Reykjavíkurborg mistókst að snúa við dómi Landsréttar þar sem hún hafði verið gerð skaðabótaskyld gagnvart starfsmanni sem kaus að skokka heim úr vinnunni og varð fyrir bíl á leiðinni.
Maðurinn hafði gert svokallaðan samgöngusamning við Reykjavíkurborg um að hann mundi ferðast á vistvænan hátt til og frá vinnu. Kaus maðurinn að ganga í vinnuna en skokka heim úr henni. Fór hann 9 km leið heim til sín en í einni heimferðinni varð hann fyrir bíl við gangbraut við Ánanaust.
Maðurinn taldi borgina skaðabótaskylda við sig vegna slyssins. Reykjavíkurborg taldi sig ekki bera ábyrgð á slysinu, þrátt fyrir að maðurinn væri á heimleið og notaðist við fararmáta sem var í samræmi við samning hans við borgina. Bar borgin við að maðurinn hefði farið óeðlilega langa leið heim til sín.
Héraðsdómur var sammála borginni á sínum tíma en maðurinn áfrýjaði þeim dómi til Landsréttar. Landsréttur sneri dómi héraðsdóms við og dæmdi borgina til að greiða manninum 5,7 milljónir í bætur.
Borgin sótti um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar og var það veitt á grundvelli þess að málið væri fordæmisgefandi. Hæstiréttur staðfesti dóm Landsréttar og auk 5,7 milljónanna þarf borgin að greiða starfsmanninum eina milljón króna í áfrýjunarkostnað.
Tveir dómara við Hæstarétt skiluðu þó sératkvæði og vildu snúa dómi Landsréttar við. En þrír dómarara vildu staðfesta niðurstöðu Landsréttar og vann maðurinn því málið naumlega fyrir Hæstarétti.
Dóm Hæstaréttar má sjá hér.