fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Líkamsræktarstöð hirti ekki um að skipta út 10 ára gömlum ströppum sem endaði með ósköpum

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 16. maí 2024 16:06

Héraðsdómur Reykjavíkur. Mynd: Maggi gnúsari.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt manni í vil sem höfðaði mál gegn Sjóvá-Almennar hf. til greiðslu úr ábyrgðartryggingu líkamsræktarstöðvar, en maðurinn starfaði þar sem yfirþjálfari, vegna slyss sem hann varð fyrir við störf. Slysið varð þegar svokallaður strappi, sem hélt fimleikahringjum sem maðurinn hékk í föstum við loftið í stöðinni, slitnaði með þeim afleiðingum að hann skall í gólfið. Kom í ljós fyrir dómi að strappanum hafði ekki verið skipt út undanfarin 10 ár áður en slysið varð og úrskurðaði héraðsdómur manninum í vil.

Slysið varð 2021 þegar maðurinn hékk í hringjunum og var að prufukeyra æfingu sem hann ætlaði að láta þátttakendur á æfingu sem hann átti að stjórna gera. Fimleikahringirnir héngu í svokölluðum ströppum sem þræddir voru á efri enda í gegnum augnró sem soðin var við múrbolta sem festur var í loftið. Slysið varð þegar annar strappinn slitnaði með þeim afleiðingum að maðurinn féll harkalega í gólfið á höfuð og herðar og var í kjölfarið fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann.

Maðurinn segist hafa hlotið heilahristing í slysinu og verið óvinnufær allar götur síðan. Hann sé meðal annars orkulítill, eigi erfitt með að hugsa, sé ljósfælinn og þoli illa hvers kyns áreiti. Maðurinn taldi að vinnuveitandi sinn, ónefnt fyrirtæki sem rekur hina ónefndu líkamsræktarstöð, hafi sýnt af sér saknæma vanrækslu, með því að sinna viðhaldi og umhirðu ekki sem skyldi, og bæri því bótaskyldu gagnvart honum úr ábyrgðartryggingu sinni. Því hafnaði fyrirtækið alfarið.

Ekki skipt um í 10 ár

Í dómnum segir að fyrirtækið fullyrði að umræddir strappar séu yfirfarnir á tveggja vikna fresti og skipt út ef þörf krefur. Maðurinn segir það verklag ekki hafa verið viðhaft áður en slysið varð 2021. Það staðfesti færsla sem sett hafi verið inn í Facebookhóp starfsmanna í desember 2021. Þar komi fram að þessu verklagi hafi verið komið á eftir slysið og þá öllum ströppum skipt út. Starfsmenn hafi verið beðnir að fylgjast vel með ströppunum og því hvort merki væri um þeir væru að eyðast. Tekið hafi verið fram að strapparnir sem slitnuðu hafi verið 10 ára gamlir. Þetta vildi maðurinn meina að staðfesti vanrækslu fyrirtækisins en söluaðilar þessarar tegundar af ströppum hefðu mælt með því að þeim væri skipt út árlega vegna slits.

Maðurinn færði einnig rök fyrir því að strapparnir hefðu ekki verið festir í loftið í samræmi við leiðbeiningar söluaðila sem hefði stuðlað að hraðara sliti.

Fyrirtækið vildi meina að maðurinn hefði sjálfur átt að fylgjast með því að búnaðurinn væri í lagi ekki síst þar sem hann hefði borið ábyrgð sem yfirþjálfari. Maðurinn vildi meina að það hefði verið ómögulegt því strapparnir hefðu verið festir við loftið og hann því þurft að nota einhvers konar lyftu til að geta fylgst almennilega með ástandi þeirra.

Fyrirtækið hafnaði sönnunargildi Facebookfærslunnar sem maðurinn vísaði til og sagði hana ekki sanna að verklag við eftirlit með ströppum hafi ekki verið til staðar fyrir slysið og færslan sannaði heldur ekki að þeim hefði ekki verið skipt út í 10 ár. Starfsmaðurinn sem skrifaði færsluna hafi ekki verið byrjaður að starfa hjá fyrirtækinu 10 árum fyrir slysið og alls óljóst sé hvaðan hann hafi þessar upplýsingar. Það sé heldur ekki rétt hjá manninum að söluaðili hafi mælst til þess að ströppunum væri skipt út árlega.

Ekki gengið rétt frá

Í niðurstöðu dómsins er tekið undir með fyrirtækinu að það sé ekki rétt að söluaðili hafi mælst til þess að skipt yrði um strappa árlega. Gögn málsins sýni hins vegar fram á að frágangur búnaðarins hafi ekki verið í samræmi við leiðbeiningar söluaðilans. Strapparnir hafi verið þræddir í ró með köntuðu og ósléttu yfirborði en ekki ávölu eins og söluaðili hafi mælt með. Þetta hafi stuðlað að hraðara sliti. Ljósmyndir af rónni og ströppunum sýni glögglega fram á þetta en á myndunum sjáist að strapparnir hafi trosnað.

Dómurinn segir einnig að fullyrðingar um að maðurinn hafi sjálfur borið ábyrgð á að hafa eftirlit með búnaðinum séu ósannaðar þar sem enginn skriflegur samningur eða verklýsing hafi legið fyrir þar sem þetta kom fram. Fyrirsvarsmaður fyrirtækisins hafi staðfest fyrir dómi að fyrir slysið hafi ekkert skriflegt verklag verið til staðar um reglubundið eftirlit með búnaði. Slysið hafi heldur ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins sem hefði getað kannað hvort slíkt verklag hafi verið til staðar eða hvort maðurinn hafi borið ábyrgð á eftirliti með búnaðinum.

Það er því niðurstaða héraðsdóms að slysið megi rekja til vanrækslu fyrirtækisins og maðurinn eigi rétt á bótagreiðslum úr ábyrgðartryggingu þess hjá Sjóvá-Almennum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Harmleikurinn í Kiðjabergi – Gediminas varð Victoras að bana

Harmleikurinn í Kiðjabergi – Gediminas varð Victoras að bana
Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Katrín upplifði sorg eftir Alþingiskosningarnar

Katrín upplifði sorg eftir Alþingiskosningarnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Útför Sólons fór fram í dag – „Mikið er ég reið og sorgmædd yfir aðgerðarleysi Icelandair í kjölfar andláts þíns“

Útför Sólons fór fram í dag – „Mikið er ég reið og sorgmædd yfir aðgerðarleysi Icelandair í kjölfar andláts þíns“