Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra voru karlmaður og kona dæmd fyrir líkamsárás á hvort annað. Dómur fékk 22. mars, en var birtur á vefsíðu dómstólanna í dag.
Í ákæru er konan ákærð fyrir að hafa veist að karlmanninum og sparkað í hægri síðu hans þar sem hann lá í rúmi sínu, bitið hann í vinstri kinn, hægra megin á háls og í þumal vinstri handar, með þeim afleiðingum að hann hlaut bitför á vinstri kinn, hægra megin á hálsi og á þumli vinstri handar.
Karlmaðurinn er síðan ákærður fyrir að hafa veist að konunni og slegið hana með krepptum hnefa í andlitið, með þeim afleiðingum að hún hlaut áverka á efri og neðri vör.
Konan kom fyrir dóm og játaði þá háttsemi sem hún var ákærð fyrir. Karlmaðurinn gekkst einnig við þeirri háttsemi sem hann var ákærður fyrir en sagðist hafa verið að verjast árás konunnar.
Bæði áttu eldri dóma að baki og var brot karlmannsins framið fyrir uppsögu tveggja nýjustu dóma á hendur hans og refsing hans nú því ákveðin sem hegningarauki.
Hlaut konan 30 daga skilorðsbundinn dóm og karlmaðurinn 45 daga skilorðsbundinn dóm. Var konan einnig dæmd til greiðslu sakarkostnaðar að fjárhæð 225.680 krónur.