Móðir sem hefur verið ákærð fyrir að bana sex ára syni sínum í Kópavogi í lok janúar hefur verið ákærð fyrir að reyna að drepa eldri son sinn líka. Hann er ellefu ára.
RÚV greinir frá þessu.
Héraðssaksóknari gaf út ákæru á hendur konunni, sem er frá Írak, í gær fyrir bæði manndráp og tilraun til manndráps. Sex ára sonur hennar fannst látinn á heimili þeirra við Nýbýlaveg og var móðirin handtekin á vettvangi.
Eldri drengurinn var farinn í skólann þegar lögregla kom á svæðið. Faðirinn býr annars staðar á Íslandi.
Gögn málsins fara til hérðasdóms í dag og verður úthlutað til dómara sem mun taka ákvörðun um þingfestingu. Ákæra verður afhent fjölmiðlum þegar málið verður þingfest.