fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Maður á jeppa elti móður og dóttur í Grafarvogi – „Hann rífur í mig og lemur mig í bringuna“

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 28. febrúar 2024 11:00

Atvikið hófst á þessu hringtorgi. Konan var að koma af Langarima og inn á Borgarveg í átt að Spöng. Mynd/Google

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Móðir lenti í óskemmtilegu atviki síðdegis í gær í Grafarvoginum þegar ökumaður elti hana uppi. Maðurinn, sem taldi konuna hafa svínað á sig í hringtorgi, keyrði fyrir konuna, keyrði aftan á hana og réðist loks á hana og sló í bringuna.

Hún segist ekki vilja hugsa þá hugsun til enda ef bjargvættur hefði ekki skorist í leikinn. Bjargvættur sem hún náði ekki að þakka nægjanlega vel fyrir. En maðurinn sem réðst á hana flúði af vettvangi. Málið er nú komið inn á borð lögreglu. Sífellt algengara er að konur séu eltar í umferðinni.

Konan, sem er íbúi í Rimahverfinu í Grafarvogi, var að sækja dóttur sína á íþróttaæfingu á fimmta tímanum í gær og nýbúin að skutla vinkonu hennar heim þegar þetta gerðist. Atvikið byrjaði á hringtorgi við Langarima.

„Honum finnst ég greinilega svína fyrir sig. Hann kemur á mikilli ferð og eykur ferðina til að ná mér,“ segir konan sem var á litlum jeppling en hann á jeppa.

Háskaakstur og aftanákeyrsla

Dóttir hennar benti henni á að maðurinn væri að elta. Þegar hún sá hvað var að gerast jók hún ferðina. Þetta var á Borgarveginum, milli Langarima og Spangar.

Síðan hægir hún á sér og sér fram á að þurfa að eiga samtal við manninn.

„Þá fór hann fram úr mér og neglir niður,“ segir konan sem var mjög brugðið við þetta. „Mér tekst á einhvern hátt að sveigja fram hjá honum. Þá var ég komin að öðru hringtorgi og þurfti að bremsa svolítið skarpt niður út af umferð. Þá keyrir hann aftan á mig.“

Kom maðurinn, sem er Íslendingur um sextugt og íbúi í hverfinu, út úr bílnum mjög reiður. Konan telur að hann hafi verið einn á ferð.

„Þá stekkur hann út úr bílnum og öskrar á mig: Hvað ertu að hugsa kerlingarfífl. Hann rífur í mig og lemur mig í bringuna,“ segir hún. Er hún marin eftir höggið frá honum.

Náði ekki að þakka bjargvætti

Kom þá að maður úr bíl úr gagnstæðri átt og skarst í leikinn. Eftir að manninum sem réðist á konuna var tilkynnt að hringt yrði á lögreglu tók hann á rás. Fór upp í bílinn sinn, keyrði upp á gangstétt og í burtu á fullri ferð.

Konan segist ekki hafa náð að þakka þeim sem kom að nægilega vel fyrir. Dóttir hennar var hágrátandi í bílnum, mikil umferð og allt orðið stopp út af þessu atviki. Hún segist ekki vilja hugsa hvað hefði gerst ef hann hefði ekki komið til bjargar. Heldur vill hún ekki hugsa til þess ef það hefði verið lítil umferð og þær einar.

Algengt að konur séu eltar í umferðinni

Lögregla kom á staðinn og tók skýrslu og hún fer í annað viðtal hjá lögreglu í dag. Hún á eftir að kæra málið formlega. Vitað er hver maðurinn er og skýrsla verður tekin af honum líka.

Konan segist hafa heyrt það bæði frá lögreglu og öðru fólki að þetta sé orðið lygilega algengt. Það er að verið sé að elta fólk upp í umferðinni með ógnandi hegðun.

„Það slær mig voðalega hvað þetta er orðið algengt. Sérstaklega að konur séu að lenda í þessu,“ segir hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar