fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Árni Stefán kemur „Hafnarfjarðarhreysinu“ til varna og segir sína hlið – „Ég hef ekkert að fela í þessu máli“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 18. mars 2024 11:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Athygli vakti fyrir helgi þegar leigjandi steig fram í fréttum og greindi frá óboðlegum aðstæðum sem hún býr við sökum vanefnda leigusala sem hafi lofað að koma húsinu í íbúðarhæft ástand. Greindi DV frá því í kjölfarið að téður leigusali væri dýralögfræðingurinn Árni Stefán Árnason. Árni steig sjálfur fram í kjölfarið og sakaði leigjanda sinn um blekkingar.

Nú hefur Árni Stefán skrifað grein þar sem hann fer yfir málið og segist nauðugur annar kostur en að verja æru sína, föður síns heitins og eignar sinnar, sem sé friðað húsnæði sem var byggt fyrir rúmri öld síðan í Hafnarfirði en hafi nú fengið á sig uppnefnið Hafnarfjarðarhreysið.

Faðir Árna og nafni, Árni Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður, fasteignasali og um tíð bæjarfulltrúi, hafi í húsinu rekið „þekkta og virðulega lögmannsstofu og fasteignasölu í áratugi og hundruðir Hafnfirðinga og borgarar úr nágrannasveitarfélögum hafa stigið fæti sínum inn í þetta hús með einstaka sál að sögn margra, af ýmsum ástæðum.“

Málinu lokið að hans hálfu

Árni fer ófögrum orðum um athugasemdakerfi DV og sakar miðilinn um ritskoðun fyrir að hafa eytt út athugasemdum hans. Rétt er þó að taka fram að þar er um misskilning að ræða. Árni birti með athugasemdum sínum vefslóðir, líka kallað linkar, en svokölluð spam-vörn felur slíkar athugasemdir. Þess í stað gerði DV grein fyrir sjónarmiðum Árna í sérstakri frétt.

„Ég er stálheiðarlegur, agaður, samviskusamur og vandvirkur einstaklingur að eigin mati og þeirra sem til mín þekkja. Því er framangreind ákvörðun sú eina rétta í mínum huga, svo fram komi milliliðalaust heiðarleg sjónarmið mín. Ég hef ekkert að fela í þessu máli og er búinn að koma fram við Sigurbjörgu Hlöðversdóttur (hér eftir nefnd S) af heilindum einum. Með þessum skrifum loka ég málinu jafnframt í fjölmiðlum og mun ekki tjá mig meira um þetta einstaka mál og alls ekki í kommentakerfum samfélagsmiðla.“

Árni segir leigjanda sinn hafa blekkt landsmenn og blaðamenn Vísis af augljósum ásetningi. Þetta hafi hún gert til að koma höggi á Árna fyrir að vinna ekki á þeim hraða sem hún krafðist. Útleiga húsnæðisins hafi komið upp óvænt og hafi Árni verið bjartsýnn að sér myndi takast að gera endurbætur á æskilegum tíma, en hafi þó reynst full bjartsýnn en eins hafi ófyrirsjáanlegir þættir átt leikið þar hlutverk.

Tók við því í ástandinu sem það var

„Austurgata 10 er friðað timburhús frá 1913 með sérstakt minjagildi, sjálfstætt og sem hluti af stærri heild, að mati Minjastofnunar og húsafriðunarnefndar Hafnarfjarðar. Húsið fékk af því tilefni nýlega styrk til endurbóta utan hússins. Húsið var að mestu upprunalegt innandyra þangað til sl. haust þegar endurbætur hófust þar. Það er upprunalegt að utan og í ágætu ástandi viðhaldið skv. Minjastofnun og húsafriðunarnefnd og að eignin mati og með nýlegri þakklæðningu.“

Árni segist ekki vita um að búið hafi verið í húsinu fyrr um miðbik síðustu aldar, og þá tímabundið. Fljótlega eftir það keypti faðir Árna húsið og var þar með atvinnurekstur. Eignin hafi fengið lítið viðhald innandyra og lítið átt við upprunalegt ástand hennar. Árni nálgist endurbætur af metnaði og virðingu og áhugasamir geti séð innlegg hans í hóp á Facebook sem heitir Gömul hús þar sem hann hefur ítrekað leitað eftir ráðum. Í desember hafi Árni boðið húsið til Grindvíkinga og núverandi leigjandi komist að því og gengið hart eftir því að fá húsið til leigu, í því ástandi sem það þá var. Stóð til að bæta ástandið og gera hæft til íbúðar, þar með talið að ganga frá eldhúsi og baðherbergi sem þá var hvorttveggja autt.

„Þannig tók núverandi leigjandi við húsnæðinu eftir að hann féllst á tillögu mína um leigu krónur 200. þús. innifalið rafmagn og hiti. Skv. lauslegri athugun minni væri hægt að leigja umrætt húsnæði á um 340. þús. skv. leigu vísitölu væri það í íbúðarhæfu ástandi.“

Botnar hvorki upp né niður

Leigusamningur var gerður til þriggja mánaða svo Árni gæti séð hvort húsnæðið hentaði leigjanda og hvort leigjandi hentaði honum. Eins þar sem minnst þarf þriggja mánaða samning svo leigjandi eigi rétt til húsnæðisbóta. Árni segist líka brenndur eftir að leigjandi skildi annað hús hans eftir í rúst.

Í mars hafi hann svo boðið 12 mánaða samning sem leigjandi hafi samþykkt. Degi síðar hafði leigjandi þó samband og spurði hvers vegna Árni hefði ekki komið til hennar og svo í beinu framhaldi hafi leigjandi leitað til Vísis.

„S var búin að hóta mér að hún myndi fara með umkvartanir sínar í fjölmiðla í lok febrúar og gaf í skyn, af því ég er nánast opinber persóna vegna dýraverndar starfa minna og skrifa, að það kæmi sér mjög illa fyrir mig. Tilgangur hennar virðist hafa verið sá einn að koma illu orði á mig, af óskiljanlegum ástæðum, því umkvartanir hennar eru hraktar með rökstuðningi að langmestu leyti í þessari greinargerð.

Ég reyndi að telja hana af því vegna þess að það gæti valdið því að hún missti húsnæðið – mér yrði ekki heimilað að leigja það í því ástandi sem það var í, ekki því ástandi sem S lýsir og sýnir myndir af heldur í því ófullkomna ástandi sem það var áður en S flutti inn.

Spyrja má af hverju S kýs að búa í húsnæði, óska eftir langtímaleigu á og óska eftir forkaupsrétti á áður en endurbótum er lokið. Húsnæði, sem hún segist skíthrædd að búa í. Ég botna hvorki upp né niður í því.“

Hafi veitt leigjanda stuðning, aðstoð og sáluhjálp

Árni fer yfir myndir sem leigjandinn hefur birt af húsnæðinu og rekur að húsið hafi verið í betra ástandi þegar það var leigt út, en leigjandi hafi sjálf gengið illa um. Sumt sé alfarið á ábyrgð leigjanda, annað minniháttar skrifist á Árna en þá sem liður í úrbótum sem eigi eftir að klára. Sumt hafi leigjandi hreinlega afþakkað, svo sem almennilegan vask og sturtuklefa. Hún hafi eins samþykkt eldavél sem myndir hafa verið birtar af, en svo sjálf hent henni vegna hræðslu við eldhættu.

Eins hafi hún sakað Árna um húsbrot.

„Rétt er að ég hef opnað dyr einu sinni á Austurgötu 10. Keyrði þangað til að athuga hvernig S hefði það en hún var búin að vera mjög veik í langan tíma. Bíllinn hennar var fyrir utan og ég taldi því víst að hún væri heima og kæmi til dyra. Eftir að hafa hringt dyrabjöllu nokkrum sinnum án þess að hún kæmi til dyra né svaraði S síma tók ég þá ákvörðun að athuga hvort allt væri í lagi með hana. Það sinnir engin eftirliti með henni og mér er ekki kunnugt um að hún sé með öryggishnapp þrátt fyrir að vera sjúklingur. Í dyragættinni kallaði ég nafn hennar þrisvar án viðbragða og mjög hátt í síðasta skiptið.“

Þá gekk Árni inn og hitti þar fyrir karlmann sem sé landsþekktur fyrir baráttu sína fyrir heimilislausa karlmenn. Svaf sá fastasvefni og engin leið að vekja hann. Þá hafi Árni gengið út og tilkynnt leigjanda um heimsóknina degi síðar. Hún hafi þakkað honum umhyggjuna. Sjálf hafi leigjandi gerst sek um húsbrot þegar hún fór heimildarlaust í rými þar sem rafmagnstöflu er að finna og birti mynd af henni.

Eftir að fréttir bárust af ástandinu í húsinu hafi Árni boðið úrbætur, sem leigjandi hafi afþakkað og lokað á hann á Facebook.

Árni segist hafa hreina samvisku í málinu. Hann hafi aðstoðað leigjanda mikið, gefið henni föt, hengt upp gardínur, skutlað henni, farið fyrir hana í ríkið, keypt handa henni tóbak og ávallt verið til taks. Hann hafi boðið henni til sín á jólum og áramótum. Hann hafi hlustað á hana þegar hún þurfti að ræða áföll úr fortíð sinni og reynst henni vel. Jafnvel nú segist Árni ekki vilja henni annað en það besta. Hún þurfi aðstoð í veikindum sínum og hafi hann boðið henni að grafa stríðsöxina og hjálpast að til að koma henni glaðri inn í komandi sumar.

Nánar má lesa um málið í ítarlegri greinargerð Árna sem birtist hjá Vísi í dag. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“