fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Útskriftarferð 10. bekkjar Grindavíkur framundan – Fjáraflanir flestar farið úrskeiðis – „Held það þurfi að leita lengi eftir óheppnari árgangi“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 28. janúar 2024 16:00

10. bekkingar í byrjun nóvember þegar rithöfundurinn og fyrirlesarinn Þorgrímur Þráinsson mætti í sína árlegu heimsókn til í Grindavík . Mynd: grindavík.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umsjónarkennarar og foreldrar barna í 10. bekk Grindavíkur biðla til fyrirtækja að styrkja útskriftarhópinn með styrkjum og/eða kaupa auglýsingalínur fyrir skólablað bekkjarins sem er í vinnslu eða með vinningum fyrir happdrætti þeirra. Frjáls framlög eru einnig vel þegin, bæði frá fyrirtækjum og einstaklingum. 

Í færslu sem foreldrar hafa deilt á samfélagsmiðlum kemur fram að árgangurinn hefur átt í hinu mesta brasi með að safna fyrir útskriftarferðinni með hefðbundnum hætti eins og fyrri árgangar hafa gert. Alþjóð veit að bærinn var rýmdur 10. nóvember síðastliðinn og nemendur því dreifðir víða, en sá atburður er ekki sá eini sem hefur sett strik í reikninginn:

„Síðasta skólaárið fer að líða undir lok hjá 10. Bekk Grunnskóla Grindavíkur, ástandið er hreint ekki eins og það ætti að vera en ég get fullyrt að allir eru að gera sitt besta til þess að koma til móts við unglingana á þessum, já fordæmalausu tímum.

Ég held það þurfi að leita lengi eftir óheppnari árgangi en þeim sem stefnir á útskrift úr Grunnskóla Grindavíkur í upphafi sumars.

Líkt og í mörgum öðrum skólum tíðkast það að nemendur Grunnskóla Grindavíkur fari í skólabúðir á Reykjum í Hrútafirði, 2008 árgangnum tókst það hins ekki vegna Covid-19 faraldursins.

Það var brugðið á það ráð að fara í skólabúðir á Laugarvatni í 9. bekk, en tveimur vikum áður en til þeirrar ferðar átti að koma var búðunum lokað vegna myglu í húsnæði skólans og af þeirri ferð varð ekki.

Lokaferð 9. bekkjar var því lengd um sólarhring og var stefnan sett á ferðalag um suðurlandið með allskonar afþreyingu og viðkomu í Vestmannaeyjum, en vegna veðurs var ferðin til eyja slegin af og í staðinn ráfuðu börnin um miðbæinn á Selfossi.

Pizzuveisla frá Papas á litlu jólunum í 10 bekk varð ekki að veruleika þar sem að litlu jólin voru haldin á höfuðborgarsvæðinu í stað Grindavíkur.“

Blysin verða ekki kveikt í Grindavík

Nemendur 10. bekkjar hafa alla jafna borðað árshátíðarkvöldverð saman og hafa foreldrar þjónað til borðs. Rúta hefur síðan keyrt hópinn á árshátíðarballið þeirra og blys verið kveikt á leiðinni hópnum til heiðurs.

„Það er ljóst að ekki verður kveikt á blysum á Ásabrautinni þegar rútan keyrir þau úr árshátíðar kvöldverðinum á síðasta árshátíðarballið þeirra. Það er því óhætt að segja að allt sem þau hafa beðið eftir, verður í allt öðruvísi formi.“

Fjáröflun á Kaupmannahafnarferð farið úrskeiðis

Í færslunni kemur fram að í haust var ákveðið að lokaferðalag 10 bekkjar yrði heimsókn til Kaupmannahafnar þar sem að flest allar ferðir hópsins hafa farið úrskeiðis.

Páll Erlingsson, einn umsjónarkennara 10. bekkjar segir í samtali við DV: „Þau eru 60 sem hafa stefnt á ferðina, þetta er þriggja nátta ferð til Kaupmannahafnar (nágrenni hennar) og áætlað er ferðin með öllu muni kosta um 75-80 þúsund á nemanda.“

Páll Erlingsson

Ekki hægt að ganga í hús til að selja vörur 

Í færslunni sem foreldrar deila er farið nánar yfir fjáraflanirnar sem flestar hafa klikkað:

„Á þessum tíma árs eru börnin að leggja lokahönd á fjáröflun lokaferðalagsins, í haust var tekin ákvörðun um að lokaferðalag 10 bekkjar yrði heimsókn til Kaupmannahafnar þar sem að flest allar ferðir hafa farið úrskeiðis. Í dag er staðan þó þannig að fjáröflun ferðarinnar hefur farið skelfilega úrskeiðis þar sem aðeins ein fjáröflun af nokkrum hefur farið fram.

Í september var farið í fyrstu fjáröflunina sem var sala á lakkrís. Fjölskyldur 10. bekkingana eru langt frá því að vera í þeirri stöðu að geta staðið á bakvið fjáraflanir í því ástandi sem við erum í núna, tvístruð um allt og stuðningsnetið dreift í mörg bæjarfélög. Það að koma út vörum tengdum fjáröflunum er eitthvað sem er erfitt að leggja á Grindvískar fjölskyldur í dag, ofan á allt skutlið sem hefur bæst inn í dagana okkar nú þegar. Ég er samt alveg viss um að jólasokkar, klósettpappír, frosnar pizzakúlur og fleira sniðugt hefði slegið í gegn hjá fjölskyldum okkar og vinum.

Skólablað í vinnslu en ekki hægt að ganga í grindvísk fyrirtæki að selja auglýsingar og safna styrkjum

„Nemendurnir í 10. bekk vinna nú hörðum höndum að útgáfu skólablaðsins en ekki verður gengið í fyrirtæki í Grindavík þetta árið og safnað styrktarlínum í blaðið sem og happdrættisvinningum fyrir 10. bekkjar happdrættið sem á fastann sess í samfélaginu okkar heima í Grindavík.

Mig langaði því til að athuga hvort einhverjir hér á Facebook séu til í að aðstoða okkur foreldra 10. bekkinga í Grunnskóla Grindavíkur við að óska eftir styrkjum frá fyrirtækjum, því öll vitum við að margt smátt gerir eitt stórt. Okkur langar svo mikið til að hjálpa þeim við að fylla skólablaðið af styrktarlínum/auglýsingum og safna frábærum vinningum í happdrættið þeirra, þannig að þau geti selt fleiri happdrættismiða.

Með því að deila þessum pistli trúum við því að við náum til nógu margra fyrirtækja svo að börnin okkar komist öll með í útskriftarferð Grunnskóla Grindavíkur, einnig væri æðislegt að ef þið þekkið til fyrirtækja sem gætu verið líkleg til að styrkja hópinn gætuð laumað að okkur nöfnum á fyrirtækjum eða taggað þau hér fyrir neðan.

Fyrir hönd foreldra 2008 árgangs Grindvískra barna.“

Frjáls framlög vel þegin

Páll segir hópinn stefna á ferðina um miðjan maí og þeir sem vilja styrkja hópinn með happdrættisvinningum, auglýsingum og/eða styrktarlínum geta sent honum tölvupóst á paller@grindavik.is.

Vegna fjölda fyrirspurna var tekin ákvörðun að taka við frjálsum framlögum fyrir hópinn.

Eigandi reiknings og ábyrgðarmaður er Páll Erlingsson, umsjónarkennari.

Kennitala: 260965-5659
Reikningur: 0143-15-380852

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí