fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Uppgötvuðu á sjötugsaldri að þeir höfðu lifað lífi hvors annars

Ritstjórn Pressunnar
Laugardaginn 23. mars 2024 16:30

Eddy Ambrose og Richard Beauvais

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tveir kanadískir menn sem báðir eru fæddir sama dag árið 1955 tóku fyrir nokkrum misserum DNA-heimapróf. Niðurstöðurnar settu líf þeirra í algjört uppnám. Þeir reyndust báðir ekki vera af þeim uppruna sem þeir töldu sig vera af. Prófið leiddi í ljós að þeim hefði vegna mistaka verið víxlað skömmu eftir fæðingu og verið sendir heim með líffræðilegum foreldrum hvors annars.

Slík próf hafa notið aukinna vinsælda en markmiðið með þeim er að veita sem nákvæmast yfirlit yfir uppruna þeirra sem taka prófið en í flestum tilfellum breyta þau ekki lífi fólks til frambúðar. Sú varð hins vegar raunin með mennina tvo.

Annar þeirra heitir Richard Beauvais og er frá bænum Sechelt í héraðinu Breska-Kólumbía, á vesturströnd Kanada. Hann vissi ekki betur en að hann væri af ættum frumbyggja í Kanada. DNA-prófið leiddi hins vegar ljós að hann var kominn af Úkraínumönnum, austur-evrópskum gyðingum og Pólverjum.

Um sama leyti tók systir manns að nafni Eddy Ambrose, frá Winnipeg í Manitoba héraði, prófið. Þau systkinin ólust upp í fjölskyldu sem á ættir sínar að rekja til Úkraínu. Prófið leiddi hins vegar í ljós að þau eru ekki blóðskyld en aftur á móti er Richard Beauvais líffræðilegur bróðir hennar

Skýringin reyndist að lokum vera sú að Ambrose og Beauvais fæddust sama dag árið 1955 á sama spítalanum í bænum Arborg í Manitoba. Einhvern veginn gerðist það að þeim var víxlað á spítalanum og enduðu hjá fjölskyldu hvors annars.

Gerólík líf

Síðastliðinn fimmtudag bað Wab Kinew forsætisráðherra (e. premier) Manitoba þá báða afsökunar.

Kinew flutti afsökunarbeiðnina á þingi Manitoba að Ambrose og Beauvais viðstöddum og sagði hin dýrkeyptu mistök fyrir 70 árum hafa skaðað nokkrar kynslóðir fjölskyldna þeirra.

Líf Beauvais og Ambrose á æskuárum þeirra urðu gerólík en þeir uppgötvuðu ekki fyrr en með prófinu að þeir höfðu lifað lífi annars manns.

Beauvais ólst upp í fjölskyldu frumbyggja sem var einnig að hluta til af evrópskum uppruna. Faðir hans dó þegar hann var þriggja ára gamall og þurfti hann fljótlega að axla ábyrgð á yngri systkinum sínum þar sem móðir hans átti bágt með að meðhöndla andlát föðurins.

Hann var sendur í sérstakan skóla fyrir börn frumbyggja en var síðar tekinn af fjölskyldu sinni. Beauvais varð þannig fórnarlamb stefnu sem þá ríkti í Kanada sem gekk út á að senda börn af frumbyggjaættum í fóstur eða senda þau til ættleiðingar með það að markmiði að aðlaga þau betur að kanadísku þjóðfélagi.

Ambrose ólst hins vegar upp á sveitabæ í Manitoba í ástríkri fjölskyldu sem á ættir sínar að rekja til Úkraínu. Hann varð þó munaðarlaus 12 ára gamall og var þá ættleiddur.

Mögulega fleiri tilfelli

Ambrose og Beauvais hafa ráðið sameiginlegan lögmann sem segir að allt sem þeir töldu sig vera hafi verið tekið af þeim. Þeir segjast þó báðir vera þakklátir fyrir þær fjölskyldur sem þeir ólust upp í en hafa myndað tengsl við sínar líffræðilegur fjölskyldur.

Yfirvöld í Manitoba höfnuðu í fyrstu kröfu þeirra um afökunarbeiðni en það breyttist eftir að Kinew komst til valda en hann er fyrsti frumbygginn sem er í forsæti héraðsstjórnar Manitoba.

Ambrose og Beauvais hafa einnig farið fram á bætur en lögmaður þeirra segist bjartsýnn á að það nái fram að ganga.

Vitað er um tvö önnur tilfelli í Manitoba þar sem nýfæddum börnum hefur verið víxlað og tvö tilfelli hafa einnig komið upp í Nýfundnalandi. Lögmaðurinn segir erfitt að segja það með vissu hvort fleiri slík tilfelli hafi orðið í Kanada en það sé hans ágiskun að eftir því sem DNA-heimapróf verði algengari muni fleiri tilfelli líta dagsins ljós.

BBC greindi frá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg