Viðtal sem bræðurnir Snorri og Bergþór Másson tóku við tónlistarmanninn Patrik Atlason (Prettyboitjokko), í hlaðvarpi þeirra, Skoðanabræður, hefur vakið töluverða úlfúð eftir að mbl.is birti úrdrátt úr viðtalinu.
Í viðtalinu heldur Patrik því fram, og Snorri virðist taka undir með honum, að afkoma heimila væri miklu betri ef karlmenn myndu sjá um innkomuna en konurnar hugsuðu um heimilið og börnin.
„Þetta er það sem kapítalisminn og þessi stóru félög vilja gera, að konur verði „career-driven“, sem er bara allt í lagi. Ég held að maðurinn eigi að vera „career-driven“ og leggja alla sína orku í það og hún á að vera „nurturing“,“ sagði Patrik (endursögn mbl.is) og bætir við að innkoma heimilanna gæti verið helmingi meiri ef aðeins karlinn hugaði að frama og væri útivinnandi, en ekki konan.
„Ég held að þau vilji þetta því þau vilja hafa okkur bæði á hjólunum, en þá náum við styttra,“ sagði Patrik en hann útskýrði fyrr í þættinum að sá sem ákvað að konan og karlinn ættu bæði að vera á vinnumarkaði hafi einungis stefnt að því til að græða meira.
„Það er mjög áhugavert að menn hafi gabbað alla út á vinnumarkað og kallað það svo frelsisbyltingu,“ sagði Snorri Másson. Snorri sagði ennfremur:
„Ég hugsa líka að allir karlar, óháð því að auðvitað eru bara bæði kynin frábær í allskonar störfum og mjög góð í allskonar drasli, en allir karlar myndu vilja geta haldið uppi heimili sínu án þess að konan þyrfti að vinna. Að sjálfsögðu myndu þeir vilja það.[…] Það er æðsta takmark“.
Þetta spjall hefur vægast sagt fengið slæmar móttökur á samfélagsmiðlum. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segist hafa vonast til þess að síðustu karlremburnar myndu deyja út með hans kynslóð. Hann segir á Facebook:
„Gömlukallaraus í ungum mönnum. Og ég sem vonaði að remburnar hyrfu með minni kynslóð. Einhvers staðar mistókst okkur herfilega.“
Miklar umræður skapast undir færslu Ólafs og margir lýsa sig hreinlega agndofa af undrun yfir þeim viðhorfum sem þeir félagar tjá. Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, spyr: „Er þetta ekki eitthvað súrt grín?“ – Illugi Jökulsson rithöfundur svarar henni alvarlegur í bragði að þetta sé alls ekki grín. „Þetta er raunverulegt“.
Egill Helgason fjölmiðlamaður segir: „Þeim finnst þetta líka í Saudi-Arabíu.“
Á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, minnir Valgerður Árnadóttir, varaþingmaður Pírata, á að konur víða um heim gjaldi fyrir með lífi sínu baráttu fyrir grundvallarmannréttindum:
„Konur víða um heim eru jafnvel drepnar fyrir að berjast fyrir frelsi til að fá að ráða yfir eigin líkama, mennta sig og vinna og svo eru einhv. forréttindaplebbar á Íslandi enn með miðaldarhugmyndir um kynjahlutverkin. Ef þetta er djók þá er það ekki einu sinni fyndið!“
Konur víða um heim eru jafnvel drepnar fyrir að berjast fyrir frelsi til að fá að ráða yfir eigin líkama, mennta sig og vinna og svo eru einhv. forréttindaplebbar á Íslandi enn með miðaldarhugmyndir um kynjahlutverkin. Ef þetta er djók þá er það ekki einu sinni fyndið! pic.twitter.com/GpU8c7qOu7
— Valgerður Árnadóttir (@ValaArna) April 27, 2024