fbpx
Mánudagur 06.maí 2024
Fréttir

Dæmdir fyrir að ræna Stefán

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 19. desember 2023 13:45

Héraðsdómur Reykjavíkur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær var kveðinn upp, í Héraðsdómi Reykjavíkur, dómur yfir tveimur mönnum, Alexander Brynjari Róbertssyni og 18 ára gömlum manni, aðallega fyrir fjölda þjófnaða og rána á alls hálfs árs löngu tímabili á þessu ári. Þar á meðal frömdu þeir tvö vopnuð rán sama daginn. Stefán S. Stefánsson og eiginkona hans Anna Steinunn Ólafsdóttir urðu fyrir öðru þeirra, þegar þau voru á gangi á göngustíg í Fossvogi, en Alexander, sem er nokkrum árum eldri en hinn maðurinn, og sá yngri ógnuðu þeim með hnífi á meðan þeir rændu Stefán. Sama dag gerðu þeir tilraun til að ræna fé sem kona var að taka út úr hraðbanka í Hamraborg í Kópavogi.

Sjá einnig: Maðurinn sem réðst á Stefán og Önnu í Fossvogi grunaður um mikinn fjölda afbrota og úrskurðaður í langt gæsluvarðhald

Þar að auki var Alexander ákærður fyrir að hafa í mars síðastliðnum farið inn um opna hurð á heimili í Hafnarfirði. Þaðan stal hann ökuskírteini, Cintamani úlpu, húslyklum, Under Armour jakka, 66° norður jakka, tölvubúnaði, Billabong hliðartösku, dælulyklum og kveikjuláslyklum. Loks stal hann bifreið af heimilinu og ók á ótilgreindan stað í Hafnarfirði þar sem lögreglan fann bifreiðina.

Alexander var einnig ákærður fyrir vopnalagabrot með því að hafa í júní síðastliðnum haft í fórum sínum, á almannafæri, vasahníf en lögreglan fann hnífinn eftir að hún hafði afskipti af honum.

Sömuleiðis var Alexander ákærður fyrir að hafa hálfum mánuði síðar ekið undir áhrifum áfengis.

Yngri maðurinn var ákærður fyrir að hafa í júlí stolið bifreið í Hafnarfirði og ekið henni að Kaplakrika þar sem lögreglan fann hana.

Alexander og yngri maðurinn eru í sameiningu ákærðir fyrir að hafa í ágúst stolið bifreið en Alexander skildi bifreiðina eftir á ótilgreindum stað í Reykjavík þar sem lögreglan fann hana.

Þeir voru ákærðir fyrir að hafa í ágúst síðastliðnum ógnað Stefáni og Önnu og rænt verðmætum af Stefáni. Alexander ógnaði þeim með hnífi á meðan yngri maðurinn tók farsíma og snjallúr af Stefáni.

Loks voru Alexander og yngri maðurinn ákærðir fyrir að hafa sama dag skipað konu að afhenda þeim peninga sem hún var að taka út úr hraðbanka í Hamraborg í Kópavogi. Konan náði hins vegar að hlaupa í burtu og á meðan á þessu stóð rann reiðuféð aftur inn í hraðbankann.

Dæmdur fyrir þremur héraðsdómstólum

Í dómnum segir að Alexander og yngri maðurinn hafi játað brot sín skýlaust en þeir kröfðust vægustu refsingar sem lög leyfa.

Alexander á langan sakaferil að baki en í dómnum eru fyrri dómar yfir honum raktir.

Árið 2019 var hann sakfelldur í Héraðsdómi Norðurlands vestra fyrir nytjastuld og akstur án gildra ökuréttinda og var ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Sama ár var hann dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir nytjastuld, þjófnað, eignaspjöll, ölvunar- og fíkniefnaakstur og akstur án ökuréttinda, auk fíkniefna- og lögreglulagabrots.

Þessi brot framdi hann fyrir 18 ára aldur.

Árið 2021 gekkst Alexander undir lögreglustjórasátt fyrir akstur án ökuréttinda og vopnalagabrot.

Sama ár var hann dæmdur, í Héraðsdómi Reykjavíkur, í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni.

Árið 2022 var Alexander dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás, tilraun til ráns, nytjastuld, eignaspjöll, ölvunar- og fíkniefnaakstur og akstur sviptur ökurétti, auk fíkniefna- og vopnalagabrota.

Loks var honum ákveðin sektarrefsing með áritun Héraðsdóms Reykjavíkur í nóvember 2022 á sektarboð lögreglustjóra vegna umferðarlagabrots sem fólst í akstri án gildra ökuréttinda.

Rufu báðir skilorð

Yngri maðurinn átti einn dóm að baki en 2022 var hann dæmdur, í Héraðsdómi Reykjavíkur, í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni.

Með þeim brotum sem þeir voru dæmdir fyrir í gær rufu bæði Alexander og yngri maðurinn skilorð en Héraðsdómur Reykjavíkur metur ungan aldur þeirra og skýlausar játningar þeim til refsilækkunar. Á móti kemur að brotin sem þeir frömdu í sameiningu og hversu gróft brot þeirra var þegar þeir rændu Stefán var metið þeim til refsiauka. Sakaferill Alexanders var einnig metinn honum til refsiauka.

Alexander var dæmdur í 20 mánaða óskilorðsbundið fangelsi en gæsluvarðhald sem hann sat í frá ágúst og fram í nóvember á þessu ári verður dregið frá refsingunni. Þar að auki var hann sviptur ökuréttindum ævilangt og vasahnífur hans gerður upptækur.

Yngri maðurinn var dæmdur í 7 mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Dóminn í heild sinni er hægt að lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Fangi fannst látinn á Litla-Hrauni

Fangi fannst látinn á Litla-Hrauni
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Gunni Helga með tárin í augunum: „Ég hélt við værum komin lengra!“

Gunni Helga með tárin í augunum: „Ég hélt við værum komin lengra!“
Fréttir
Í gær

Fiskadauði í Grenlæk – „Aðkoman var vægast sagt sorgleg og ógeðsleg og óþefurinn eftir því“

Fiskadauði í Grenlæk – „Aðkoman var vægast sagt sorgleg og ógeðsleg og óþefurinn eftir því“
Fréttir
Í gær

Leyniskýrsla Lífs og sálar um skrifstofu Sameykis afhjúpuð – Formaðurinn vísar ásökunum um ógnarstjórn á bug

Leyniskýrsla Lífs og sálar um skrifstofu Sameykis afhjúpuð – Formaðurinn vísar ásökunum um ógnarstjórn á bug
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Skoðanakönnun: Hver stóð sig best í kappræðunum á RÚV?

Skoðanakönnun: Hver stóð sig best í kappræðunum á RÚV?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Boris Johnson sendur af kjörstað með skottið milli lappanna

Boris Johnson sendur af kjörstað með skottið milli lappanna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rafmagnað andrúmsloft í upphafi kappræðna forsetaframbjóðendanna

Rafmagnað andrúmsloft í upphafi kappræðna forsetaframbjóðendanna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Dómur yfir Inga Val fyrir nauðgun á unglingsstúlku þyngdur í Landsrétti

Dómur yfir Inga Val fyrir nauðgun á unglingsstúlku þyngdur í Landsrétti