fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Grindvíkingar opna sig um súrrealískan sólarhring – Bjartsýn þrátt fyrir allt en „alls ekki undirbúin fyrir það að mögulega myndum við aldrei snúa aftur heim“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 11. nóvember 2023 16:32

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þjóðin hefur í nótt og í dag fylgst náið með stöðu mála á Reykjanesskaga. Allar líkur eru á að eldgos sé framundan, jarðskjálftar voru í gær nánast án afláts fyrir Grindvíkinga og svo komu þau sláandi tíðindi síðdegis í gær að Grindvíkingum væri skylt að yfirgefa heimili sín og leita skjóls í öðrum bæjarfélögum. Óvissan er gífurleg og vita Grindvíkingar því ekki hvernig næstu dagar verða eða hvenær þau megi snúa aftur heim, jafnvel til að sækja bara eigur sínar.

Fjöldi Grindvíkinga hefur gert grein fyrir síðasta sólarhring á Facebook. Hér hafa nokkrar slíkar færslur verið teknar saman til að varpa mynd á þá atburðarás og eins þá jákvæðni sem virðist ríkja þrátt fyrir allt, ásamt þakklæti og samstöðu.

Heimilið okkar Grindavík

Ung kona sem búsett er í Grindavík greinir frá því á Facebook að síðast sólarhringur hafi verið erfiður. Það séu blendnar tilfinningar að keyra frá heimili sínu án þess að vita hvort fjölskyldan geti snúið til baka.

„Mér er efst í huga þakklæti meðal annars fyrir það að ég og mínir og allir aðrir séu öruggir og komnir í skjól frá hörmungunum sem eru að eiga sér stað í heimabænum okkar. Það voru blendar tilfinningar að keyra í burtu frá heimili sínu í gærkvöldi, vitandi ekki hvort eða hvenær við gætum snúið til baka. Heimilið okkar. Fyrsta heimili dóttur okkar. Staðurinn þar sem dóttir okkar tók fyrstu skrefin sín. Staðurinn sem að er uppspretta þúsund fallegra minninga með fjölskyldu og vinum okkar. Staðurinn sem okkur hefur alltaf liðið vel á. Staðurinn okkar.“

Þó hafi verið mikill léttir að komast undan jarðskjálftunum sem þegar hafi valdið miklum skemmdum. Fjölskyldan er komin í öruggt skjól hjá vandamönnum og vona að allt fari á besta vel.

„Ég fæ tár í augun yfir öllum fallegu skilaboðunum og fréttunum um samstöðu og aðstoð við Grindvíkinga. Þetta eru svo óraunverulegar aðstæður sem við erum allt í einu mætt í og maður bíður eiginlega eftir því að vakna upp úr þessari martröð. Grindavíkurbær, bærinn minn.“

Hörmulegar tilfinningar en samt þakklæti

Önnur kona frá Grindavík skrifar að síðasti sólarhringur hafi verið sá ótrúlegasti sem hún hafi upplifað. Flestir Grindvíkingar séu almennt hættir að kippa sér upp við einn og einn jarðskjálfta en í gær hætti þeim að standa á sama.

„Sú allra skelfilegasta hrina sem við höfum nokkurn tímann upplifað. Okkur var hætt að litast á blikuna og í miklum flýti og ótta pökkuðum við nokkrum flíkum niður, sængum, lyfjum og tannburstum á meðan jörðin skalf stanslaust án þess að stoppa. Með grátandi og óttaslegin börn brunuðum við út úr Grindavík með það í huga að við ætluðum að taka okkur eina nótt til að fá smá frið og gætum farið aftur heim í dag. Þar sem við fórum áður en allsherjar rýming átti sér stað þá vorum við alls ekki undirbúin fyrir það að mögulega myndum við aldrei snúa aftur heim til okkar. Tilfinningarnar sem fylgja þessu eru vægast sagt hörmulegar.“

Aleiga þeirra sé í Grindavík, en þeim er þó efst í huga þakklæti fyrir að vera heil á húfi. Samstaðan í samfélaginu sé ómetanlegt.

„Ég get talað fyrir hönd allra Grindvíkinga þegar ég segi, takk Ísland fyrir allan þennan samhug og hlýju í garð Grindvíkinga. Í tilfinningarússíbana vonar maður að allt fari vel að lokum og að við getum snúið aftur heim í heimabæinn okkar.“

Tómur bær og óvissan algjör

Enn einn Grindvíkingur skrifaði færslu á Facebook á leið sinni úr Grindavík um Suðurstrandaveginn í gær. Hún sagði erfitt að lýsa tilfinninguni að pakka nauðsynjum niður á meðan húsið leikur á reiðiskjálfi og börnin óttaslegin.

Víkurfréttir greina frá færslu Otta Rafns Sigmarssonar, formanni slysavarnafélagsins Landsbjargar, en hann var seinasti Grindvíkingurinn til að yfirgefa bæinn í nótt.  Allir hafi átt í hús að vernda utan Grindavíkur sem segi allt um samkennd Íslendinga á svona stundu. Eftir standi tómur bær og óvissan algjör.

Björgunarsveitarmaðurinn Guðni Oddgeirsson, segist enn vera að reyna að púsla þessu öllu saman í hausnum.

„Að rýma 3.700 manna bæjarfélag er ekki gert í gríni og að taka þátt í því sem sjálfur íbúi í bæjarfélaginu er ekki auðvelt en sem betur fer vissi ég af öllu mínu fólki og það var komið í öruggt skjól og það löngu fyrir að ákvörðun um rýmingu fór fram, ekki viss um að ég og mínir félagar í björgunarsveitinni Þorbirni, slökkviliði Grindavíkur, lögreglu og öðrum björgunarsveitum af nærsvæðinu hefðum getað tæklað þetta verkefni eins vel og var, ef við hefðum verið að hafa áhyggjur af okkar fólki líka í bæjarfélaginu.

Maður er hrærður yfir öllum kveðjum sem rignir yfir mann. Nú tekur við óvissa um óákveðinn tíma og verðum við Grindvíkingar að standa við bakið á hvort öðru og huga vel að andlegri heilsu því þó að við þekkjum öll þennan sem lætur þetta ástand ekki hafa áhrif á sig þá vitum við að dropinn holar stein.“

Hugur allra er hjá Grindvíkingum

Kristín María Birgisdóttir, upplýsinga- og markaðsfulltrúi hjá Grindavíkurbæ, trúir að allt fari vel. Hana hafi þó ekki grunað þegar hún hélt til Almannavarna í Skógarhlíð í gær, að hún gæti ekki snúið aftur heim að vinnudegi loknum.

Hún skrifar á Facebook:

„Ekki grunaði mig í morgun þegar ég lagði af stað til Reykjavíkur til að vinna í Skógarhlíðinni hjá Almannavörnum að upplýsingasíðu vegna jarðhræringa að ég myndi ekki snúa aftur heim – í bili. Ég trúi að allt fari vel. Ótrúlegur stuðningur og hlýhugur sem fólk hefur sýnt okkur á erfiðum tímum. Hugur allra er hjá Grindvíkingum. Fjölmargir hafa boðið aðstoð og húsnæði. Takk.“

Gleði í bland við skelfingu

Grindvíkingurinn Hrannar Baldursson segir á bloggi sínu að gærdagurinn hafi verið undarlegur. Hann ákvað að flýja Grindavík í gærkvöldi eftir að barnabörn hans, sem hann var að gæta, urðu óttaslegin. Nóttin var því lituð hræðslu, en á sama tíma gleði þar sem lítið barnabarn kom í heiminn.

„Gærdagurinn var súrrealískur og framhaldið er það líka. Við flúðum Grindavík um kl. 19:00 þar sem barnabörn sem við gættum voru orðnar óttaslegnar vegna jarðskjálfta, og við vildum umfram allt koma þeim í skjól. Neyðarástand var í bænum en á algjörlega persónulegum forsendum. Við keyrðum ekki rakleitt í bæinn, enda Grindavíkurvegurinn farinn í sundur, heldur ókum Suðurstrandaveginn alla leið til Hveragerðis því við vorum meðvituð um sterka jarðskjálfta í Þrengslunum og við Raufarhólshelli sem höfðu átt sér síðustu daga. Og um kl. 2 í nótt kom barnabarn í heiminn.“

Hrannar segir að það sé afar fallegt að heyra í fjölskyldu, vinum og kunningjum sem séu boðin og búin að bjóða fram aðstoð og húsnæði.  Hrannar og fjölskylda fengu skjól heima hjá foreldrum Hrannars sem segir sérstakt að vera fluttur heim, kominn yfir fimmtugt.

„Það sama hefur heyrst frá öðrum Grindvíkingum, þeim er tekið með opnum örmum víða um samfélagið. Fátt er fallegra en slík gjafmildi. Þarna þekki ég Ísland æsku minnar.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Læknir vill bólusetningar við RS veiru – „Legudeildin full af börnum með sýkinguna“

Læknir vill bólusetningar við RS veiru – „Legudeildin full af börnum með sýkinguna“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Dómur yfir manni sem varð konu sinni að bana á Akureyri veldur ólgu – „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd“

Dómur yfir manni sem varð konu sinni að bana á Akureyri veldur ólgu – „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd“
Fréttir
Í gær

Heimilt að gera fjárnám hjá Isavia

Heimilt að gera fjárnám hjá Isavia
Fréttir
Í gær

Verðbréf hrynja hjá United Health Group eftir morðið á Thompson – Hatur í garð sjúkratryggingakerfisins blossaði upp

Verðbréf hrynja hjá United Health Group eftir morðið á Thompson – Hatur í garð sjúkratryggingakerfisins blossaði upp
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg
Fréttir
Í gær

Þetta er góð táknmynd af þeim stóra vanda sem Pútín glímir við

Þetta er góð táknmynd af þeim stóra vanda sem Pútín glímir við