fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Aldraður sjúklingur Sólveigar sagði ríkisstjórnina viðhafa samsæri gegn honum

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 9. nóvember 2023 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Bjarnadóttir læknir, formaður Félags almennra lækna og meðlimur í stjórn Læknafélags Íslands ritar pistil sem birtur er í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Þar segir hún meðal annars að hún vilji starfa í framtíðinni á Íslandi en stundum sé erfitt að taka upp hanskann fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi og standa með því. Hún greinir einnig frá því að aldraður sjúklingur hennar sem legið hafi á gangi bráðamóttöku Landspítalans, og hafði beðið eftir liðskiptaaðgerð í eitt ár, hafi sagt ríkisstjórnina viðhafa samsæri gegn sér.

Í upphafi pistilsins segir Sólveig að hún sé almennt ánægð með hafa fetað þá slóð í lífinu að verða læknir:

„Mér finnst starfið sem læknir allt í senn heillandi, skemmtilegt og gefandi. Þungamiðjan eru samskipti við fólk, bæði sjúklinga og samstarfsfólk, og það að vera sífellt að læra eitthvað nýtt. Starfið býður líka upp á ótal möguleika, til að mynda klínísk störf, rannsóknir, kennslu og stjórnun. Í einu orði sagt, spennandi!“

Hún segist þó eiga erfitt með sumar áskoranir sem fylgja læknisstarfinu hér á landi:

„Ég get til dæmis ekki sett mörk um mína vinnu eða hvað ég sinni mörgum verkefnum. Það fer allt eftir flæðinu og flæðið er duttlungafullt. Því fleiri sjúklingar, því meiri ábyrgð sem fellur okkur í fang. Mönnunin er hins vegar alltaf sú sama óháð fjölda sjúklinga.“

Sólveig segir að hún ráði ekki við sínar eigin vinnuaðstæður og umhverfi sjúklinga en skyldur hennar séu hins vegar alltaf þær sömu. Hún eigi samkvæmt lögum að veita sjúklingum sínum fullkomnustu meðferð sem völ er á en aðstæður bjóði ekki alltaf upp á það og hún greinir frá dæmi um slíkt þar sem áðurnefndur sjúklingur kemur við sögu:

„Nýlegt dæmi er háaldraði sjúklingurinn minn sem fyrir furðulegar sakir lenti í óráði verandi á ganginum á bráðamóttökunni. Hann var líka búinn að bíða í eitt ár eftir liðskiptaaðgerð. Hugmyndir hans í óráðinu sneru fyrst og fremst að því að ríkisstjórnin viðhefði samsæri gegn honum.“

Kannski ekki svo fráleitt

Sólveig segir að þegar sjúklingurinn hafi fullyrt þetta hafi verið langt liðið á næturvakt og hún of þreytt til að meta hvort um ranghugmynd hafi verið að ræða. Eftir á að hyggja sé þetta kannski ekki svo fráleit fullyrðing:

„Er ekki eitthvað til í því að biðlistar séu pólitísk ákvörðun? Kannski ekki óráð eftir allt saman.“

Sólveig er sérnámslæknir í almennum lyflækningum og segir aukna kulnun og óánægju sérnámslækna vera eina af birtingarmyndum vanda íslensks heilbrigðiskerfis sem sé djúpstæður:

„Fyrir tveimur árum sendi Félag almennra lækna frá sér könnun um starfsánægju sérnámslækna á Landspítala. Niðurstöður sýndu að 43,5% almennra lækna á Landspítala höfðu oft eða mjög oft upplifað einkenni kulnunar síðustu 12 mánuði á undan og 25% voru frekar eða mjög sammála að hafa íhugað alvarlega að fara í veikindaleyfi. Þessar tölur valda áhyggjum og fá mann til að staldra við. Af hverju leiðir þetta starf, sem getur líka veitt manni svo mikla ánægju, til kulnunar?“

Sólveig segir að hana langi að starfa á Íslandi í framtíðinni en það sé stundum erfitt að taka upp hanskann fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi og standa með því:

„Mönnun lækna er þegar orðin stór áskorun og verður ekki bara leyst með því að fjölga læknanemum heldur þarf að hlúa að þeim læknum sem eru hér við störf og gera störfin aðlaðandi.“

Hún segir að miklar vonir séu bundnar við starfshóp innan heilbrigðisráðuneytisins, sem Læknafélagið hefur aðkomu að, sem eigi að fjalla um mönnun læknisþjónustu og skila fyrstu tillögum fyrir áramót. Sólveig segir einnig að Landspítalinn hafi verið að vinna að því að innleiða starfsáætlanir fyrir sérfræðilækna til að tryggja að þeir geti nýtt  þekkingu sína til fulls og fái um leið svigrúm til að sinna öllum þáttum starfsins. Læknafélagið bindi miklar vonir við þessa vinnu en meira þurfi til:

„Setja þarf mörk um álag, skilgreina betur störf lækna, skapa viðunandi starfsaðstæður, huga að styttingu vinnuvikunnar og öðrum umbótum, og ég hef fulla trú á að það sé hægt!“

Pistil Sólveigar í heild sinni er hægt að lesa hér.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí