fbpx
Miðvikudagur 14.maí 2025
Fréttir

Vilhjálmur tekur Brynjar til bæna og er ekki hlátur í huga eftir nýjustu færslu hans

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 2. nóvember 2023 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hef nú yfirleitt gaman af þínum færslum en í ljósi þess hversu alvarlegt þetta mál er þá er mér bara alls ekki hlátur í huga,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, í athugasemd við færslu Brynjars Níelssonar, fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á Facebook.

Brynjar skaut föstum skotum að Vilhjálmi í færslu sinni í gærkvöldi en þar gerði hann ályktun sem Starfsgreinasambandið samþykkti á dögunum að umtalsefni. Vill sambandið að óháðir erlendir aðilar verði fengnir til að skoða kosti og galla íslensku krónunnar sem og kosti þess að taka upp annan gjaldmiðil. DV fjallaði um málið í gærmorgun.

Í færslu sinni sagði Brynjar meðal annars:

„Vil bara segja við Villa Birgis, vin minn, að það eru til margar skýrslur um kosti og galla krónunnar og að taka upp annan gjaldmiðil. Þarf enga rándýra erlenda sérfræðinga til þess. Svo er ekkert því til fyrirstöðu að stéttarfélögin kaupi sjálf þessa sérfræðinga að utan. Nóg er til í sjóðum þeirra.“

Hann bætti svo við að sjálfur hafi hann alltaf verið opinn fyrir því að taka upp traustan gjaldmiðil.

„Hins vegar er ekkert vit í því nema til forystu í stéttarfélögum veljist menn sem geri sér grein fyrir því að horfa verði á efnahagslegan veruleika þegar þvinga á fram launahækkanir í stað þess að vísa til heimatilbúins réttlætis. Það ætti að vera einfaldara að skipta um forystu en að skipta um heila í þeim sem fyrir eru.“

Lágmarkskrafa að kynna sér málin

Vilhjálmur svaraði fyrir sig í löngu máli í athugasemdakerfinu og skaut á Brynjar og samflokksmenn hans í Sjálfstæðisflokknum.

„Ég held Brynjar minn að flokkurinn þinn þurfi að fara að vinna eftir gildum sínum, gildum sem byggja á „stétt með stétt“. Því miður virðist flokksforysta xD hafa breytt þessum gildum í „yfirstétt með yfirstétt“. Ég held að það sé lágmarkskrafa að þið stjórnmálamenn kynnið ykkur málin mun betur og látið ekki öskur úr öllum áttum um að verðbólga á Íslandi sé íslensku launafólki um að kenna.“

Vilhjálmur sagði það svo vera lágmark, í fyrsta lagi, að mæla neysluvísitöluna eins og þær þjóðir sem við berum okkur saman við.

„Enda liggur fyrir að frá árinu 2014 til dagsins í dag er uppundir 40% af verðbólgunni á Íslandi vegna svokallaðar reiknaðar húsleigu sem saman stendur af verðtryggðum vöxtum og hækkun á fasteignaverði. Bara í síðasta mánuði hækkaði verðbólgan um 0,60% milli mánaða og reiknuð húsleiga átti 0,38% af þeirri hækkun sem er 63% af heildarhækkun á neysluvísitölunni. Frá aldamótum til 2022 er meðaltals samræmda neysluvísitalan (HICP) 2,5% þegar þrjú ár í kringum hrunið er takið frá. Hvernig stendur á því að flokkurinn þinn sem hefur verið við stjórnartaumana mjög lengi hafi ekkert gert í þessu? Þrátt fyrir að margoft sé búið að benda ykkur á þessa staðreynd. Koma svo með einhverja „aulabrandara“ um verkalýðshreyfinguna er í besta falli grátbroslegt í ljósi þess að málið er grafalvarlegt.“

Vilhjálmur hélt svo áfram:

„Taktu eftir Brynjar uppundir 40% af verðbólgunni hér á landi er vegna reiknaðar húsleigu. Hugsaðu þér ef hægt væri að benda á verkalýðshreyfinguna með staðfestum gögnum og segja: „Þið berið ábyrgð á 40% af verðbólgunni“. Nei en við getum bent á ykkur og sagt: „Þið hafið með aðgerðaleysi ykkar verið með lið í vísitölunni sem ekki er mældur í öðrum löndum sem ber ábyrgð á 40% af verðbólgunni“.“

Yfirleitt haft gaman að en ekki núna

Vilhjálmur benti Brynjari svo á að Samtök atvinnulífsins hafi sagt að eitt prósent vaxtahækkun kosti atvinnulífið 30 milljarða. Frá 3. desember í fyrra, þegar skrifað var undir nýjan kjarasamning, hafi stýrivaxtahækkanir Seðlabankans leitt til þess að vextir hafa hækkað um 3,5%.

„Það þýðir að atvinnulífið hefur þurft að þola 105 milljarða aukningu á vaxtabyrði. En hvað kostuðu kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði? Jú þeir kostuðu 74 milljarða sem er 31 milljarði minna en vaxtahækkanir hafa kostað fyrirtækin. Samt öskrið þið og Seðlabankinn á verkalýðshreyfinguna og launafólk þrátt fyrir að vaxtahækkanir hafi kostað fyrirtækin á Íslandi 31 milljarði en kjarasamningar kostuðu,“ segir hann og bendir á að þessi aukning á vaxtabyrði fyrirtækja geri ekkert annað en að fara beint úr í verðlagið sem lendir aftur á neytendum og ýtir undir hækkun á verðbólgunni. Þá minnir hann á að skatta- og gjaldskrárhækkanir ríkisstjórnarinnar um síðustu áramót eigi sinn þátt í sökinni.

„Varðandi krónuna þá er ótrúlegt að sjá og verða vitni að sérhagsmunaöfl leggjast gegn því að fá virta erlenda óháða aðila til kanna kosti og galla íslensku krónunnar og kosti og galla þess að taka upp nýjan gjaldmiðil og þar verði allt undir! Hver getur verið á móti því? Ég hef nú yfirleitt gaman af þínum færslum en í ljósi þess hversu alvarlegt þetta mál er þá er mér bara alls ekki hlátur í huga.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Edda minnist Lalla Johns – „Lalli var alltaf blíðan uppmáluð, brosandi gleðigjafi og góður við allt og alla“

Edda minnist Lalla Johns – „Lalli var alltaf blíðan uppmáluð, brosandi gleðigjafi og góður við allt og alla“
Fréttir
Í gær

Uggandi yfir uppsögnum: „Þjóðminjasafn án fornleifafræðinga“

Uggandi yfir uppsögnum: „Þjóðminjasafn án fornleifafræðinga“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kom fyrir myndavélum á klósetti Airbnb íbúðar sinnar – Vildi bera getnaðarlimi gestanna saman við sinn

Kom fyrir myndavélum á klósetti Airbnb íbúðar sinnar – Vildi bera getnaðarlimi gestanna saman við sinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sólveig Anna lætur „megins-straums femínista“ heyra það – Vinsælt áhugamál kvenna sem hafi náð jafnrétti

Sólveig Anna lætur „megins-straums femínista“ heyra það – Vinsælt áhugamál kvenna sem hafi náð jafnrétti