fbpx
Mánudagur 11.desember 2023
Fréttir

Karen Millen reynir að byggja sig upp á ný eftir Íslandshrakfarirnar – „Ég bjó þarna í tuttugu ár og fékk eitt ár til að tæma húsið“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 24. september 2023 12:30

Áður en Íslendingar læstu klónum í Karen Millen var hún stærsta tískuvörumerki í Bretlandi. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Breska tískudrottningin Karen Millen er nú að byggja upp fjármál sín að nýju eftir gjaldþrot árið 2017. Hún sakaði íslenska bankann Kaupþing um sviksemi í tengslum við gjaldþrot sinn.

„Eina leiðin til að komast í gegnum þetta var að leggjast niður og leyfa þessu að gerast,“ segir Millen, sem er 61 árs gömul í dag, við breska blaðið The Daily Mail. „Ég hef aldrei reiknað nákvæmlega hvað ég er búin að tapa miklu. En ég veit að ég tapaði öllu sem ég fékk út úr sölunni á fyrirtækinu mínu.“

Millen hefur verið í tískubransanum í meira en 40 ár og opnaði fyrstu verslunina árið 1983, í bænum Maidstone í Kent. Verslunin varð að sístækkandi keðju og á tíunda áratugnum var Karen Millen orðið eitt stærsta tískuvörumerkið í Bretlandi og jafn vel víðar.

Íslenska félagið Baugur keypti verslunarkeðjuna árið 2004, með fjármögnun frá Kaupþingi og fékk Millen þá 35 milljónir punda í sinn hlut. Árið 2010 kom skatturinn á eftir henni vegna skuldar sem endaði með fyrrnefndum afleiðingum, persónulegu gjaldþroti.

Lífeyririnn bjargaði

„Að lokum átti ég ekkert, ekkert nema lífeyrinn minn. Hann hefur algjörlega bjargað mér,“ segir Millen. „Lífeyrir er undanþeginn kröfum í gjaldþrotabú. Minn er ekki mjög stór en hann hefur verið guðsgjöf. Ég hef getað tekið út ágæta summu skattfrjálst,“ segir hún.

Á sínum tíma hafi hún lítið hugsað út í séreignasparnað en í dag sé hún ánægð að hún hafi lagt fyrir í hann. Hefði meira að segja átt að leggja meira fyrir. Hún segist ekki sjá hvernig fólk komist af á opinbera lífeyrinum. Segist hún vera heilsuhraust og geta starfað í að minnsta kosti tíu ár í viðbót og geti lagt meira fyrir.

Eftir að verslunarkeðjan hafði skipt nokkrum sinnum um hendur eignaðist Kaupþing, eða þrotabú Kaupþings réttara sagt, hana árið 2011. Verslanirnar voru þá rúmlega 100 talsins og meira en 50 verslanir sem fengu að nota nafnið. Eftir að Kaupþing seldi netverslunarfyrirtækinu Boohoo keðjuna árið 2019 voru verslanirnar lagðar niður en keðjan er enn þá til sem netverslun.

Neikvæðni og lögfræðiþras

Millen segist sjá eftir því hvernig fór. „Ég treysti þeim sem ég hélt að væru betri til að sjá um þetta en ég,“ segir hún. „Ég fékk ekki rétta ráðgjöf. Hvort sem það var varðandi fjárfestingar, að setja peninga í skattaskjól, hvað sem var. Ég vildi óska að ég hefði fylgst betur með þessu og tekið meiri ábyrgð.“

Millen reiknar með að vinna í allavega tíu ár í viðbót. Mynd/Getty

Hafi langur tími farið í lögfræðiþras og erfiðleika. Einkum eftir bankahrunið árið 2008. „Tími minn fór allur í neikvæðni, orrustur og lögfræðinga,“ segir Millen. En hún gat ekki byggt sig upp á ný vegna þess að nafn hennar var í eigu verslunarinnar. „Þegar ég hugsa um alla peningana sem fóru í lögfræðinga! Þetta var hola sem varð alltaf stærri og stærri.“

Missti villuna

Meðal þess sem hún missti var fjölskyldusetrið í Wateringbury í Kent. Sex svefnherbergja villa með sundlaug, bíósal og fótboltavelli. Jörðin var fimm ekrur með stöðuvatni á.

„Ég bjó þarna í tuttugu ár og fékk eitt ár til að tæma húsið,“ segir Millen. „Þetta var stórt hús þannig að það tók langan tíma að tæma það. Ég var hrakin út um hliðið þegar komið var að skipta um lásana. Þetta var hræðilegur tími. Börnin mín misstu heimilið sitt. Yngsti sonur minn, sem var tveggja þegar við fluttum inn, átti erfiðast með að sætta sig við þetta.“

Annað áfall var svo þegar verslanirnar voru lagðar niður, jafn vel þó Millen hefði ekki átt þær lengur.

„Þegar ég heyrði að Boohoo hefði keypt fyrirtækið var ég miður mín. Einkum vegna þess að það átti að leggja verslanirnar niður, eitthvað sem ég hafði unnið að því að byggja upp í meira en tuttugu ár hvarf af götunum,“ segir hún. „Ég óttaðist að fyrirtækið myndi hverfa úr sjónum og hugum fólks.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Starfskonur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu pöntuðu strippara í fræðsluferð um hatursglæpi

Starfskonur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu pöntuðu strippara í fræðsluferð um hatursglæpi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dómur ómerktur vegna trassaskapar héraðsdóms

Dómur ómerktur vegna trassaskapar héraðsdóms
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sævar birtir dásamlega mynd: Sést aftur á morgun en svo ekki fyrr en 2025

Sævar birtir dásamlega mynd: Sést aftur á morgun en svo ekki fyrr en 2025
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ofbeldisatvik í Sporthúsinu dregur dilk á eftir sér – Eigandi Superform fær dæmdar milljónir

Ofbeldisatvik í Sporthúsinu dregur dilk á eftir sér – Eigandi Superform fær dæmdar milljónir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pisa-martröðin: Segja að samræmd próf séu svarið

Pisa-martröðin: Segja að samræmd próf séu svarið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hristi kynfæri sín fyrir framan konu

Hristi kynfæri sín fyrir framan konu