannsins kemur ekki fram í úrskurði nefndarinnar. Maðurinn hafði leigt tvö herbergi á gistiheimilinu fyrir föður sinn og tvo vini hans sem allir eru ellilífseyrirþegar. Gistiheimilið sakaði hins vegar ellilífeyrisþegana um að hafa valdið vatnstjóni á öðru herberginu og gjaldfærði kostnað vegna tjónsins á greiðslukort mannsins, sem krafðist endurgreiðslu og sagði mennina ekki hafa valdið neinu tjóni. Nefndin komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að gistiheimilið hefði fært nægilegar sönnur á að ellilífeyrisþegarnir hafi valdið tjóninu.

Maðurinn bókaði tvö herbergi fyrir föður sinn og tvo vini hans á gistiheimilinu í september 2024, og greiddi fyrir það um 120.000 krónur. Við þrif á öðru herbergjanna, á meðan dvölinni stóð, varð starfsmaður gistiheimilisins var við vatnsskemmdir á gólfefni. Taldi yfirstjórn gistiheimilisins að gestir herbergisins bæru ábyrgð á tjóninu og gjaldfærði greiðslukort mannsins tveimur dögum síðar um 90.000 krónur vegna þessa.

Maðurinn vildi hins vegar meina að ellilífeyrisþegarnir hafi ekki valdið tjóninu. Mennirnir væru bæði heiðarlegir og ábyrgir og hafi af forsvarsmanni gistiheimilisins ranglega og vísvitandi verið sakaðir um hafa valdið skemmdunum á gólfefninu. Hafi þeim verið tilkynnt skömmu fyrir útritun að við þrif á öðru herbergjanna degi fyrr hafi ætlaður vatnsleki og skemmdir á gólfefninu uppgötvast. Hafi ellilífeyrisþegarnir hafnað því alfarið að vera valdir að tjóninu. Degi síðar hafi greiðslukort hans verið gjaldfært um 90.000 krónur, án hans samþykkis.

Gamlar skemmdir – Pollur

Maðurinn taldi að skemmdirnar hefðu verið til staðar áður en mennirnir stigu fæti inn á gistiheimilið. Engin fullnægjandi gögn hefðu verið lögð fram sem bentu til annars. Sagði maðurinn að ljósmyndir sem gistiheimilið hefði lagt fram sýndu skemmdir á parketinu með uppsöfnuðum óhreinindum sem gæfi til kynna að þær hafi verið til staðar lengi. Enn fremur væri sturtuhengi í sturtuklefa baðherbergisins áberandi stutt sem gæti auðveldlega leitt til þess að vatn læki út á gólf, einnig hjá öðrum gestum.

Í andsvörum gistiheimilisins kom fram að við þrif á öðru herbergjanna, eftir fyrri nótt dvalar mannanna, hafi orðið vart við nokkra bleytu, bæði á gólfi bað- og svefnherbergisins. Við sófa í svefnherberginu hafi verið vatnspollur og blaut handklæði legið á gólfinu. Þá hafi vatnsskemmdir verið farnar að myndast á parketi svefnherbergisins. Umrætt herbergi hafi verið þrifið degi áður vegna brottfarar annars gests en þá hafi engar skemmdir verið á gólfefni þess. Í kjölfarið hafi ljósmyndir verið teknar. Hafi mennirnir síðan verið beðnir um að hafa samband við mótttöku gistiheimilisins sem þeir hafi gert morguninn eftir og þá í kjölfarið farið fram sameiginleg skoðun á herberginu. Í fyrstu hafi ellilífeyrisþegarnir neitað  að vatn hefði lekið á gólfið af þeirra völdum. Síðar hafi þeir breytt sögu sinni og staðfest að vatn hefði í raun lekið fram á gólf eftir notkun á sturtu í baðherberginu en það hafi verið vegna þess að ekki hafi verið hægt að loka hurðinni á því. Hafi þeir fullyrt að vatnið hefði verið þurrkað fljótt í burtu og því hafi engar skemmdir átt að myndast á gólfefninu. Benti gistiheimilið á að mennirnir hefðu aldrei haft samband við móttökuna vegna vankanta á sturtu eða baðherbergishurðinni.

Vildi gistiheimilið meina að tjónið á gólfi herbergisins hafi verið umtalsvert og áætlaður kostnaður við nýtt gólefni og vinnu við að koma því fyrir næmi að minnsta kosti 180.000 krónum en komið hefði verið til móts við manninn með því að gjaldfæra greiðslukort hans um aðeins 90.000 krónur.

Forstofa

Minnti gistiheimilið enn fremur á að á umræddu herbergi eins og fleirum á staðnum væri baðherbergi og svefnherbergi aðskilin með forstofu og því ætti vatn ekki að eiga greiða leið frá baðherberginu yfir í svefnherbergið eins og raunin varð í þessu tilfelli. Hafi aldrei áður lekið með þessum hætti frá sturtunni yfir í svefnherbergið.

Í niðurstöðu kærunefndar vöru- og þjónustukaupa er vísað til þeirra ljósmynda sem liggi fyrir og staðfest sé að myndirnar hafi verið teknar meðan á miðri dvöl ellilífeyrisþeganna stóð. Myndirnar staðfesti að tjón hafi orðið. Þær sýni nokkra bleytu á gólfinu og bólgur víða á samskeytum milli parketplanka. Þá liggi fyrir skrifleg samskipti milli starfsmanna gistiheimilisins umrædda daga þar sem þeir hafi rætt sín á milli um aðkomuna að herberginu, skemmdir á gólfefninu sem og næstu skref í málinu. Nefndin segir að með þessum gögnum hafi gistiheimilið leitt nægjanlegar líkur að því að tjónið hafi sér stað á dvalartíma ellilífeyrisþeganna og að afar ósennilegt sé að tjónið sé eldra, líkt og maðurinn hafi haldið fram eða að of stuttu sturtuhengi sé um að kenna.

Að beiðni nefndarinnar lagði gistiheimilið fram gögn um fjárhagslegt tjón en samkvæmt yfirliti viðhaldsstjóra nemur viðgerðarkostnaður alls um 264.000 krónum en að viðgerðin hafi þó enn ekki farið fram.

Telur nefndin þar með að gistiheimilið hafi sýnt fram á tjón sitt og rekja megi það til ellilífeyrisþeganna sem voru eins og áður segir á vegum sonar eins þeirra. Kröfum sonarins um að fá 90.000 krónurnar, sem greiðslukort hans var gjaldfært um vegna tjónsins, var því hafnað.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Hanna Katrín segir leiðréttinguna löngu tímabæra og þjóðina eiga skýlausan rétt á henni

Hanna Katrín segir leiðréttinguna löngu tímabæra og þjóðina eiga skýlausan rétt á henni
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Smíða brú á milli Rússlands og Norður-Kóreu

Smíða brú á milli Rússlands og Norður-Kóreu
Fréttir
Í gær

Spessi ætlaði að verða barnfóstra en er einn þekktasti ljósmyndari landsins – „Ég hafði ekki mikla trú á mér“

Spessi ætlaði að verða barnfóstra en er einn þekktasti ljósmyndari landsins – „Ég hafði ekki mikla trú á mér“
Fréttir
Í gær

Sagðist vera leppur en dró allt til baka og beið svara í átta ár – Viðurkenndi leppun fyrir dómi

Sagðist vera leppur en dró allt til baka og beið svara í átta ár – Viðurkenndi leppun fyrir dómi
Fréttir
Í gær

Ísraelsmenn ætla að hernema Gasaströndina

Ísraelsmenn ætla að hernema Gasaströndina
Fréttir
Í gær

Ágústa mætir í dómsal til að styðja þolanda Vopnafjarðarhrottans – „Hvers vegna lítur dómskerfið á þessi ofbeldisverk svo ofboðslega vægum augum?“

Ágústa mætir í dómsal til að styðja þolanda Vopnafjarðarhrottans – „Hvers vegna lítur dómskerfið á þessi ofbeldisverk svo ofboðslega vægum augum?“