Ragnar Visage, ljósmyndari fréttastofu Ríkisútvarpsins, harmar mjög að hafa reynt að komast inn í mannlaust hús í Grindavík í dag. Mbl.is greinir frá.
Myndband af athæfi Ragnars vakti mikla athygli á Facebook í dag. Á myndbandinu sést ljósmyndarinn, íklæddur gulu vesti sem merkt er RÚV, koma upp að húsinu og skyggnast inn í það. Svo virðist sem hann reyni að opna útidyrahurð og þá sést hann róta í blómapottum fyrir utan húsið, mögulega í leit að lyklum.
RÚV hefur opinberlega beðist afsökunar á atvikinu og segir verkferla verða endurskoðaða í kjölfar þess.
Ragnar segir í viðtali við mbl.is:
„Ég var að mynda þarna miða sem á stóð að húsið væri tómt og ákvað að athuga hvort ég kæmist inn, mér fannst það á þessum tímapunkti góð hugmynd en þetta var auðvitað hörmuleg ákvörðun hjá mér. Mér líður bara ömurlega yfir þessu.“
Ragnar segir að þetta hafi verið ömurleg hegðun af sinni hálfu og segist hann ætla að biðja íbúa hússins innilega afsökunar.
Ragnar tjáir sig jafnframt um málið á Facebook-síðu sinni:
„Kæru vinir þar sem ég er nú sennilega óvinsælasti maður dagsins þá vil ég innilega afsaka mína hegðun í Grindavík í dag, þetta var í algjöru óðagáti þar sem ég var einn eftir í bænum (fyrir utan viðbragðsaðila) og ég var beðinn um að reyna ná myndefni innanhús, í algjöru hugsunarleysi og í öllum hasarnum fanst mér liggjast beinast við að athuga með að komast inn í næsta hús. Galið, ég veit! Búinn að fá miklar skammir frá Björgunarsveitinni, skiljanlega, og hef beðið þau innilega afsökunar, og þetta er engan veginn í anda vinnureglna RÚV eða þess anda sem fréttatofan starfar í.“