Guðmundur Elís Sigurvinsson, 23 ára gamall sjómaður og dæmdur ofbeldismaður, var handtekinn við höfnina í Reykjanesbæ á fjórða tímanum í dag. Vísir.is greinir frá handtöku hans.
Var Guðmundur Elís handtekinn eftir að ábending barst til lögreglu um að 15 ára gömul stúlka sem leitað var að síðan í gærkvöldi gæti verið hjá honum um borð í bátnum Grímsnesi sem fór til veiða kl. 4 í morgun.
„Ekki hefur einhver séð systur mína eða heyrt eitthvað frá henni? Hún fór að heiman um 19 leytið í gærkvöldi og skilaði sér aldrei heim í nótt,“ sagði í færslu eldri systur stúlkunnar á Instagram í morgun, en færslan fékk mikla dreifingu á samfélagsmiðlum í dag.
Eftir ábendingu um að stúlkan gæti verið um borð hjá Guðmundi Elís barst beiðni frá lögreglu um að bátnum yrði snúið til hafnar aftur og var orðið við þeirri beiðni. Samkvæmt Vísi var að minnsta kosti einn skipverji, skipstjóri bátsins, kallaður til yfirheyrslu þegar í land var komið. Var maðurinn látinn laus að lokinni yfirheyrslu. Ekki er ljóst hvort aðrir skipverjar hafi vitað af stúlkunni um borð eða séu grunaðir með einhverjum hætti að hafa komið að málinu.
Viðurkenndi að stúlkan væri um borð
Samkvæmt heimildum Vísis viðurkenndi Guðmundur Elís að vinkona hans væri um borð og sagði skipstjórinn stúlkunni að hringja strax í foreldra sína. Var Guðmundur Elís í brúnni ásamt skipstjóra þar til báturinn kom til hafnar í Reykjanesbæ um klukkan 15.30 í dag. Þar biðu tveir lögreglubílar og var Guðmundur Elís handtekinn og stúlkunni komið í öruggar hendur.
Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, staðfestir að karlmaður hafi verið handtekinn að beiðni Lögreglunnar í Vestmanneyjum eftir að henni bárust upplýsingar um að stúlkan hafi verið um borð í bátnum Grímsnes.
Hann segir að Guðmundur Elís hafi verið yfirheyrður og að málið sé í rannsókn. Hann getur ekki sagt til um það hvort hann sé grunaður um saknæma háttsemi. Þá liggi ekki fyrir að svo stöddu hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir honum.
Hlaut 12 mánaða dóm fyrir gróf ofbeldisbrot gegn fyrri kærustum
Guðmundur Elís losnaði úr fangelsi í nóvember síðastliðnum, og fékk vinnu sem sjómaður á fiskibátnum Grímsnesi, en þar hafði hann starfað áður.
Í september 2020 var viðtal í Kastljósi við Kamillu Ívarsdóttur, fyrrum kærustu Guðmundar Elís, þar sem hún sagði frá grófu ofbeldi sem hún varð fyrir af hálfu hans. Með henni í viðtalinu var móðir hennar Helga Sæunn Árnadóttir, sem sagði sögu sína í forsíðuviðtali Vikunnar í byrjun árs 2021.
Í dóminum sem Guðmundur Elís hlaut í mars 2020 eru fjögur ofbeldisbrot hans tiltekin gegn Kamillu sem og annarri fyrrverandi kærustu sem jafnframt er barnsmóðir Guðmundar, og var hann sakfelldur fyrir þau öll. Þegar Kastljósviðtalið var tekið við mæðgurnar hálfu ári síðar gekk Guðmundur Elís laus og hafði þá ekki verið boðaður til afplánunar.
Guðmundur Elís braut gegn fleiri konum – Óhugnanlegar lýsingar í Kastljósi og langur afbrotaferill
Guðmundur Elís var handtekinn í september 2021 grunaður um kynferðisbrot gegn konu í Vestmannaeyjum. Ekki er vitað um stöðuna á rannsókn þess máls.
Í júní 2021 greindu fréttamiðlar frá hrottalegri líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur sem fór í dreifingu á samfélagsmiðlum. Á myndbandinu sést maður liggja ofan á öðrum manni og láta höggin dynja á andlitinu á honum. Á myndbandinu sést einnig að minnsta kosti fimm vitni sem mörg hver eru með símann í hendinni. Engum sjónarvotta datt hins vegar í hug að hringja í lögregluna. Árásarþolinn var Guðmundur Elís, en gerandinn erlendur ferðamaður sem fékk upplýsingar um fyrri brot Guðmundar Elís frá stúlku sem hann áreitti fyrr um kvöldið og vinkonu hennar. DV hefur ekki upplýsingar um hvort Guðmundur Elís kærði árásina.