Nokkuð athyglisvert innlegg var birt á Facebook-síðu Heilsugæslunnar í Borgarnesi fyrr í dag. Þar er tilkynnt að vegna skorts á læknum á næstunni sé aðeins hægt að bjóða upp á styttri viðtöl við lækna næstu vikur. Einnig beina læknarnir á stöðinni því til íbúa á svæðinu sem koma til læknis að sóa ekki tímanum í annað en það sem tengist ástæðu þess að viðkomandi er þangað kominn og að koma með aðeins eitt erindi. Sömuleiðis biðja læknarnir um frið utan vinnutíma.
Undir færsluna ritar einn af læknunum á stöðinni.
Í færslunni segir að vegna forfalla í læknahópnum verði að gera breytingar á bókunarfyrirkomulagi á heilsugæslunni næstu 1-2 mánuði. Bókuð viðtöl styttist úr 20 mínútum í 10 mínútur. Þetta sé það skásta sem hægt sé að bjóða, en með þessu sé reynt að tryggja aðgengi að heimilislækni fyrir fleira fólk, en hvert viðtal verði styttra sem geti komið niður á gæðum þjónustunnar:
„Við höfum heimild stjórnar til að ráða inn fleiri lækna til skemmri og lengri tíma og erum auðvitað með alla anga úti, en slegist er um alla starfandi lækna á þessum árstíma.“
Í færslunni er þess getið að eftir sem áður verði læknir á vakt allan sólarhringinn og því er beint til fólks að hafa fyrst samband í síma 1700 þar sem hjúkrunarfræðingur muni forgangsraða erindum.
Í færslunni kemur sömuleiðis fram að séu mál fólks í vinnslu lækna á stöðinni og þurfi það að koma skilaboðum til læknanna eða fá upplýsingar sé hægt að biðja um símtal við hjúkrunarfræðing á heilsugæslunni.
Að lokum eru í færslunni nokkur skilaboð frá læknum stöðvarinnar til íbúa í Borgarnesi og nærsveitum:
„Við læknarnir treystum því að skjólstæðingar okkar skilji nauðsyn þess að koma aðeins með eitt erindi í hvert bókað viðtal. Svo má bóka annan tíma síðar fyrir næsta mál.“
„Okkur þykir þetta leitt. Þetta er tímabundið og ekki fullkomið. Við erum að gera það skásta í stöðunni sem okkur er búin. Við leggjum hart að okkur og reynum að tryggja aðgengi.“
Lögð er áhersla á að fólk haldi sig við efnið þegar það mætir til læknis:
„Vinsamlegast ekki eyða læknatímanum ykkar í að ræða skipulag eða stjórnmál. Kvörtunum og hrósum má koma á framfæri til HVE (Heilbrigðisstofnun Vesturlands, innsk. DV) og Landlæknis rafrænt ef mikið liggur við.“
Læknarnir óska líka eftir friði á almannafæri:
„Ennfremur biðjum við læknar einlæglega um frið frá vinnutengdum málum utan vinnutíma, s.s. í búðinni, leikskólanum og íþróttamiðstöðinni.“