fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Starfsánægja í öryggisleit og farþegaþjónustu Isavia á Keflavíkurflugvelli sögð við frostmark – Aukið álag og meiri vinna – Isavia fór ekki eftir kjarasamningi

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 11. nóvember 2023 10:00

Wikimedia-Jeff Hitchcock

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikil óánægja grasserar meðal starfsmanna í öryggisleit Keflavíkurflugvallar, sem rekin er af Isavia.  Um er að ræða starfsmenn sem sjá um þá öryggisleit sem allir flugfarþegar þurfa að fara í gegnum. Heimildir DV  herma að óánægjan sé ekki síst tilkomin vegna nýs vaktakerfis og aukinnar viðveru á vinnustaðnum sem það hefur leitt af sér. Hafa þessir starfsmenn sem og aðrir starfsmannahópar, svo sem starfsmenn í farþegaþjónustu, á Keflavíkurflugvelli þurft að glíma við mikið álag og manneklu í störfum sínum. Starfsandinn meðal starfsmanna í öryggisleit sem og víðar meðal starfsmanna Isavia og raunar starfsmanna hjá öðrum opinberum aðilum á flugvellinum er sagður hafa farið hríðversnandi. Formenn verkalýðsfélaga staðfesta umkvörtunarefni starfsmannanna í meginatriðum og segja dæmi um að Isavia hafi brotið í bága við kjarasamninga.

Isavia veitti aðeins stutt og almenn svör við spurningum DV um þessa þróun.

Þá herma heimildir DV að margir starfsmenn í öryggisleitinni hafi sagt upp störfum vegna þessarar þróunar en þori ekki að tjá sig um raunverulega ástæðu uppsagna sinna af ótta við að fá ekki annað starf.

Andinn meðal starfsmanna í öryggisleit er sagður hafa versnað til muna undanfarin misseri. Óánægjan er sögð mikil. Hermt er að veikindi hafi aukist undanfarna mánuði vegna álags og undirmönnunar og að starfsfólk hafi oft þurft að standa 11 tíma vaktir 4-6 daga í röð sem, þegar um er að ræða dagvaktir, byrja yfirleitt klukkan fjögur eða fimm á morgnana.

Nýtt vaktakerfi setti allt í uppnám

Starfsmenn með margra ára reynslu treysta sér að sögn ekki lengur til þess að vera í 100 prósent starfi þar sem að álag sé orðið of mikið og vinnutíminn óhentugri.

Ein helsta ástæðan fyrir þessu er nýtt vaktakerfi sem tekið var upp fyrir nokkrum misserum. Áður unnu starfsmenn í öryggisleit í vaktakerfinu 2-2-3. Það fól í sér að unnið var á 12 tíma vöktum í eina viku mánudaga, þriðjudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Vikuna á eftir var unnið miðvikudaga og fimmtudaga og vikuna þar á eftir var aftur unnið í fimm daga og svo koll af kolli. Með þessu kerfi vissi starfsfólk það langt fram í tímann hvenær það var á vakt.

Nú hefur verið tekið upp svokallað óskavaktakerfi sem felst einkum í því að fólk skráir sig til vinnu þá daga sem það vill helst vinna en vöktum á vissu tímabili fram í tímann er svo úthlutað. Vaktirnar voru um leið styttar úr 12 tímum í 11.

Óskavaktakerfið er sagt hafa leitt til til þess að starfsfólk þarf að mæta oftar til vinnu. Ein nýjasta útfærslan á óskavaktakerfinu hefur falist í því að fólk er beðið um að mæta tvisvar á dag til vinnu og fara heim þess á milli. Starfsfólk hefur verið beðið um að afsala sér öllum launum þann tíma sem það var heima þótt það ætti að vera á vakt á þessum tilteknum dögum. Starfsfólk hefur kvartað yfir þessu við stéttarfélög og heimildarmenn DV segja þá kvörtun hafa leitt í ljós að um brot á kjarasamningum hafi verið að ræða.

Einnig er kvartað yfir því að lítið sé hlustað á kvartanir og neikvæða upplifun starfsmanna af óskavaktakerfinu.

Óskavaktakerfið hefur verið tekið upp í fleiri starfseiningum í Leifsstöð sem heyra undir Isavia en breytingarnar voru hugsaðar í sparnaðarskyni.

Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum hafa langar biðraðir farþega myndast reglulega undanfarið við öryggisleitina í Leifsstöð. Heimildarmenn DV fullyrða að helstu orsakirnar séu undirmönnun og aukin veikindi í kjölfar vaxandi álags, meðal annars vegna óskavaktakerfisins, en mörg dæmi séu um að starfsfólk sé látið vinna 6 daga í röð, fái svo frí í 1 dag og vinni svo aftur 6 daga í röð.

Óánægjan sé ekki eingöngu bundin við öryggisleitina

Starfsmenn í öryggisleit hjá Isavia eru ýmist félagsmenn í stéttarfélaginu Sameyki eða Félagi flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR). DV ræddi við formenn beggja félaga. Þórarinn Eyfjörð, formann Sameykis, og Unnar Örn Ólafsson, formann FFR. Þeir staðfesta báðir í meginatriðum orð heimildarmanna DV um aukna óánægju og aukið álag á starfsmenn í öryggisleitinni, sem og starfsmenn í farþegaþjónustu og á fleiri vinnustöðum í Leifsstöð, meðal annars vegna undirmönnunar. Þórarinn segir að hin aukna óánægja meðal starfsfólks sé ekki eingöngu bundin við öryggisleitina. Hana sé að finna víðar meðal starfsfólks Isavia, en fleiri starfsmannahópar hjá félaginu eru félagsmenn í Sameyki og FFR:

„Það er kraumandi óánægja í það heila hjá Isavia.“

Þórarinn segir að þegar kemur að starfsmönnum í öryggisleit þá hafi Sameyki borist töluvert af ábendingum um „mjög erfitt ástand og óviðunandi.“

Það eigi raunar líka við um stöðu mála hjá starfsmönnum farþegaþjónustu Isavia: „Það er fólkið sem er út um alla byggingu að leiðbeina, hjálpa, aðstoða, með hjólastólana, koma fólki á réttan stað og svo framvegis.“

Þessir starfsmenn séu ekkert síður óánægðir en starfsmenn í öryggisleit. „Það er bara mjög slæmur tónn í fólki þarna upp frá.“

Þórarinn segir það gilda líka um landamæraverði, sem eru félagsmenn í Sameyki og starfa við vegabréfaeftirlit og landamæravörslu gagnvart farþegum sem koma til landsins frá löndum utan Schengen-svæðisins. Sá starfsmannahópur sé hins vegar fámennari en starfsmenn í öryggisleit og farþegaþjónustunni.

Landamæraverðir starfa ekki hjá Isavia heldur embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Þórarinn segir að óskipulag og óreiða vegna þess mikla farþegafjölda sem fari í gegnum flugstöðina sé að bitna mest á landamæravörðum, starfsmönnum í stjórnstöðvum og starfsmönnum farþegaþjónustunnar. Athugasemdir berist í jafn miklum mæli frá þessum hópum og starfsmönnum í öryggisleit.

Þórarinn Eyfjörð

Kvartað yfir undirmönnun og skipulagsleysi

Þórarinn hefur persónulega reynslu sem farþegi af þessari undirmönnun og skipulagsleysi. Nýlega fór hann í ferð erlendis  og eins og lög gera ráð fyrir fór hann í gegnum öryggisleitina.

Röðin hafi náð frá annarri hæð flugstöðvarinnar, þar sem öryggisleitin fer fram, niður stiga og niður á fyrstu hæð. Gólfið á svæðinu í námunda við stigann hafi verið þakið fólki.

„Ég hef aldrei séð svona.“

Þórarinn beið í klukkutíma í röðinni niðri á fyrstu hæð og þá hafi hann átt eftir að komast upp á aðra hæð í öryggisleitina. Þegar hann komst loks þangað hafi komið í ljós að þrátt fyrir mannmergðina hafi tvær af þeim leitarvélum sem notast er við í öryggisleitinni ekki verið í notkun. Ljóst sé að þörf var á fleira starfsfólki í öryggisleitina.

„Þeir halda ekki mannskap. Þau eru undirmönnuð. Hluti af því er að verkefnin eru þung en það vantar miklu meira fólk þarna til starfa. Ég held að það sé verið að keyra þennan starfshóp alveg í þrot.“

Þórarinn segir skipulagsleysi, undirmönnun og meðfylgjandi álag helstu umkvörtunarefnin meðal starfsfólks Isavia í öryggisleit, farþegaþjónustu og víðar.

„Það er segin saga að þar sem mikið álag er og mikil undirmönnun og þú ert að vinna í mikilli nánd við þjónustuþeganna, þá farþeganna, og þú þarft að beita öllu þínu til að koma skilaboðum, fyrirmælum og hjálpsemi og allt þetta … þá þarf að beita sér virkilega til að sýna framúrskarandi þjónustu, góða framkomu og veita skýrar leiðbeiningar. Þegar þú færð aldrei pásu með þessa mannmergð allan daginn þá bítur þetta í.“

Segjast ekki hafa skýra vitneskju um hópuppsagnir

Unnar Örn Ólafsson formaður FFR segir að hans félagi hafi einnig borist kvartanir frá starfsmönnum í öryggisleit og kannast við að óánægja þar sé þó nokkur.

Eins og áður hefur komið fram segja heimildarmenn DV að uppsögnum meðal starfsmanna í öryggisleit hafi fjölgað. Fréttamaður DV spurði Þórarinn hvort að Sameyki hafi vitneskju um aukinn fjölda uppsagna meðal þessa hóps sem og meðal annarra starfsmannahópa sem hann nefnir til sögunnar. Hann segist ekki hafa heyrt mikið um hópuppsagnir meðal þessara hópa en fyrst og fremst hafi hann heyrt af mikilli óánægju.

Unnar Örn segir að hans félagi hafi einnig borist til eyrna að uppsögnum meðal starfsmanna í öryggisleit hafi farið fjölgandi en FFR hafi engan aðgang að nákvæmum tölum:

„Við höfum heyrt af því. Isavia er bara með tölur um uppsagnir.“

Segir það engin ný fræði að aukið álag leiði af sér aukin veikindi

Þórarinn Eyfjörð hefur ekki upplýsingar um hvort að Isavia gangi erfiðlega að fá fólk til starfa í öryggisleit og farþegaþjónustu. Hann telur þó að ef vinnutími og laun séu ekki í lagi þá gangi augljóslega erfiðlega að fá fólk til starfa.

Fréttamaður DV spurði Þórarinn í framhaldi af því um ábendingar um að veikindi meðal starfsmanna í öryggisleitinni hefðu farið vaxandi vegna hins aukna álags og hvort Sameyki hefði borist upplýsingar um það eða aukin veikindi meðal annarra starfsmannahópa sem hafi þurft að líða fyrir undirmönnun og aukið álag:

„Almennt á vinnumarkaði þá er jafnaðarmerki þarna á milli. Við þekkjum það úr öllum rannsóknum og líka úr lýðfræðilegum- og heilsurannsóknum, burtséð frá vinnustöðum. Þar sem er vont skipulag á vinnustöðum, allt of mikið álag, langvarandi álag, það leiðir til aukinna veikinda. Þetta eru engin ný fræði.“

Hann segir Sameyki ekki hafa tölulegar upplýsingar um aukin veikindi meðal þessara hópa en hafi borist frásagnir þess eðlis.

Unnar Örn segir að Isavia eitt hafi yfir að ráða tölum um veikindi starfsfólks og segir að FFR hafi ekki borist kvartanir eða ábendingar um aukin veikindi.

Vinnutíminn hafi lengst á tímum áætlana um styttri vinnuviku

Eins og áður segir hefur verið tekið upp svo kallað óskavaktakerfi meðal starfsmanna í öryggisleit og raunar víðar meðal starfsmanna Isavia og er þetta kerfi sagt hafa aukið álag og í raun lengt vinnutíma í trássi við áætlanir og markmið um styttingu vinnuvikunnar. Þórarinn Eyfjörð tekur undir með heimildarmönnum DV um að kerfið hafi reynst afar illa og segir að Sameyki hafi fengið mikið af kvörtunum frá sínum félagsmönnum vegna kerfisins: „Afleiðingin af því er að fólk er að mæta miklu oftar til vinnu heldur en í föstu vaktakerfi á einhverjum ákveðnum fyrir fram séðum tímavöktum. Þetta vinnur gegn hugmyndinni um betri vinnutíma sem við erum búin að vera að vinna að í mörg ár,“ segir Þórarinn og er á því að um mikla afturför sé að ræða.

Unnar Örn segir að  mikil óánægja sé meðal félagsmanna FFR með óskavaktakerfið og þær breytingar sem það hefði haft í för með sér:

„Með þessu óskavaktakerfi er ákveðinn fyrirsjáanleiki sem fólk hafði áður fyrr bara horfinn. Af því þetta er í tengslum við flugumferð þá er þetta kannski bara 1-2 mánuðir fram í tímann sem fólk hefur versus það að vita hvort það er að vinna jól eða áramót eftir 10 ár, áður fyrr.“

Unnar Örn segir eins og Þórarinn að starfsfólkið í öryggisleitinni kvarti mikið yfir því að óskavaktakerfið hafi leitt til þess að þurfi að mæta mun oftar til vinnu en í fasta vaktakerfinu sem áður var við lýði. Eins og Þórarinn bendir hann á að þetta gangi gegn áætlunum og hugmyndum um styttingu vinnutíma:  „Þrátt fyrir innleiðingu á vinnutímastyttingu. Þá upplifir fólk að það sé meira í vinnunni en áður fyrr. Við þurfum öll að geta kúplað okkur út.“

Unnar Örn segir að starfsfólkið sé að fara úr því að mæta 14-16 daga í mánuði til vinnu allt upp í 20 daga í mánuði:  „Það er ansi mikið.“

Það skal áréttað að hefðbundin dagvakt hjá starfsmönnum í öryggisleit og farþegaþjónustu er 11 tímar og byrjar klukkan fjögur eða fimm á morgnana.

Fréttamaður spurði Þórarinn hvort hann hefði upplýsingar um það sem heimildarmenn DV nefna um að óskavaktakerfið hafi meðal annars leitt til þess að starfsfólk í öryggisleit væri skráð á vakt sex daga í röð, fengi einn dag í frí og þyrfti svo að mæta aftur sex daga í röð:

„Við þekkjum einstaka frásagnir þar sem að hefur verið einhver svona vitleysa í gangi hvað þetta varðar. Ég er ekki að rengja þetta. Ég hef bara ekki upplýsingar um það. Ég hef fengið ábendingar um það en í hversu miklum mæli þetta er er mér ekki kunnugt um.“ Unnar Örn hafði hins vegar ekki heyrt af slíkum dæmum.

Hafi brotið í bága við kjarasamning

Heimildarmenn DV hafa einnig sagt starfsfólk í öryggisleit hafa verið sett á tvískipta vakt sama daginn gegn sínum vilja. Það hafi mætt til vinnu og unnið í ákveðinn fjölda klukkutíma, verið sent heim og látið mæta aftur en ekki fengið greidd laun á þeim tíma dagsins sem það var sent heim þótt það ætti að vera á vakt á umræddum tíma. Þetta hafi verið í trássi við kjarasamninga.

Þórarinn var spurður um það hvort hans félag hafi fengið upplýsingar um að slíkt hefði átt sér stað. Hann var afdráttarlaust um að slíkt væri ekki í samræmi við kjarasamninga og vissi af einu slíku tilfelli:

„Þetta er bara brot á kjarasamningi. Það er eitt tilfelli, sem ég hef heyrt, um þetta. Það getur verið að þetta hafi verið sett víðar. Ég ætla ekkert að fullyrða að það hafi ekki verið gert. Ég er búinn að heyra af einu tilfelli og þá rennur mér í grun að þau séu fleiri. Þetta er bara algerlega óheimilt … Ef ég skil þetta rétt var fólk látið skrifa upp á að það myndi ekki fá neina bætingu fyrir það sem við köllum biðtíma milli vaktanna. Þetta er náttúrulega bara algjörlega út í hött.“

Unnar Örn Ólafsson staðfestir að FFR hafi gert athugasemdir um þessa tilhögun við Isavia og náð fram leiðréttingu:

„Við fórum fram á það að það yrði leiðrétt. Það er ekki heimild fyrir því í kjarasamningi að fólk fari heim. Það er að segja vinni frá kannski klukkan eitt til átta um kvöldið og mæti svo aftur frá tíu til tvö. [sama kvöld, innsk. DV] Þá þarf að greiða því bakvaktarálag fyrir þessa tvo tíma, milli átta og tíu. Út af einhverjum ástæðum töldu stjórnendur sig hafa heimild til að láta fólk afsala sér þessu bakvaktarálagi.“

„Við fórum fram á það að því yrði breytt. Upp frá því fóru af stað einhverjar breytingar þarna innanhúss á vaktskrá og við hömruðum strax á þeim að þau gætu ekki farið að breyta útgefinni vaktskrá. Þannig að mér skilst að þetta eigi að taka gildi í desember að banna svona tvær innkomur þannig að þau séu ekki að greiða þetta bakvaktarálag. Fyrst vinnuveitandinn vill ekki borga bakvaktarálagið þá verða þau náttúrulega að stöðva þetta. Þau geta ekki látið fólk afsala sér réttindum.“

Unnar Örn segir að þessar tilraunir og tilfæringar Isavia hafi aukið óánægju starfsfólksins enn frekar:

„Þetta er ekki gott fyrir móralinn.“

Isavia fullyrðir að innleiðinga óskavaktakerfisins hafa gengið vel

DV óskaði eftir ítarlegum svörum frá Isavia vegna málsins en fyrirtækið sendi frá sér almennt svar, þar sem meðal annars spurningu um þau skipti sem starfsfólk var sent heim af vakt án þess að greiða því bakvaktarálag, í trássi við kjarasamninga, var svarað. Í svarinu er fullyrt að innleiðing óskavaktakerfisins hafi gengið vel að mestu en eins og fram kom hér á undan líta starfsmenn og formenn Sameykis og FFR innleiðingu kerfisins allt öðrum augum. Svar Isavia við spurningum fréttamanns var annars eftirfarandi.

„Okkur hjá Isavia er umhugað um heilsu og velferð starfsfólks og viljum byggja heilsusamlegan og öruggan vinnustað þar sem einstaklingar fá að vaxa og dafna. Við tökum vel á móti öllum athugasemdum og leggjum okkur fram við að bregðast við þeim og vinna með starfsfólki að úrbótum.

Hjá fyrirtækinu starfa um 1000 manns í fjölbreyttum störfum og hjá fjölmörgum deildum. Almennt er starfsánægjan góð en að sjálfsögðu koma upp áskoranir sem við tökumst á við í samstarfi við starfsfólk.

Á undanförnum árum höfum við verið að innleiða svokallað óskavaktakerfi fyrir starfsfólk í vaktavinnu hjá fyrirtækinu. Það felur í sér að fólk getur sett saman eigin vaktaskipulag yfir mánuðinn og komið er til móts við þær óskir eftir því sem hægt er. Markmiðið með því er meðal annars að auðvelda starfsfólki samþættingu vinnu og fjölskyldulífs í vaktavinnu og hefur það almennt mælst vel fyrir.

Fyrir ári síðan tókum við það upp  fyrir öryggisleit. Innleiðing þess hefur að mestu gengið vel, en við erum þó enn að læra og þróa fyrirkomulagið þannig að það henti best fyrir þennan hóp.

Við höfum verið að kljást við undirmönnun í ákveðnum einingum m.a. vegna pesta og þess að sumarvertíð teygir sig inn í haustið á sama tíma og sumarstarfsfólk hefur m.a. horfið til náms. Við höfum nú gengið frá ráðningu á viðbótarstarfsfólki til að mæta þessu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar