fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Sjálfstæðismenn vilja að MMA og aðrar sambærilegar íþróttir verði leyfisskyldar

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 12. október 2023 12:00

Myndin tengist efni frétttarinnar ekki beint/Wikimedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ásamt nokkrum öðrum þingmönnum flokksins lagt fram frumvarp til laga um að óheimilt verði að stunda eða skipuleggja keppnisleiki í bardagaíþróttum sem gera þátttakendum kleift að slá viljandi í höfuð andstæðingsins með höggi, spyrnu eða öðru afli án opinbers leyfis.

Undir þetta myndu þá væntanlega falla blandaðar bardagaíþróttir (MMA) og aðrar íþróttir sem fela meðal annars í sér höfuðhögg.

Samkvæmt frumvarpinu yrði slíkt leyfi aðeins veitt ef reglur íþróttarinnar tryggja keppendum viðunandi öryggi.

Ráðherra sem fari með íþróttamál skuli veita leyfið samkvæmt ákvæðum laganna.

Umsókn um leyfi skuli vera skrifleg og berast eigi síðar en tveimur mánuðum áður en bardagaíþróttaleikur hefst.

Í umsókn um leyfi til að skipuleggja einn eða fleiri bardagaíþróttaleiki skulu koma fram upplýsingar um skipuleggjanda viðburðarins, hvenær og hvar mót eða leikur er haldinn, svo og keppnis- og öryggisreglur bardagaíþróttarinnar.

Í umsókn um leyfi til að skipuleggja bardagaíþróttir í ákveðinn tíma skuli koma fram upplýsingar um keppnis- og öryggisreglur bardagaíþróttarinnar sem og upplýsingar um hvernig eftirliti er háttað innan íþróttarinnar. Einungis samtök eða félög sem hafi það að markmiði að efla ástundun og keppni í bardagaíþróttum geti hlotið leyfi til skipulagningar bardagakeppni í ákveðinn tíma. Við fyrstu umsókn um leyfi skuli einnig fylgja samþykktir fyrir þau samtök eða félag sem sækir um leyfið.

Leyfisveitandi skuli hafa eftirlit með bardagaíþróttaleikjum sem haldnir eru á grundvelli laganna. Ráðherra geti sett reglugerð með nánari ákvæðum m.a. öryggisráðstafanir í húsnæði sem hýsir bardagaíþróttaleiki.

Aðili sem af ásetningi eða gáleysi skipuleggi bardagaíþróttaleik í trási við ákvæði laganna skuli sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef um stórfellt brot er að ræða. Sá sem af ásetningi eða gáleysi taki þátt í bardagaíþróttaleik sem haldinn er án leyfis samkvæmt lögunum skuli sæta sektum. Hið sama á við um þann sem styrki leikinn eða útvegi honum húsnæði, í starfi umboðsmanns keppanda geri samning um leikinn eða stuðli að gerð slíks samnings eða dæmi slíkan viðburð.

Lög sem banna hnefaleika falli úr gildi og ákvæðum hegningarlaga verði breytt með þeim hætti að ekki verði refsað fyrir líkamsárás sem framin í keppnisleik í bardagaíþrótt sem hlotið hafi leyfi samkvæmt lögunum.

Grundvallarmunur sé á bardagaíþróttum og öðrum tegundum íþrótta

Í greinargerð með frumvarpinu segir að óumdeilt sé að grundvallarmunur sé til staðar á bardagaíþróttum sem frumvarpið taki til og öðrum tegundum íþrótta, enda hafi þær bardagaíþróttir sem falli undir gildissvið frumvarpsins, til að mynda hnefaleikar og blandaðar bardagaíþróttir, þann tilgang og markmið að keppendur veiti hver öðrum högg eða spörk, meðal annars í höfuð. Af því leiði að umræddar íþróttir séu hættulegri en hefðbundnar íþróttagreinar sem ekki hafi slíkan tilgang. Aftur á móti sé það ekki svo að aðrar íþróttagreinar séu hættulausar, enda geti alvarleg slys eða dauðsföll átt sér stað í fjölda íþrótta.

Það eitt að þau högg eða spörk sem valdið geti meiðslum við iðkun bardagaíþrótta séu framkvæmd af ásetningi séu ekki haldbær rök fyrir því að banna skuli bardagaíþróttir. Fyrir slasaðan íþróttamann breyti engu hvort meiðslunum hafi verið valdið af ásetningi andstæðingsins eða ekki, hinir líkamlegu áverkar séu þeir sömu óháð huglægri afstöðu andstæðingsins. Eigi að síður sé rétt að líta til sérstöðu bardagaíþrótta við lögleiðingu þeirra. Því sé í frumvarpinu lagt til að öll keppni þar sem þátttakendum sé gert kleift að sparka eða slá í höfuð andstæðingsins verði háð leyfi hins opinbera.

Ekki sé um það deilt að heilsutjón geti hlotist af iðkun bardagaíþrótta, en það eitt og sér réttlætir ekki skerðingu á frelsi einstaklingsins til þess að iðka þá íþrótt sem honum hugnast. Jafnframt ber að hafa í huga að í banni við bardagaíþróttum felist einnig skerðing á atvinnufrelsi fólks sem sé varið í stjórnarskrá. Óheimilt sé að takmarka það frelsi nema með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Í ljósi þess að flest vestræn ríki heimili þær bardagaíþróttir sem frumvarpið taki til sé vandséð að almannahagsmunir á Íslandi krefjist þess að þær séu bannaðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“