Halla Hrund Logadóttir nýtur sem fyrr mest fylgis og mældist það 26,0% í könnuninni sem gerð var dagana 7. til 12. maí síðastliðinn. Katrín Jakobsdóttir er þar á eftir með 19,2% fylgi og Baldur Þórhallsson er svo í þriðja sæti með 17,9% fylgi. Jón Gnarr er með 13,8% fylgi.
Hástökkvarinn er hins vegar Halla Tómasdóttir og mælist fylgi hennar nú 12,5% sem er rúmlega tvöfalt meira en hún hefur fengið í síðustu könnunum. Í umfjöllun Morgunblaðsins um könnunina í dag kemur fram að ekki sé annað að sjá en að hún taki fylgi frá öllum fjórum frambjóðendunum sem eru fyrir ofan hana.
Þá er bent á það í umfjölluninni að flestir telji að hin raunverulega barátta um forsetastólinn verði á milli Höllu Hrundar og Katrínar. Segja 36,4% aðspurðra að Halla Hrund sé sigurstranglegust en 35,0% að Katrín sé sigurstranglegust. Þar á eftir kemur Baldur Þórhallsson en 13,8% telja að hann muni fá flest atkvæði í kosningunum.