fbpx
Miðvikudagur 15.maí 2024
Fréttir

Harmsaga Ólafs Ögmundssonar – Maðurinn sem kunni ekki að kvarta er látinn – „Húsnæðisleysið hafði áhrif, ekki spurning“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 23. júlí 2023 13:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Húsnæðisleysið hafði áhrif, ekki spurning. Við erum viss um að hann væri lifandi enn ef ekki hefði komið upp þessi staða,“ segir Ingileif Ögmundsdóttir, systir Ólafs Ögmundssonar, sem lést þann 8. júlí síðastliðinn. Ólafur var í fréttum í vor eftir að leigufélagið Alma lét bera hann og fatlaðan son hans út úr húsnæði sínu vegna vanskila.

Fréttin greindi frá láti Ólafs þann 9. júlí síðastliðinn en miðillinn fjallaði einnig mest um útburðarmálið og birti myndband af aðgerðum sýslumanns og fulltrúa Ölmu er feðgarnir voru bornir út. Margrét Friðriksdóttir, ritstjóri Fréttarinnar, og Ólafur voru gamlir vinir og aðstoðaði hún hann meðal annars með fjársöfnum sem leiddi til þess að feðgarnir gátu leigt sér hjólhýsi um tíma.

DV ræddi við Ingileif, systur Ólafs, núna um helgina. Hún segir að dánarorsök Ólafs sé ekki kunn, krufningu sé ekki lokið þar sem hann hafði þjáðst af sýkingu sem hefur ekki verið greind. En ljóst sé að Ólafur hafi verið veikur fyrir hjarta undanfarin ár og ástand hans hafði versnað í kjölfar útburðarins úr húsnæði Ölmu.

Ingileif segir að straumhvörf hafi orðið í lífi bróður hennar árið 2015 en það ár veiktist hann alvarlega og missti eiginkonu sína, Gunnhildi Höskuldsdóttur, nokkrum mánuðum síðar. „Hann fékk mjög alvarlegt hjartaáfall árið 2015, það tók 20 mínútur að koma honum í gang, honum var haldið sofandi, hann kældur niður og allt þetta sem gert er í svona tilvikum. Þá sögðu læknarnir að ekki mætti reikna með því að hann kæmi alveg heill til baka. En hann bara vaknaði síðan og fór að sinna konunni sinni, sem var mikið veik á þessum tíma. Hann vildi sjá um hana sjálfur og gerði það allt fram að dauðastund hennar. Ég held að þarna, í þessu hjartaáfalli, hafi hann misst meiri getu og þetta hafi haft meiri áhrif en við gerðum okkur grein fyrir. Því þarna rís hann strax á fætur og fer að sinna konunni í stað þess að hlúa að sjálfum sér og hvílast. Hann segir við alla: „það er ekkert að mér, það er allt í lagi með mig.“ Hún dó 3-4 mánuðum síðar og hann og hans veikindi gleymdust bara í allri þeirri atburðarás.“

Ingileif segir að eiginkonumissirinn hafi líka skert getu Ólafs í lífinu. „Hún var helmingurinn af honum og þau gerðu allt saman og stóðu eins og klettur saman í öllu. Þegar hann var búinn að missa hana og þurfti að gera eitthvað, fara til læknis eða annað, þá hóaði hann í mig, litlu systur sína, því hann var svo vanur að hafa hana við hlið sér í öllu, að hann kunni ekki að vera einn í þessu, kunni í rauninni ekki að vera einn. En hann bar sig alltaf vel.“

Fallið var hátt

Fyrr á ævi sinni hefði Ólaf aldrei grunað að hann yrði ekki alltaf bjargálna. En hann átti erfiðara með að glíma við verkefni lífsins eftir þessi tvö áföll árið 2015. „Hann hafði alltaf séð vel fyrir sér og sínum. Hann var með mannaforráð, var yfirmaður á norsku olíu- og efnaflutningaskipi og hann kom alltaf sinni áhöfn heilli í land og var farsæll í starfi. Hann Óli var líka þannig karakter að alls staðar þar sem hann kom þá fyllti hann húsið með nærveru sinni. Hann var líka fróður og las mikið, sérstaklega á yngri árum,“ segir Ingileif og minnist bróður síns með miklum hlýhug.

Ingileif segir umskiptin hafi verið gífurleg fyrir bróður hennar, að vera allt í einu á götunni eftir farsælt líf lengst af.  „Hann er allt í einu kominn á götuna, 79 ára gamall. Hvernig lenti ég hér? spurði hann sig. Þegar hann sá hvert stefndi fjárhagslega, að hann réði ekki við svona dýra húsaleigu á almennum markaði þá fór hann og leitaði aðstoðar hjá Félagsþjónustunni. Ég fór með honum og við fylltum út einhverja pappíra. Svo þegar hann hringdi síðar og spurðist fyrir um hvernig sín mál stæðu þá könnuðust þær ekki við neina pappíra,“ segir Ingileif, en þá var ekki búið að skrá umsóknina inn rafrænt. Er þetta lítið dæmi um þann hægagang og viðbragðaleysi sem Ólafur mætti hjá Félagsþjónustunni í leit sinni að félagslegu húsnæði. Hann kunni ekki á tölvur eða snjallsíma og þurfti að fylla út form og sækja um með gamla laginu.

„Ég sat við hliðina á honum og við fylltum út þessa pappíra en svo kannast bara enginn við neitt þegar við spyrjumst fyrir.“ Hún segir hins vegar að aðstoð af hálfu Umboðsmanns skuldara hafi verið vel á veg komin þegar Ólafur og sonur hans voru skyndilega bornir út úr húsnæði Ölmu:

„Hann hélt í sakleysi sínu að þeir myndu gefa honum grið þangað til það kæmi niðurstaða úr því. Þetta var vel á veg komið hjá Umboðsmanni skuldara og hann taldi að þeir myndu ekki setja hann út á götu fyrr en það lægi allt fyrir. En svo mæta þeir bara þarna, ekki einu sinni með kassa, heldur bara með poka sem þeir tróðu öllu dótinu hans í. Þegar Óli spyr fulltrúa sýslumanns þarna á staðnum hvert þeir eigi þá að fara, hann var orðinn gamall maður og var þarna með syni sínum sem var í hjólastól, þá segir maðurinn við hann: „Þið verðið bara að fara í gistiskýli.“ Þetta er opinber starfsmaður hjá sýslumanni og hann vogar sér að segja þetta, hann þekkir ekki bakgrunn þessara manna en kemur fram við þá eins og þeir séu útigangsmenn.“

Húsnæðismálin lífshættulegur vandi

Örlög Ólafs Ögmundssonar eru birtingarmynd djúpstæðs og víðtæks vanda í húsnæðismálum þjóðarinnar. Gífurleg eftirspurn er eftir húsnæði og leiguverð er í hæstu hæðum. Mjög erfitt er að uppfylla þörf fyrir félagslegt húsnæði. Leiða má rök að því að þetta ástand hafi átt þátt í  dauða Ólafs. „Þetta er lífshættulegur vandi. Fólk sem lendir í svona, eins og hann Óli, maður sem hefur alltaf verið með allt sitt á hreinu og hefur aldrei áður þurft að leita í félagslega kerfið, fólk sem lendir í þessari stöðu, það kann ekkert á kerfið. Börnunum hans var mjög brugðið yfir þessu öllu, því þegar þau hringdu í hann eða komu til hans þá var alltaf allt í þessu fína. Hann var þessi sterki aðili sem alltaf bjargaði hlutunum og þau sáu hann bara þannig. Þau áttuðu sig ekki á því að hann sagði þeim aldrei neitt frá sínum erfiðleikum, hann ætlaði bara að redda málunum sjálfur, eins og hann hafði alltaf gert. En hann réði bara ekki við það, af því hann kunni ekki á það, plús það að vera orðinn svona veikur. Hann var mjög veikur síðasta mánuðinn og það var erfitt fyrir mig að horfa upp á það.“

Ingileif segir þungbært að hugsa til þess að maður eins og bróðir hennar, sem allt sitt líf skilaði sínu til samfélagsins og borgaði sína skatta og skyldur, hafi ekki fengið aðstoð þegar hann þurfti að leita á náðir félagslega kerfisins. Segir hún að ekkert hafi legið fyrir um hvenær hann gæti fengið félagslegt húsnæði, eða inni á öldrunarheimili. Þó lá ljóst fyrir hvað síðari kostinn varðaði, að hann skoraði hátt þar í öllum viðmiðum sem starfsfólk í félagslega kerfinu vinnur út frá, hann var orðinn aldraður, var húsnæðislaus og heilsulaus. „Þau viðurkenndu það, en samt var ekkert gert,“ segir Ingileif.

Ingileif segir að viðmót fólks sem starfar í félagslega kerfinu mætti líka vera vinsamlegra og manneskjulegra. En hún viðurkennir að tregða Ólafs til að kvarta hafi líka unnið gegn honum við að afla sér fyrirgreiðslu. Sú spurning vaknar hins vegar hvort kerfið eigi að virka þannig að slíkt skipti máli:

„Hann beitti engum þrýstingi. Þegar hann sótti fyrst um félagslegt húsnæði nokkrum mánuðum áður en hann missti húsnæðið, en vissi þá að það var of dýrt fyrir hann, þá segi ég við hann, þú þarft að hringja, ertu búinn að hringja? Nei, við skiluðum inn pappírunum og ég er kominn í röðina. Það er ekki þannig, Óli, sagði ég, þú verður að hringja og minna á þig, helst vikulega. Ef fólk ætlar að fá einhverja niðurstöðu þá verður það stöðugt að minna á sig. Því annars koma aðrir sem annaðhvort hafa einhverja á bak við sig sem geta togað í spotta, eða þeir sem eru duglegir að minna á sig, og ýta manni til hliðar. Hann var þó nokkurn tíma að átta sig á því að þetta væri eitthvað sem hann þyrfti að gera og hringdi þá. En þá kemur það upp að þær könnuðust ekkert við þessa umsókn, því hann hafði fyllt hana út á pappír.“

Ingileif segir að Ólafi hafi verið umhugað um að vandi hans yrði til umfjöllunar í fjölmiðlum því það séu fleiri í þessari stöðu. Allt of margir. Hún segir mikilvægt að þrýsta á stjórnvöld um að bæta ástandið í húsnæðismálum og hún segir að Reykjavíkurborg þurfi að eyða meira fé í félagslegt húsnæði og láta gæluverkefni mæta afgangi. Hún segir sögu bróður síns vera alvarlega áminningu um húsnæðisvandann í landinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Styttist í beint flug til Kína: „Líklegustu borgirnar eru Shanghai eða Peking til að byrja með“

Styttist í beint flug til Kína: „Líklegustu borgirnar eru Shanghai eða Peking til að byrja með“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Atvik sem fór framhjá flestum í gær – Trompaðist gjörsamlega þegar hann var tekinn af velli

Atvik sem fór framhjá flestum í gær – Trompaðist gjörsamlega þegar hann var tekinn af velli
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Segja þetta sóun á almannafé – „Eins og að bjóða krökkunum í ísbíltúr með afmælispeningunum þeirra“

Segja þetta sóun á almannafé – „Eins og að bjóða krökkunum í ísbíltúr með afmælispeningunum þeirra“
Fréttir
Í gær

Dúxaði í Verzló en er nú á svörtum lista Vesturlanda – Fannst íslenskir unglingar drekka of mikið

Dúxaði í Verzló en er nú á svörtum lista Vesturlanda – Fannst íslenskir unglingar drekka of mikið
Fréttir
Í gær

Gagnrýnir Bjarna og Guðmund harðlega: „Þeir voru bókstaflega hlæjandi á meðan hún talaði“

Gagnrýnir Bjarna og Guðmund harðlega: „Þeir voru bókstaflega hlæjandi á meðan hún talaði“
Fréttir
Í gær

Pétur Jökull talinn vera fimmti sakborningurinn í stóra kókaínmálinu – Talinn hafa hitt annan sakborning í miðborginni

Pétur Jökull talinn vera fimmti sakborningurinn í stóra kókaínmálinu – Talinn hafa hitt annan sakborning í miðborginni