fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

María Sigrún svarar Degi fullum hálsi og birtir samskiptin – Segir viðbrögð fyrrum borgarstjóra „nýja upplifun“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 8. maí 2024 16:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjallað var um bensínstöðvalóðamál Reykjavíkurborgar í Kastljósi á mánudag. Um var að ræða fréttaskýringu Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur sem upphaflega átti að sýna í Kveik.

Dagur B. Eggertsson, fyrrum borgarstjóri, hefur gagnrýnt umfjöllunina harðlega og segir Maríu Sigrúnu ekki hafa gætt sanngirni í framsetningu. Umfjöllun hennar hafi verið einhliða, ýkjukennd og röng í mikilvægum atriðum.

Sjá einnig:Dagur undrandi á Kastljóssþætti Maríu Sigrúnar – „Drungalegt fundarherbergi og fiðlutónlist undir“

María Sigrún hefur nú svarað fyrir sig í langri færslu á Facebook þar sem hún vísar til heimilda máli sínu til stuðnings. Meðal annars gefur hún lítið fyrir ásakanir Dags um að hún hafi viljandi dregið hann í óþarflega langt viðtal í drungalegum fundarsal borgarráðs. Viðtalið var tekið að vori til í kringum hádegi, eða um hábjartan dag.

„Dagur birtir tölvupóstsamskipti okkar opinberlega. Það er ný upplifun fyrir mig. Hann gerir athugasemd við að ég hafi ekki greint frá innihaldi póstsins í þættinum þar vísar hann í lið í samþykktinni sem hann segir alveg skýra að „einungis verði krafist greiðslu gatnagerðargjalda af hendi lóðarhafa“. Hvers vegna stóð ekki skýrar í samþykktinni að til stæði að gefa olíufélögunum byggingarrétt fyrir milljarða? Hvers vegna vann borgin ekkert kostnaðarmat og ekkert lögfræðiálit áður en menn settust við samningaborðið?“

María ítrekar það sem kemur fram í umfjöllun hennar að fordæmi séu vissulega fyrir því að sveitarfélag taki til sín lóðir eftir að lóðarleigusamningur rennur sitt skeið. Dagur vísi til þess að slíkt væri ekki í hag borgarbúa en færi þó engin rök fyrir þeirri fullyrðingu sinni.

Tekið var fram að samningar voru samþykktir þegar borgarstjórn var í fríi, en ekki borgarráð líkt og Dagur haldi fram. Hins vegar hafi María vissulega furðað sig á því að borgarráð hafi tekið þetta mál framhjá umræðum borgarstjórnar, en stór mál fara að jafnaði í ítarlegar umræður í borgarstjórn. Engar skýringar hafi verið gefnar á því hvers vegna sá hátturinn var hafður á.

Þar sem Dagur hafi birt tölvupóstsamskipti sín við Maríu gerir hún slíkt hið sama. Þar má sjá ítarlega eftirfylgni Maríu í kjölfar viðtals hennar við Dags og viðbrögð Dags við spurningunum.

 

 

Til upprifjunar þá varðar málið samninga sem borgin gerði við olíufélögin um svokallaðar bensínstöðvalóðir. Um er að ræða bensínstöðvar í rótgrónum íbúðahverfum sem meirihlutinn í borginni vildi losna við og fá íbúðauppbyggingu í staðinn. Þar sem olíufélögin eiga þessar bensínstöðvar taldi borgin nauðsynlegt að ganga að samningaborðinu með ákveðnar gulrætur til að liðka fyrir áformum sínum. Þessi gulrót var í formi þess að borgin féll frá svonefndum viðbótargjöldum, eða innviðagjaldi og byggingargjaldi.

Þessi ákvörðun hefur verið umdeild og túlkuðu margir þennan hvata borgarinnar sem gífurlegan örlætisgerning þar sem ljóst væri að byggingarrétturinn væri milljarða virði. Eins var gerð athugasemd við að af þeim 12 lóðum sem um ræðir höfðu lóðarleigusamningar runnið sitt skeið í 5 tilvikum og skammur tími eftir af einum til viðbótar.

Meirihlutinn hefur hafnað því að nokkuð sé athugavert við þessa samninga. Hér sé borgin að flýta fyrir uppbyggingu sem sé í allra hag auk þess að ná markmiðum í loftlagsstefnu og í átt að orkuskiptum.

Í umfjöllun Maríu Sigrúnar benti hún á að í sumum lóðarleigusamningunum hafi komið skýrt fram að ef borgin tæki lóðirnar aftur til sín þá bæri olíufélögunum að rífa niður mannvirki og skila lóðinni auðri og fínni, og það á eigin kostnað. Hún ræddi eins við fulltrúa minnihluta borgarstjórnar, núverandi sem og fyrrverandi, sem gerðu athugasemd við að þessari rausnarlegu gjöf borgarinnar til olíufélaganna hafi verið leynt fyrir minnihlutanum. Þetta hafi meirihlutinn gert með óskýru orðalagi og með því að samþykkja samninganna í borgarráði án þess að leggja þá fram til umræðu í borgarstjórn, sem á þeim tíma var í sumarfríi.

Reykjavíkurborg sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem athugasemd var gerð við umfjöllun Kastljóss. Meðal annars hafi virði lóðanna verið ofmetið. María Sigrún segir þó í færslu sinni í dag að hún hafi aflað mats frá bæði verktökum og fasteignasölum. Virðið hafi verði metið á breiðu bili enda fari eiginlegt virði eftir því byggingarmagni sem heimilað verður að byggja á lóðunum. Þessar tölur séu á reiki en þá helst sökum mótmæla íbúa í nágrenni lóðanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“