Karlmanni hefur verið gert að sæta þriggja mánaðar nálgunarbanni gagnvart fyrrum sambýliskonunni. Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu taldi nauðsynlegt að fara fram á nálgunarbann þar sem maðurinn hafði tekið upp á því að sitja fyrir sinni fyrrverandi með grófum hætti, áreita hana stöðugt og raska frið hennar.
Fram kemur í úrskurði að maðurinn og konan hafi verið í sambúð um árabil. Síðan slitnaði upp úr sambandinu og samskipti urðu fljótt erfið. Konan greindi frá því við lögreglu að fyrrum sambýlismaðurinn hafi byrjað að sitja um hana, njósna um ferðir hennar og komið fyrir hlerunarbúnaði á heimili hennar. Hann hafi stöðugt áreitt hana með textaskilaboðum og símtölum. Fór svo að konan leitaði til lögreglu og í september var maðurinn yfirheyrður.
Ekki virtist það þó halda aftur að áreitinu því eftir yfirheyrsluna hélt maðurinn aftur að heimili konunnar og fór að berja þar á glugga. Hann var þá handtekinn og gerði samkomulag við lögreglu þar sem hann lofaði því að halda sig frá fyrrum sambýliskonunni næstu mánuðina. Hann myndi því hvorki sitja um fyrir henni og hvorki nálgast hana né setja sig í samband með nokkrum hætti. Þessu lofaði maðurinn.
Mánuði síðar var ljóst að samkomulagið dugði ekki til. Maðurinn hafði haldið áfram að setja sig í samband við konuna. Lögreglan mat því svo að nálgunarbann væri eina ráðið. Var manninum tilkynnt að honum bæri að sæta þriggja mánaða nálgunarbanni. Hann sætti sig ekki við þau málalok og leitaði til dómstóla.
Héraðsdómur Reykjavíkur rakti að maðurinn er undir rökstuddum grun að hafa brotið gegn samkomulagi við lögregluna. Eins sé líklegt að hann haldi áreiti sínu áfram, ef ekki væri fallist á nálgunarbann.
Reyndi maðurinn að fegra hlut sinn með því að vísa til þess að hann hafi ekki áreitt sína fyrrverandi heldur sé hann að sækjast eftir því að gera upp bú þeirra. Enn eigi eftir að skipta sameiginlegum eignum á milli þeirra og líklega sé konan að notfæra sér úrræði á borð við nálgunarbann til að koma í veg fyrir að hann fái það sem honum ber.
Um þetta segir í úrskurði:
„Brotaþoli hafi gert sér far um það að hafa samband við vini og ættingja varnaraðila. Uppgjöri þeirra sé enn ólokið og varnaraðili telji að brotaþoli sé mest að sækja þetta úrræði til að hindra að það geti farið fram. Ekki hafi verið um neitt alvarlegt ofbeldi að ræða og skilyrði séu hér ekki uppfyllt og því sé þess krafist að ákvörðun lögreglustjóra sé hafnað. “
Dómari féllst ekki á þennan málflutning með vísan til gagna málsins þar sem meðal annars hafi legið fyrir samskipti mannsins við konuna. Bara sú staðreynd að maðurinn hafi komið hlerunarbúnaði fyrir á heimili konunnar gefi henni fullt tilefni til að óttast hann, enda „sérlega ófyrirleitin framkoma“.
Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms með vísan til forsenda.