Meðfylgjandi myndband birtist á YouTube í gærkvöldi en á því má sjá hvað blasti við ferðamönnum þegar þeir yfirgáfu hótelið í flýti. Í myndbandinu heyrist líka vel í háværum viðvörunarflautum sem ómuðu um svæðið. „Holy shit,“ heyrist í einum í hópnum.
Ferðamaður sem var á Silica-hótelinu í Bláa lóninu þegar gosið hófst lýsir því í færslu á Reddit að hann hafi verið að borða kvöldmat ásamt fjölskyldu sinni þegar ósköpin byrjuðu.
Lýsir ferðamaðurinn því að ljósin í salnum hafi skyndilega byrjað að blikka. „Svo kom viðvörunarhljóðið og þetta var svona blanda af yfirvegun og panikki sem tók við,“ segir viðkomandi.
„Við drifum okkur inn í herbergi og tókum dótið okkar saman á meðan starfsfólk hljóp á milli herbergja til að koma fólki í lobbíið. Þegar við komum út tók á móti okkur blóðrauður himinn og reykur yfir öllu svæðinu. Maður heyrði í drununum í gosinu. Allt í allt tók þetta um 20 mínútur að koma öllum út af svæðinu til Reykjavíkur þar sem við fengum að fara á annað hótel.