fbpx
Miðvikudagur 30.apríl 2025
Fréttir

Sigmundur Davíð skilur ekkert í Isavia – „Það vill líka hafa áhrif á afstöðu borgaranna til hinna ýmsu mála“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 16. mars 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir í nýrri Facebook-færslu að hann eigi bágt með að skilja á hvaða vegferð hið opinbera hlutafélag Isavia sé. Segir hann félagið sýna meiri áhuga á pólitík en því að sinna sínu hlutverki, sem er að reka flugvelli landsins.

Ástæða þessarar óánægju Sigmundar Davíðs er einkum skilti sem hann rakst á í Leifsstöð. Virðist það vera sett upp af Isavia en á skiltinu er mikilvægi tökuorða í íslensku tíundað. Birtir Sigmundur Davíð mynd af skiltinu en yfirskrift þess er „Fleyg orð“:

„Orð ferðast yfir höf og landamæri. Sum staldra aðeins stutt við, önnur festa rætur. Tökuorð eru dýrmætur og sjálfsagður hluti af heildinni og auðha tungumálið okkar.“

Sigmundur segir þessi orð fela í sér pólitíska afstöðu og skjóti skökku við í ljósi þess hversu erfitt uppdráttar íslenskan hafi átt í Leifsstöð;

„Stundum virðist manni að Isavia sé áhugasamara um pólitískan erindisrekstur en rekstur flugvalla. Félagið lætur ekki ímyndarauglýsingar um sjálft sig nægja. Það vill líka hafa áhrif á afstöðu borgaranna til hinna ýmsu mála. Þetta opinbera hlutafélag hefur hins vegar reynst andsnúið því að leyfa íslenska fánanum að njóta sín í Leifsstöð og þekkt er umræðan um tregðu félagsins til að leyfa íslensku að vera í fyrirrúmi á íslenskum flugvöllum. Hvort tveggja myndi þó líklega bæta upplifun erlendra gesta fremur en hitt.“

Opinber hlutafélög

Sigmundur Davíð segir Isavia þó ekki vera eina dæmið um opinbert hlutafélag sem fari út fyrir verksvið sitt:

„Opinberum hlutafélögum virðist stundum vera illa við að eigendur félaganna skipti sér af rekstri þeirra en þeim mun áhugasamari um að sinna hugðarefnum utan síns sviðs.“

Hann er ekkert sérstaklega sáttur við þetta lof í garð tökuorða:

„Nýjasta tilkynning Isavia til grandalausra farþega sem eiga leið um Keflavíkurflugvöll snýst um aðdáun félagsins á tökuorðum í íslensku. Tökuorð eru ekki nýtilkomin í íslensku frekar en í öðrum málum. Til þessa hafa Íslendingar þó státað sig af viðleitni til að skapa íslensk nýyrði og oft hlotið aðdáun annarra fyrir. Ætli starfsmenn á Keflavíkurflugvelli verði nú hvattir til að minna fólk á að taka kompúterinn og telefóninn upp úr töskunni fyrir seiftítékkið á leið í jettið?“

Eitthvað meira?

Sigmundur Davíð telur mögulegt að Isavia sé ekki bara svona áhugasamt um tökuorð og að baki þessu búi eitthvað meira:

„Hugsanlega hefur Isavia bara svona mikinn áhuga á fjölgun og vernd tökuorða í íslensku þrátt fyrir hóflegan áhuga á tungumálinu að öðru leyti. En e.t.v. ber að skilja þetta sem passíf agressíf [tökuorð] skilaboð um eitthvað annað. Ég get nefnt eitt tökuorð sem virðist vera að festa sig í sessi sem e.t.v. má segja að „auðgi tungumálið” að því leyti að það hjálpar okkur að skilja opinber hlutafélög. Það er orðið „woke”.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Bandarískur ferðamaður sýndi hvað 7 daga frí á Íslandi kostaði hana

Bandarískur ferðamaður sýndi hvað 7 daga frí á Íslandi kostaði hana
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Skatturinn sagður hafa sýnt björgunarsveit of mikla hörku

Skatturinn sagður hafa sýnt björgunarsveit of mikla hörku
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Þorbjörg svarar Guðna: Segir hann hafa gleymt sér og ekki tekið eftir öllu þessu

Þorbjörg svarar Guðna: Segir hann hafa gleymt sér og ekki tekið eftir öllu þessu
Fréttir
Í gær

Sót frá líkbrennslu gerir íbúum í nágrenni Fossvogskirkjugarðs lífið leitt

Sót frá líkbrennslu gerir íbúum í nágrenni Fossvogskirkjugarðs lífið leitt
Fréttir
Í gær

Guðni Th. kennir á námskeiði um Þingvelli

Guðni Th. kennir á námskeiði um Þingvelli
Fréttir
Í gær

Úrgangur úr fiskvinnslu lak út á höfnina í Patreksfirði – Heppni að menn á olíuskipi sáu lekann

Úrgangur úr fiskvinnslu lak út á höfnina í Patreksfirði – Heppni að menn á olíuskipi sáu lekann