Maður á þrítugsaldri, frá Egilsstöðum, er sakaður um manndrápstilraun og sérstaklega hættulega líkamsárás vegna atviks sem átti sér stað á nýársnótt 2022.
Í ákæru héraðssaksóknara er lýst árásum mannsins með hníf innandyra í húsnæði við Faxafen. Vegna árásar á annan manninn er ákært fyrir tilraun til manndráps, en í ákæru segir:
„Tilraun til manndráps, með því að hafa veist að V, kt. , og ítrekað lagt til hans með hnífi í búk og útlimi, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut sár vinstra megin á brjóstholi sem náði inn að millirifjavöðvum, sár hægra megin á kvið sem fór inn í kviðarhol með útbungandi kviðarholsinnihaldi, 4 cm langt skurðsár yfir réttihaft hægri úlnliðar með skurðáverka á réttisinar 2., 3., 4. og 5. fingurs, á minni bláæðar og á handarbaksgrein ölnartaugar og tvö sár á aftanvert hægra læri.“
Hinn ákærði réðst á annan mann með hnífi og skilgreinir héraðssaksóknari þann verknað sem sérstaklega hætulega líkamsárás:
„Sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa veist að E, kt. , og ítrekað lagt til hans með hnífi í búk og útlim, með þeim afleiðingum að hann hlaut sár hægra megin á brjósti, sár vinstra megin á kvið og á innanverðum hægri upphandlegg sem í báðum tilfellum fóru í gegnum húð og undirhúðarvef, sár hægra megin á brjósti og tvö skurðsár vinstra megin á kvið.“
Maðurinn sem varð fyrir manndrápstilrauninni krefst fjögurra milljóna króna í miskabætur en hinn maðurinn krefst 3,5 milljóna.
Réttað verður í málinu við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 23. nóvember.