fbpx
Miðvikudagur 08.maí 2024
Fréttir

Þurfti harmleik til að opna augu Signýjar: „Ég þráaðist við og neitaði að yfirgefa húsið mitt“ – Skorar á stjórnvöld vegna Grindavíkur

Ritstjórn DV
Mánudaginn 22. janúar 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hef þurft að yfirgefa heimili mitt vegna náttúruvár og Grindvíkingar eiga alla mína samúð og meira til,“ segir Signý Jóhannesdóttir, fyrrverandi íbúi á Siglufirði og fyrrverandi formaður Stéttarfélags Vesturlands, í aðsendri grein á Vísi.

Signý skrifar þar um málefni Grindavíkur og vill að stjórnvöld hætti að draga lappirnar vegna þeirrar óvissu sem er uppi í bænum.

Signý er fædd og uppalin undir Strengsgilinu á Siglufirði og segir að svæðið sé eitthvert þekktasta snjóflóðasvæði landsins. „Þetta vissu allir en samt var örlögunum storkað.“

Hún rifjar upp í grein sinni að í desember 1994 hafi hún fengið hringingu frá Almannavarnanefnd Siglufjarðar.

„Mér var sagt að það þyrfti að rýma svæðið. Ég brást hin versta við, því fram að þessu hafði lína hættusvæðisins verið dregin um suðurgaflinn á húsinu mínu,“ segir hún og það er skemmst frá því að segja að hún fór ekki neitt þennan morgun. „Það rofaði til í hríðinni og ég sá upp í fjallið að gilið hafði hreinsað sig og flóðið hafði stöðvast í hlíðinni fyrir ofan snjóflóðahúsin (Suðurgata 76 og 78), eins og oft áður.“

Ekki leið á löngu þar til hætta fór aftur að steðja að vegna langvarandi óveðra og snjókomu í byrjun árs 1995.

„Ég þráaðist við og neitaði að yfirgefa húsið mitt þegar hringt var. Maðurinn minn var á sjónum og ég taldi mér leyfast að taka þá ákvörðun að leggja mig og börnin mín í hættu. Stundum hef ég hugsað um það hvort nefndarmennirnir í almannavarnanefndinni hafi dregið strá, þegar ákveðið var hver myndi hafa samband við þessa rugluðu konu. Alla vega var oft ný rödd í símanum.“

Af einu hættusvæði á annað

Signý segir að eitt af því sem pirraði hana við þessar hringingar var að ef hún spurði hvert hún gæti farið, var henni bent á að hún gæti t.d. farið til annarshvors bróður síns sem bjuggu á staðnum.

„Mér var sem sagt bent á að fara af einu hættusvæði á annað. Annar bróðirinn bjó í Norðurtúni og hinn á Hverfisgötu. Á báðum stöðum höfðu fallið snjóflóð,“ segir hún og bætir svo við:

 „Snjóflóðin á Flateyri í október 1995 kenndu okkur að snjóflóð falla ekki bara á skilgreindum hættusvæðum og alls ekki alltaf eftir þeim bókstöfum sem yfirvöld velja svæðunum. Það þurfti í raun allar þessar hörmungar og dauðsföll á Súðavík og Flateyri til að opna augu mín fyrir því að þegar náttúran tekur völdin þá ber mér og öðrum að hlýða yfirvöldum. Yfirvöldum ber skylda til að bregðast við og búa íbúunum öruggt skjól. Ekki senda fólk frá einu hættusvæði á annað eins og gert hefur verið allt of lengi. Mér sem móður fjögurra barna bar skylda til að forða þeim frá hættunni, frekar oftar en sjaldnar,“ segir hún.

„Ég hagaði mér eins og fáviti“

Signý telur að almannavarnanefndin á Siglufirði hafi lært þennan vetur að það þarf að vera til áætlun um fjöldahjálparstöðvar og það þarf að skrá hvert fólkið fer, þannig að ekki þurfi að velkjast í vafa um hverjir eru farnir af svæðinu og hvert þeir eru farnir.

„Ég get aldrei fullþakkað forsjóninni, að engu af mínu fólki var fórnað, vegna þess að ég hagaði mér eins og fáviti. Ég er líka þakklát samfélaginu að hafa tekið þá ákvörðun að verja gamla heimilið mitt og annarra þeirra sem undir varnargörðunum búa. Það þurfti mikið til að opna augu bæði íbúa og yfirvalda.“

Signý rifjar upp að íbúar hafi lagst í fundahöld og gerð hafi verið krafa á yfirvöld um að svara fljótt og vel, hvort kaupa ætti húseignir af íbúum eða verja byggðina. Þá hafi íbúum látið sér detta í hug að byggðar yrðu blokkir á Eyrinni sem íbúar gætu búið í ef til rýmingar kæmi. Svo mætti leigja húsnæðið út til túrista þess á milli.

Stjórnvöld hætti að hangsa

Signý kallar eftir því að stjórnvöld hætti að hangsa og bendir á að lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum hafi fellt á brott ýmis eldri lög og reglugerðir um hvernig stjórnvöld skulu bregðast við snjóflóðum og skriðuföllum.

„Ég myndi treysta mér til þess að lagfæra þennan lagabálk þannig að hann félli að öðrum náttúruhamförum eins og eldgosum og jarðföllum af völdum jarðhræringa. Ég þyrfti ekki fjóra daga til þess – hvað þá fjögur ár. Hvaða ráðamaður telur að hann geti varið byggðina í Grindavík? Varið byggðina þannig að íbúar geti búið þar við sama öryggi og t.d. fólkið sem keypti gamla heimilið mitt á Siglufirði. Ekki láta íbúana bíða í óvissunni.“

Hún segir að þegar snjóflóð féll á Neskaupstað í fyrra hafi hún spurt sig hvers vegna byggðin sé ekki varin.

„Hér með skora ég á þar til bær stjórnvöld að sýna íbúum Grindavíkur þá virðingu að gefa þeim kost á að byrja nýtt líf í því öryggi sem öllum landsmönnum ætti að standa til boða. Breytið lögum eða setjið ný um varnir og viðbrögð þegar jarðhræringar ógna byggð. Fórnið ekki fleiri lífum, ekki andlegri og félagslegri heilsu fólks vegna þess að þið teljið að bull eins og „Við stöndum með Grindvíkingum” veiti íbúum öruggt skjól. Það er alveg sama hversu margir ráðherrar éta þetta upp, það hjálpar ekki. Það tók bara dagpart að afgreiða á þingi lög um að byggja varnargarða. Nú er komið að því að viðurkenna staðreyndir og ákveða að kaupa upp húsnæði fólks í Grindavík. Burt með óvissuna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

98 ára úkraínsk kona gekk 10 km í skothríð til að sleppa frá Rússum – „Ég lifði síðari heimsstyrjöldina af og ég mun lifa þetta stríð af“

98 ára úkraínsk kona gekk 10 km í skothríð til að sleppa frá Rússum – „Ég lifði síðari heimsstyrjöldina af og ég mun lifa þetta stríð af“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Sauð upp úr hjá Dóru Björt og Ragnhildi Öldu – „Það er fáránlegt hvernig þú lætur. Þetta er alveg svakalegt með þig“

Sauð upp úr hjá Dóru Björt og Ragnhildi Öldu – „Það er fáránlegt hvernig þú lætur. Þetta er alveg svakalegt með þig“
Fréttir
Í gær
Hera úr leik