Fjórir rússneskir heimildarmenn sögðu Reuters þetta. Þrír þeirra sögðu að Pútín hafi látið í ljós óánægju sína með það sem hann telur vera tilraunir, sem Vesturlönd styðja, til að koma í veg fyrir vopnahlésviðræður.
„Pútín getur barist eins lengi og þörf krefur en Pútín er einnig reiðubúinn til að semja um vopnahlé, að frysta stríðið,“ sagði háttsettur heimildarmaður innan rússneska stjórnkerfisins. Er hann sagður hafa tekið þátt í samtölum um þetta í Kreml ásamt Pútín og fleirum.
Heimildarmenn Reuters sögðu að það að frysta stöðuna á vígvellinum miðað við núverandi víglínur sé ófrávíkjanleg krafa af hálfu Pútíns því það muni gera Rússum kleift að halda stórum hlutum fjögurra úkraínska héraða en þó án þess að hafa náð neinu þeirra algjörlega á sitt vald.
Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu, hefur ítrekað sagt að ekki verði samið um vopnahlé.