fbpx
Fimmtudagur 09.maí 2024
Fréttir

Lára Björk liggur sárkvalin með nýrnabilun á búlgörsku sjúkrahúsi og fjölskyldan fær enga aðstoð – „Í mjög alvarlegu ástandi þar sem það er drep á fingrum og tám“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 18. febrúar 2024 11:27

Mæðgurnar Lára Björk og Nadia Rós Mynd: Aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

51 árs gömul íslensk kona, Lára Björk Sigrúnardóttir, hvílir nú á sjúkrahúsi í Búlgaríu með nýrnabilun og á á hættu að tapa útlimum þar sem drep færist um líkamann. Lára Björk er fimm barna einstæð móðir og var hún stödd í tíu daga ferðalagi í Búlgaríu með frænda  sínum. Tvö elstu börn hennar eru nú stödd í Búlgaríu og hafa þau fengið að hitta móður sína einu sinni í fimm mínútur. Nadia Rós Sheriff dóttir Láru Bjarkar segir mjög erfitt að fá upplýsingar um ástand móður hennar og næstu skref, tungumálaörðugleikar eru miklir, lítið sem ekkert um aðstoð og upplýsingar og Borgaraþjónustan og kjörræðismaður Íslands hafi litla aðstoð veitt.

Nadia Rós rekur feril málsins í samtali við DV:

Laugardaginn 10. febrúar hringir Lára Björk í læknanúmerið 1700 í Búlgaríu, segist vera með doða í höndum, hjartsláttartruflanir og öndunarerfiðleika. Þeir ráðleggja henni að fara á næsta spítala. Lára Björk er lögð inn á spítala, St. Marina hospitala í borginni Varna, og gerðar rannsóknir. Daginn eftir fær nánasta fjölskylda hér heima að vita að hún er á spítala þegar frændi hennar sem er með henni í ferðinni hringir í systur Láru Bjarkar.

Mánudaginn 12. febrúar hringir vinur hennar á spítalann til að fá upplýsingar um hver á að greiða kostnaðinn á spítalanum. Dóttir hennar Nadia Rós hefur samband við Sjúkratryggingar Íslands og fær þau svör að ekki megi gefa henni upplýsingar, en það sé hægt að hringja í Láru Björk. Hún er hins vegar ekki með símann sinn. Þar sem persónuverndarlög stoppa ættingja að fá upplýsingar senda Sjúkratryggingar Íslands Láru Björk tölvupóst með upplýsingum um sjúkrakortið hennar.

Nadia Rós hringir einnig í Borgaraþjónustuna, Íslandsbanka og Landsbanka til að fá upplýsingar um kreditkort, en fær engar upplýsingar vegna persónuverndar. SOS International óska eftir upplýsingum um kortanúmer til að vita hvort Lára Björk sé tryggð.

Mæðgurnar Nadia Rós og Lára Björk
Mynd: Aðsend

Frændi Láru Bjarkar fær að hitta hana og tekur myndir

Frændi Láru Bjarkar fær að hitta hana á spítalanum og tekur af henni myndir. Lára Björk getur hringt hjá honum og hringir í dóttur sína Nadiu til að biðja hana um að senda sjúkrakortið frá EU. Nadia Rós fær upplýsingar hjá móður sinni að hún sé með kreditkort hjá Arionbanka og fær kortanúmerið hennar.

„Á þriðjudeginum hefur ég samband við SOS International með kortaupplýsingarnar frá Arionbanka. SOS International neita að aðstoða með tölvupósti þar sem kortið er fyrirframgreitt. Arionbanki bendir mér á að hafa samband við Vörð, því þeir sjá um skilmála trygginga, sem ég geri. SOS International sendir tölvupóst og segjast hafa reynt að hafa samband við spítalann bæði símleiðis og með tölvupósti, erfitt sé að reyna að ná sambandi við spítalann vegna tungumálaörðuleika og ekki megi gefa upplýsingar í gegnum síma. Ég sendi tölvupóst til yfirlæknisins á búlgarska spítalanum (e. Head of department of the Hospital), professor Platik Nov, og bið um að fá upplýsingar um ástand mömmu,“ segir Nadia Rós.

Á miðvikudag fær Nadia Rós tölvupóst frá Borgaraþjónustunni þar sem henni er bent á að hafa samband við fjölræðismann Búlgaríu í síma. Þá hringir Nadia Rós aftur í Borgaraþjónustuna og fær netfang hjá aðstoðarmanni ræðismanns. Sá segist hafa haft samband við spítalann, en fengið takmarkaðar upplýsingar. Biður hann Nadiu um að hringja í aðstoðarmann ræðismannsins sem hún gerir.

Nadia Rós hringir og fær símanúmerið hjá lækni móður sinnar, hún hringir og biður um að tala við enskumælandi aðila, henni er svarað neitandi og skellt á. Nadia Rós greinir aðstoðarmanni ræðismanns frá þessu. Nadia Rós fær símanúmer hjá yfirmanni spítalans Professor Platik Nov. Kona svarar símanum, Nadia Rós talar ensku en konan talar bjagaða ensku, en segir við Nadiu:„Lára er í alvarlegu ástandi en er að fá meðvitund til baka.“ Nadia Rós spyr hvort hún megi tala við móður sína, því er svarað neitandi og skellt á.

Professor Platik Nov svarar tölvupóstinum með því að hann staðfestir að Lára sé innlögð á spítalanum, en að Nadia Rós þurfi að senda formlega fyrirspurn á spítalayfirvöld og gefur henni netfang. Nadia Rós sendir tölvupóst á spítalayfirvöld með sömu fyrirspurn um stöðu móður sinnar..

„Á fimmtudag fæ ég tölvupóst á búlgörsku þar sem mér er greint frá að mamma sé í lífshættu en geti verið flutt með sjúkraflugi til Íslands með tiltæku læknateymi. Þeir segja að mamma hafi gefið þeim upplýsingar um tryggingamál og ef þörf er á þá geti þeir sent sjúkraskrá. Ég svara og segi að læknir hjá SOS International þurfi að fá sjúkraskýrsluna og hvort  að þeir megi senda þær áfram til SOS International,“ segir Nadia Rós.

Vinur Láru Bjarkar fær að fara í heimsókn til hennar með vatn og reynir hann að fá upplýsingar um stöðu Láru Bjarkar.

„Ég fæ símtal frá mömmu sem er skíthrædd þar sem læknar segja við hana að það þurfi að taka putta og tær af henni. Mamma segist þurfa að komast heim sem fyrst og vilji láta gera aðgerðina á Íslandi. Mamma vill fá að tala við öll börnin sín til að kveðja þau ef hún skildi deyja þarna úti,“ segir Nadia Rós. Segir hún móður sína ekki hafa skrifað undir neina pappíra úti sem samþykki slíka aðgerð þar, enda vilji hún komast heim til Íslands og gangast undir aðgerð hér.

„Mamma segir að hún vilji fá ræðismann eða einhvern frá sendiráðinu til að vera hjá sér þar sem það eru fáir á spítalanum sem tali ensku og þar sem hún getur ekki notað hendurnar þá þarf hún aðstoð til að geta drukkið og borðað.“

Nadia Rós biður vin móður sinnar um að taka myndir af henni og sér á myndunum að ástandið fer síversnandi.. 

„Ég hringi í Sjúkratryggingar Íslands til að fá að fletta upp hvað er verið að gera fyrir mömmu og hvað þeir eru borga fyrir, þeir segjast ekki vera með neinar upplýsingar og ekki fá nein gögn fyrr en í loks árs þegar uppgjör koma og þeir geti ekki hjálpað,“ segir Nadia Rós, sem segir kostnaðinn við dvöl móður hennar á gjörgæslu líklega kosta um 150 þúsund fyrir hvern dag.

Mynd: Aðsend
Mynd: Aðsend
Mynd: Aðsend
Mynd: Aðsend
Mynd: Aðsend

Börnum Láru Bjarkar ráðlagt að fara út til að fá svör

Nadia Rós hefur aftur samband við borgaraþjónustuna til að greina þeim frá að ástand móður hennar sé orðið mjög alvarlegt og segja þeim frá stöðunni. SOS International ráðleggja Nadiu að fara út til móður sinnar til að reyna að fá svör á spítalanum og segja spítalann ýmist ekki svara þeim eða skella á. 

Á fimmtudag fær Nadia Rós svar með tölvupósti á búlgörsku, þar sem segir að spítalinn hafi haft samband við SOS International að þeir eru að bíða eftir tryggingarskilmálum, þeir hafi ekki fengið svör en um leið og þeir fái svör með tryggingarskilmála þá ættu SOS International að geta fengið allar nauðsynlegar læknaskýrslur. Nadia Rós fær tölvupóst frá SOS International: „Halló hefur þú fengið upplýsingar um stöðu móður þinnar, við höfum ekki fengið upplýsingar um læknaskjölin frá spítalanum. Við þurfum að fá kvittun fyrir kaup á flugmiðanum til að meta hvort þetta sé tryggt.“

Læknirinn frá SOS International hringir í Nadiu, segir henni að hann sé búinn að reyna ná ítrekað sambandi við spítalann en hefur ekki náð í gegn. Og spyr hvort hún viti ástand móður hennar. Nadia Rós er þá lögð af stað til Búlgaríu og segist lenda þar kl. 21.30 sama dag.

Nadia Rós flaug fyrst til Kaupmannahafnar og gisti þar eina nótt, Arnar bróðir hennar býr í Svíþjóð og kom og hitti hana þar. Systkinin flugu til Varsjá, áfram til Sofiu og síðan til Varna. Fóru þau strax á spítalann frá flugvellinum. „Þar fáum við að tala við lækni sem talar smá ensku en átti erfitt með að útskýra nákvæmlega hvað er að gerast. Ég tók samtalið upp að mestu. Hann segir að mamma sé með sepsis sem kemur upprunalega frá þvagsýkingu og hafi leitt til nýrna- og lifrarbilunar, að hún sé ekki lengur í lífshættu en er í mjög alvarlegu ástandi þar sem það er drep á fingrum og tær og það þurfi að taka þær af.“

Systkinin óska eftir að fá sjúkraskýrslu móður sinnar og fá þau svör að þau geti fengið hana daginn eftir þegar móðir þeirra verður flutt af spítalanum. Systkinin segjast þurfa gögnin strax þar sem SOS International þurfi þau til að meta hvort móðir þeirra sé tryggð. 

„Við fengum ekki að hitta mömmu, en var sagt að við mættum koma morguninn eftir kl. 9 til að fá frekari upplýsingar.“

Mæðgurnar Lára Björk og Nadia Rós
Mynd: Aðsend

Fengu að hitta móður sína í fimm mínútur

Á laugardagsmorgun kl. 9 eru Nadia Rós og Arnar mætt upp á spítala. 

„Við hittum lækni sem talar aðeins betri ensku og hann segir okkur að þau séu búin að tilkynna mömmu að hún sé að fljúga heim í dag, við segjum að það sé ekki hægt þar sem það vantar sjúkraskýrslur.  Læknirinn fer og hringir, og kemur tilbaka og segir að það hafi orðið misskilningur, skýrslan sé ekki tilbúin og að við þurfum að mæta hingað á mánudaginn. Við útskýrum malið og viljum fá að tala við eitthvern sem er yfir (Professor Platikanov), hún seigir hann sé ekki við um helgar og skrifstofan og yfirmaður spítalans mæti á mánudaginn,“ segir Nadia Rós.

Systkinin biðja um að hitta móður sína. Læknirinn segir að það sé regla að ekki megi hitta sjúklinga sem eru a gjörgæslu en gefur þeim leyfi til að hitta hana í fimm mínútur, en þau verði að skilja símana eftir frammi.

„Við hittum hana og sáum að þetta er orðið ennþá verra en á myndunum sem við fengum frá vini hennar. Mamma grét þegar við tilkynntum henni að hún kæmi ekki til Íslands í dag eins og var búið að segja henni. Hún sagðist vera þurr í minni og þurfti að fá vatn sem var í rúminu hennar en hún gat ekki drukkið sjálf. Og bað okkur um að fara kaupa handa henni að borða þar sem hún væri svöng, læknirinn sagði að hún mætti borða og þyrfti að borða sem mest. Við heimtuðum að fá dótið hennar til að komast í símann hennar til að komast í rafræn skjöl. Við kvöddum mömmu og báðum frænku okkar um að hringja í SOS International og Borgaraþjónustuna, til að ýta á að eitthvað yrði gert. Við erum dauðþreytt eftir að lenda stöðugt á lokuðum dyrum, á sama tíma og við sjáum mömmu okkar vera að versna og versna og drepið farið að ná lengra upp hendur og fætur.“

Nadia Rós hringdi í sendiherra Íslands í Búlgaríu, „Hann segist lítið geta gert nema að hringja í ræðismann í Sofiu og fá túlk, en hann sagði að honum fyndist þetta mjög skrítið allt saman og ekki skilja hvað gengur á.,“ segir Nadia Rós sem hafði einnig samband við lögfræðing, sem hringdi einnig í SOS, Borgaraþjónustuna og sendiráð Íslands.

SOS hefur samband og segist þurfa vottorð frá lækni um að Lára Björk hafi ekki fengið þvagfærasýkingu síðastliðna sex mánuði, frænka Nadiu fer upp á spítala og nær í það vottorð og sendir henni. „Ég fékk þá símtal frá SOS um að vottorðið væri skráð 17. febrúar, en þyrfti að vera skráð 31. janúar og síðastliðna sex mánuði frá þeim tíma þar sem mamma keypti flugmiðann 1. febrúar. Þeir sögðust einnig þurfa upplýsingar um hvað væri að henni þar sem þeir mega ekki taka mark á hvað við segjum, þannig ég sendi þeim upptökuna sem segir frá ástandi hennar. Þau segjast samt þurfa að fá bréfið og skýrslu. Og biðja okkur um að redda netfangi frá lækni sem hlutirnir gerast hraðar.“

Systkinin fara upp á spítala aftur kl. 20 og þá er lögreglan á vakt upp á spítala. 

„Þeir koma klukkan 21, við reynum að tala við lögregluna en þeir tala ekki ensku, við biðjum þau um að kalla á enskumælania löggu þar sem við eigum rett á því, þeir segja að þeir séu uppteknir.. Við förum aftur á gjörgæslu og reynum að fá þessar skýrslur og fáum sömu svör að það sé ekki hægt fyrr en á mánudaginn. Læknarnir í Búlgaríu eru að segja við mömmu að þeir séu búnir að tala við lækni á Íslandi en það er ekki satt.  Læknirinn í Búlgaríu segist vera búin að senda SOS upplýsingar, en það er heldur ekki rétt og þeir vita það,“ segir Nadia Rós.

„Við erum orðin svo buguð og sorgmædd. Þetta er eins og maður sé að leika í lélegri bíómynd, allir segjast ekki geta hjálpað en samt eigum við að hafa samband við þau ef þau geta hjálpað.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Staðreyndavillur í yfirlýsingu Reykjavíkurborgar um staðreyndavillur í innslagi Maríu Sigrúnar

Staðreyndavillur í yfirlýsingu Reykjavíkurborgar um staðreyndavillur í innslagi Maríu Sigrúnar
Fréttir
Í gær

Biggi Sævars kærir konu til lögreglu fyrir rangar sakargiftir og meiðyrði

Biggi Sævars kærir konu til lögreglu fyrir rangar sakargiftir og meiðyrði
Fréttir
Í gær

Segja að Rússar hyggist neyða íbúa á herteknu svæðunum til herþjónustu

Segja að Rússar hyggist neyða íbúa á herteknu svæðunum til herþjónustu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Klæddist eins og ruslapoki til að stela tveimur hleðslutækjum – „Ég hélt að einhver væri að grínast í mér“

Klæddist eins og ruslapoki til að stela tveimur hleðslutækjum – „Ég hélt að einhver væri að grínast í mér“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fríkirkjan Kefas fær að standa – Lýður taldi sig eiga lóðina

Fríkirkjan Kefas fær að standa – Lýður taldi sig eiga lóðina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tíðindi hjá Sverri Einari: B5 hættir starfsemi en Exit heldur áfram

Tíðindi hjá Sverri Einari: B5 hættir starfsemi en Exit heldur áfram