Þann 12. október var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness mál sem Héraðssaksóknari hefur höfðað gegn manni sem ákærður er fyrir hegningalaga- og barnaverndarlagabrot.
Ákæran er í þremur liðum og er maðurinn í fyrsta lagi sakaður um kynferðislega áreitni gegn barni með því að hafa brotið gegn 14 ára stúlku sem var gestkomandi á heimili hans. Er hann sagður hafa strokið henni ítrekað utan og innan klæða á brjóstum, snert rass hennar ítrekað utan og innan klæða, snert ítrekað kynfærasvæði hennar utan klæða og snert í eitt skipti ofan við kynfærasvæði hennar innan klæða, ítrekað slegið á rass hennar og klipið í hann.
Í öðru lagi er maðurinn sakaður um að hafa viðhaft kynferðislegt tal við stúlkuna og þannig sært blygðunarsemi hennar. Einnig hafi hann sýnt henni ósiðlegt athæfi með því að segja við hana að hann vildi að hún gæti gist svo hann gæti tekið hana inn í herbergi til sín. Enn fremur hafi hann nefnt að hún væri með flottan rass, hún væri með falleg augu; og hafi hann einnig strokið hár hennar.
Í þriðja lagi er maðurinn sakaður um brot á barnaverndarlögum með því að hafa hvatt stúlkuna til fíkniefnaneyslu með því að bjóða henni kannabis og síðan látið hana hafa það.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fyrir hönd stúlkunnar er krafist 2,5 milljóna króna í miskabætur.