fbpx
Miðvikudagur 11.september 2024
Fréttir

Bretland logar

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 4. ágúst 2024 16:53

Mynd frá árás sem gerð var fyrr í dag á hótel sem hýsir hælisleitendur í Rotherham í Bretlandi.Mynd/Christopher Furlong/Getty Images)

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og fram hefur komið undanfarna daga hafa ofbeldisfull mótmæli, sem þróast hafa út í það sem vart er hægt að kalla annað en óeirðir, geisað um allt Bretland. Hafa hópar manna m.a. ráðist á og slasað lögreglumenn, valdið víðtækum skemmdarverkum, brotist inn í verslanir og stolið öllu steini léttara, ráðist að moskum og á fólk af erlendum uppruna.

Ástandið virðist ekkert vera að skána en það hefur komið upp í fjölda borga, aðallega á Englandi en einnig í Belfast á Norður-Írlandi. Upphaf ástandins má rekja til hnífsstunguárásar í bænum Southport 29. júlí síðastliðinn þar sem 3 stúlkur, tvær sex ára og ein sjö ára létust þegar 17 ára piltur réðst með hníf inn á dansnámskeið fyrir börn. Sögusagnir fóru fljótt á kreik um að pilturinn væri hælisleitandi og múslimi. Óeirðir brutust út í kjölfarið og gerði hópur manna sem andsnúnir eru innflytjendum aðsúg að mosku í bænum og krafðist þess að straumur ólöglegra innflytjenda yrði stöðvaður.

Óeirðirnar hafa síðan breiðst út um allt land. Engu breytti þótt það væri gert opinbert að pilturinn væri ekki múslimi og þar að auki fæddur í Bretlandi, en barn innflytjenda. Hópar hægri öfgamanna sem er sérstaklega uppsigað við straum innflytjenda og sér í lagi múslima til Bretlands hafa haft sig sérstaklega mikið í frammi. Þar eru samtökin English Defence League sögð framarlega í flokki og borið hefur á því undanfarna daga að rætt hafi verið um það í Bretlandi að samtökin verði skilgreind sem hryðjuverkasamtök.

Einnig hefur komið til átaka milli þessara hópa og annarra hópa sem hlynntari eru innflytjendum og skilgreina sem mig sem baráttumenn gegn hægri öfgum og hafa komið af stað gagnmótmælum til að bregðast við mótmælum hinna.

Fjölmörg atvik

Í einni frétt er ekki mikið rými til að telja upp allar borgir þar sem óeirðir hafa geysað og öll þau atvik sem upp hafa komið en hér verða nokkur dæmi nefnd.

Hent hefur verið ýmsu í lögreglumenn til að mynda logandi ruslatunnum, flöskum, steinum, gangstéttarhellum og skotið flugeldum á þá.

Ráðist var inn í hótel í Rotherham sem hýsir hælisleitendur og kveikt í því. Fregnir hafa ekki borist af því hvort hælisleitendur hafi slasast eða þaðan af verra.

Ráðist var á átta konur sem starfa sem hjúkrunarfræðingar í Sunderland með grjótkasti þegar þær voru á leið til vinnu, fyrir það eitt að þær eru ættaðar frá Fillipseyjum.

Fleiri dæmi eru um að ráðist hafi verið á fólk fyrir það eitt að vera að vera af erlendum uppruna.

Á götum og torgum hafa verið hrópuð slagorð og níð í garð útlendinga og þá einkum múslima.

Yfir 100 manns hafa verið handteknir.

Sitt sýnist hverjum á hinum pólitíska ási

Bresk stjórnvöld hafa brugðist hart við ástandinu. Moskum um allt land verður þegar í stað boðið upp á auknar öryggisráðstafanir. Rætt hefur verið um að setja upp sólarhingsvaktir í dómstólum til að afgreiða mál allra hinna handteknu sem hraðast og lögregla í sumum borgum hefur fengið aukið vald til að stöðva fólk og leita á því og vísa fólki sem tekur þátt í óeirðum burt af viðkomandi svæði.

Keir Starmer forsætisráðherra segir ástandið ekkert eiga skylt við mótmæli heldur sé um hreinræktað ofbeldi að ræða og að óeirðaseggirnir muni sjá eftir þátttöku sinni. Hann segist vita að fólk af öðrum litarhætti en hvítum óttist nú mjög um öryggi sitt en fullvissar þann hóp um að óeirðaseggirnir séu ekki fulltrúar Bretlands og að þeir verði dregnir til ábyrgðar.

James Cleverly, sem var innanríkisráðherra í ríkisstjórn Íhaldsflokksins þegar stjórnarskipti urðu í þingkosningunum í síðasta mánuði og Verkamannaflokkurinn tók við, segir nákvæmlega enga afsökun fyrir hegðun af þessu tagi. Cleverly sem nú er skuggaráðherra innanríkismála segir að máttur laga og reglu eigi að mæta slíkum einstaklingum af fullum þunga.

Nigel Farage leiðtogi og þingmaður hægri popúlista flokksins Umbót (e. Reform) segir ástandið hins vegar ekki hægri öfgmönnum að kenna. Það sé afleiðing og feli í sér viðbrögð vegna aukinnar lögleysu undanfarinna ára með til dæmis fjölgun stunguárása. Hann segir á samfélagsmiðlinum X að herða verði lögæslu og ekki taka þá sérstakt tillit til kynþáttar grunaðra brotamanna eins og raunin hafi verið.

Að lokum má geta þess að eitt ríki, Malasía, hefur þegar varað ríkisborgara sína við ferðalögum til Bretlands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Gera lítið úr fyrirhuguðum mótmælum: „Þá komu um fjöru­tíu manns á Aust­ur­völl“

Gera lítið úr fyrirhuguðum mótmælum: „Þá komu um fjöru­tíu manns á Aust­ur­völl“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Geta Vesturlönd sigrað rússneska herinn? Stjórnmálamaður varpar þessari eldfimu spurningu fram

Geta Vesturlönd sigrað rússneska herinn? Stjórnmálamaður varpar þessari eldfimu spurningu fram
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ríkisstörfum fjölgað umfram íbúafjölgun – Mun meiri fjölgun á landsbyggðinni

Ríkisstörfum fjölgað umfram íbúafjölgun – Mun meiri fjölgun á landsbyggðinni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Daníel fellst á dóm í barnaníðsmáli – Neitar sök

Daníel fellst á dóm í barnaníðsmáli – Neitar sök