Sigursteinn Másson kvikmyndagerðarmaður er ósáttur við, það sem hann álítur vera, illgjarna og hatursfulla umræðu um Katrínu Jakobsdóttur, forsetaframbjóðanda og fráfarandi forsætisráðherra. Í hvassyrtum pistli á Facebook beinir Sigursteinn meðal annars spjótunum að öðrum frambjóðendum til embættis forseta Íslands:
„Oftast hafa forsetakosningar á Íslandi verið hafnar yfir persónulegt skítkast og ómerkilegar samsæriskenningar þótt baráttan hafi á stundum verið hörð og á köflum óvægin. Það persónulega skítkast, sú illgirni svo jaðrar við hatur, sem nokkrir háværir einstaklingar hafa í frammi að þessu sinni gagnvart Katrínu Jakobsdóttur er dapurlegur vitnisburður um þann forarpytt sem opinber umræða er komin út í ekki síst með tilkomu samfélagsmiðla.
Einstaka frambjóðendur, og fylgisfólk þeirra, reyna að stækka sig sjálfa með því að gera lítið úr öðrum, dylgja um óheilindi og vanhæfni. Það hefur verið áberandi á undanförnum árum hve tilteknar konur hafa verið áberandi í persónuárásum á Katrínu og þeim er nú haldið áfram af enn meiri ákafa en áður. Henni er persónulega kennt um allt það sem umdeilanlegt hefur verið en engu skeytt um þann ótvíræða árangur sem Katrín og stjórnkænska hennar, jákvæður drífandi persónuleiki og heiðarleiki, hefur skilað Íslandi.“
Sigursteinn segir Katrínu vera vinkonu sína og hún sé ein heilsteyptasta manneskja sem hann hafi kynnst. Hann fer einnig yfir verk hennar í ríkisstjórn og telur hana hafa haldið vel á málum:
„Ég þekki Katrínu persónulega og leyfi mér að kalla hana vinkonu mína. Hef þekkt hana í meira en tvo áratugi og fullyrði að þar fer ekki bara einn hæfileikaríkasti og besti stjórnmálamaður sem þessi þjóð hefur átt heldur og einnig ein besta og heilsteyptasta manneskja sem ég hef kynnst. Það er ekki tilviljun að Ísland stendur fremst meðal samanburðarþjóða í jafnréttismálum, að hér mælist launamunur einna minnstur í heiminum, að þrátt fyrir þrýsting hefur tekist að vernda náttúru landsins fyrir stórkarlalegum kröfum um virkjanir, að Ísland er í fararbroddi í mannréttindamálum, að hér tókst betur til en víðast annars staðar að bregðast við COVID19, Að brugðist hefur verið ákveðið við náttúruhamförum á Reykjanesi, að gerðir hafa verið tímamótakjarasamningar sem tryggja stöðugleika og aðstæður til vaxtalækkana og að hér hefur verið starfhæf ríkisstjórn og stjórnmálalegur stöðugleiki í sjö ár.“
Sigursteinn segir að margir virðist hreinlega hata Katrínu fyrir að hafa myndað samsteypustjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Það hafi þó verið eina leiðin til að mynda starfhæfa stjórn:
„Eftir síðustu kosningar var staðan einfaldlega sú að Miðflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn gátu myndað meirihlutastjórn. Naumlega en þetta var staðan. Sem betur fer höfum við í síðustu sjö ár átt forsætisráðherra sem horfir raunsæjum augum á stöðuna en hleypur ekki eftir stundarvinsældum og þeim sem hafa hæst hverju sinni. Þannig á forseti líka að vera. Ég treysti engum betur en henni til að verða næsti forseti Íslands.“