Miðillinn greinir frá því að fjölmenn minningarstund hafi verið haldin í Norðfjarðarkirkju í gær eftir að tæplega tveggja ára barn lést í byrjun vikunnar eftir bráð veikindi.
Barnið veiktist skyndilega í síðustu viku og var flutt með sjúkraflugi til Akureyrar, þaðan til Reykjavíkur og síðan til Svíþjóðar. Barnið lést aðfaranótt sunnudags á sjúkrahúsi í Svíþjóð.
Jóna Kristín segir við Austurfrétt að sorgin í samfélaginu sé þungbær og hugur fólks hjá foreldrum, bræðrum og fjölskyldu barnsins.
„Kirkjan var troðfull og þurfti að bæta við stólum til að fólk kæmist fyrir. Það sýnir sig að þegar svona áföll verða að fólki er nauðsynlegt að koma saman, leita stuðnings hvert hjá öðru og finna samkennd, samhryggð og samstöðu,“ segir Jóna við Austurfrétt þar sem nánar er fjallað um málið.