fbpx
Fimmtudagur 02.maí 2024
Fréttir

Segja frændur sína koma í veg fyrir uppbyggingu og framkvæmdir í Laxárdal í hatrömmum ættardeilum – „Þetta eru menn sem víla ekkert fyrir sér“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 3. september 2023 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hegðun Daða Einarssonar er að koma í veg fyrir uppbyggingu í Laxárdal,“ segja systurnar þrjár í nýjasta þætti hlaðvarpsins Lömbin þagna ekki.

Hatrammar fjölskylduerjur hafa lengi átt sér stað í Dalabyggð, en málið tengist inn í stjórnarráðið þar sem um er að ræða fjölskyldu Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra. Ljósi er varpað á eina hlið þessa erfiða deilumáls í hlaðvarpi sem þrjár systur, sem tengjast Ásmundi Einari ættarböndum, hafa farið af stað með. Hlaðvarpið kallast Lömbin þagna ekki og þar segjast systurnar svipta hulunni af 15 ára ættardeilum ráðherra sem meðal annars feli í sér ofsóknir, skemmdarverk, innbrot og andlegt ofbeldi.

„Í þessum þætti ætlum við að fjalla um vegi og vindmyllur, og tala um hvernig hegðun Daða, föður Ásmundar Einars, er að koma í veg fyrir uppbyggingu og framkvæmdir í Laxárdal. Og fjalla líka um grunsamlegan vindmyllugarð sem er á deiliskipulagi á landi í eigu Daða,“ segja systurnar um sjötta þáttinn sem kom út í dag.

Málið er stærra og verra

Systurnar þrjár segjast hafa fengið mörg símtöl þar sem fólk hefur sagt eigin reynslusögur af mjög óeðlilegum samskiptum við Ásmund Einar, Daða og lögregluna á Vesturlandi. Segja þær málið stærra og miklu verra en þær héldu. 

„Meðal annars var ein manneskja sem hafði samband vegna þess að hún heyrði okkur tala um ófrægingaherferðina sem Ásmundur Einar, Daði, Valdimar og Bjarki höfðu farið gegn okkur. Í símtalinu kom fram að þessi manneskja hafði séð með eigin augum svipaðar herferðir frá Ásmundi Einari, í allt öðru máli sem tengist fjölskyldunni okkar ekki neitt.“

Svar við yfirlýsingu lögreglunnar á Vesturlandi

Í byrjun þáttarins ræða systurnar um yfirlýsingu frá lögreglunni á Vesturlandi „sem hélt því fram að stundum væri ekki hægt að sinna öllum málum vegna anna, og þess vegna hefði hún ekki getað komið á staðinn þegar vatnsveitan var eyðilögð. Þetta er einfaldlega rangt. Þegar þessar eyðileggingar áttu sér stað var okkur sagt mjög skýrum orðum að lögreglan kæmi bara alls ekki og það væri á hreinu. Aldrei var minnst á að ekki hægt væri að sinna þessu vegna anna eða annað slíkt. Við ítrekum að þessar eyðileggingar tóku marga klukkutíma, svo að þó að lögreglan hefði ekki getað komið fyrr en eftir 2-3 klukkutíma hefði samt verið hægt að koma í veg fyrir skemmdarverk,“ segja systurnar og segja þær spurningunni ósvarað af hverju lögreglan mætti ekki á staðinn.

Daði stoppar vegbætur í Laxárdal

Í þættinum segja systurnar frá því að Daði og Valdimar hafa slegið eitt Lambeyratúnið (eitt af fáu sem ekki var eyðilagt) í leyfisleysi. Segja þær að lítið sem ekkert sé hægt að gera við þessum þjófnaði. 

„Því miður geta þeir ekki slegið og hirt hey af öðrum túnum Lambeyra þar sem þau voru eyðilögð í fyrra og ónothæf í því ástandi sem þau eru í dag. Ein af ástæðunum að túnin hafa ekki verið endurnýjuð eða löguð er að þá eiga þau á mjög mikilli hættu á því að vera eyðilögð aftur,“ segja systurnar.

„Við tölum um að þegar komið er að ánni Hólkotsá, þar sem má sjá skemmtilegan foss frá veginum, að þegar farið er yfir brúna þá allt í einu hættir bundna slitlagið og malarvegur tekur við. Ástæðan fyrir malarveginum og skorti á bundnu slitlagi er ekki Vegagerðinni að kenna og heldur ekki eigendum Lambeyra því eigendur Lambeyra styðja framfarir í dalnum. Á öllu séreignalandi Lambeyra er bundið slitlag en þar sem Daði er einn landeiganda þar er malarvegur, það er bæði á Dönustaðalandi og Sólheimalandi, sem er fremst í dalnum.

Ástæðan fyrir því að ekki var bundið slitlag alla leið og stoppað við Hólkotsá er ástæða sem hlustendur geta líklega ekki giskað á. En sagan í sveitinni er að Daði banni umbætur á vegi, vegna þess að hann er svo reiður yfir því að Vegagerðin átti í viðskiptum við Lambeyra. Vegagerðin samdi um nýtingu á malarnámu í landi Lambeyra, og borgaði eigendum Lambeyra fyrir það, eins og búast má við. Þetta er Daði mjög ósáttur með, þar sem hann vill fá borgað fyrir vegagerðarefni sem er ekki í hans landi heldur í landi Lambeyra. Í reiði sinni stendur hann þannig í vegi fyrir vegbótum. Við leggjum áherslu á að viðskiptunum við Vegagerðina er lokið, náman er fullnýtt og greiðslur hafa þegar farið fram. Daði getur þannig ekki komið í veg fyrir framtíðarviðskipti með þessum aðgerðum sínum.“

Systurnar segja að það hafi tekið töluverðan tíma að fá borgað fyrir mölina, þar sem Daði hafi haldið því statt og stöðugt fram að hann ætti landið sem mölin væri á og að hann væri réttmætur eigandi. Eftir að Vegagerðin hafi rannsakað málið og skoðað þinglýst gögn hafi hún komist að því að Lambeyrar ættu landið og þar með mölina og borgaði eigendum Lambeyra fyrir viðskiptin. Segja systurnar að sjá megi mjög skýrt að bundna slitlagið hættir þegar land Dönustaða byrjar, við Hólkotsá. Núna í sumar hafa einnig byrjað vegaframkvæmdir hinum megin frá, það er Hrútafjarðamegin, og haldi þær vegaframkvæmdir áfram og stoppi akkúrat við landamerki Sólheima. 

„Það er því ljóst að eigendur Dönustaða og Sólheima standa í vegi fyrir framkvæmdunum á sínu landi. Við ítrekum að Daði á minna en 3% í Dönustöðum. Það er því aðeins með fullum stuðningi Dönustaðafólksins, og sér í lagi fyrirsvarsmannsins, Böðvars Bjarka Péturssonar, að hann getur staðið gegn vegbótum með þessum hætti. Það er ennþá stór spurning af hverju þetta fólk – sem býr flest á höfuðborgarsvæðinu – styður Daða með þessum hætti gegn vegbótum í Laxárdal. Skyldu þau almennt vera á móti bundnu slitlagi úti á landi? Eða skyldi stuðningur við ráðherra og föður ráðherra vera þeim svona mikils virði?“

Daði slítur samninga og gengur gegn hagsmunum Laxár

Systurnar segja annað dæmi sýna hvernig Daði stöðvi uppbyggingu í dalnum tengjast Laxánni í Laxárdal. „Stundum er lítið í ánni og á viðkvæmum tímum má ekki vera of lítið vatn í ánni því þá á laxinn erfitt með að ganga upp í ána. En leigutaki árinnar, hann gerði samning við Daða um að hann myndi safna vatni saman og þegar á þyrfti að halda þá myndi hann hleypa vatni í ána. Slíkt samkomulag hafði verið til staðar við eigendur Sólheima áður en Ásmundur Einar, og síðar Daði keyptu jörðina, án nokkurra vandræða,“ segja systurnar. Hefð sé fyrir því að hleypa vatni í ána, allir í dalnum græði á því að veiði sé sem best.

„En þegar kemur að því að hleypa þurfi vatni í ánna þá slítur Daði samninga og segir: “Nei”. Ástæðan er sú að Lambeyrar eiga part í ánni og fá greitt samkvæmt arðskrá, síðan 1958. Nema allt í einu núna er Daði svo brjálaður að Veiðifélagið sé að borga Lambeyrum einhvern pening að hann neitar að bæta vatni í ána. Hann neitar því að hleypa vatni í ánna til þess að reyna að þvinga Veiðifélagið til þess að stöðva arðgreiðslur til eigenda Lambeyra. Það fáránlegasta í þessu öllu er að leigutakinn sem samdi við Daða ræður engu um arðgreiðslur Veiðifélagsins. En heiftin er slík að Daði gerir allt til þess að stöðva arðgreiðslur til réttmætra eigenda, þrátt fyrir að það valdi öllum í dalnum skaða.“

Systurnar segja að það virðist því ekki vera nóg fyrir Daða að nánast öll túnin á Lambeyralandi séu skemmd og ónothæf og að hann hafi með ógnunum náð að koma í veg fyrir að þær geti leigt húsið út. 

„Alltaf leitar hann leiða til þess að eyðileggja meira fyrir eigendum Lambeyra. Sem er mjög undarlegt í ljósi þess að það var hann sjálfur, með aðstoð sonar síns, Ásmundar Einars, sem kom jörðinni í þrot.“

Vindmyllugarður og pólitísk nálykt

Systurnar benda á að á svæðinu eru hafernir sem eru í mikilli útrýmingarhættu. Í Sólheimalandi og þar í kring, sé mjög öflugt Himbrimavarp, eitt það sterkasta í Evrópu, og því hafi verið rætt um að koma á fuglafriðun á þessu svæði.

„Þrátt fyrir það má sjá á deiluskipulagi að það er búið að plana vindmyllugarð í Sólheimalandi. Það vekur athygli að Ásmundur Einar og kona hans Sunna keyptu fyrst Sólheimalandið, en nú er búið að færa það yfir á föður ráðherra, Daða, og föðurbróðir, Valdimar. Daði og Valdimar eru menn sem víla ekkert fyrir sér. Ef þeir fá ekki það sem þeir vilja þá fremja þeir skemmdarverk, beita ógnunum, áreiti, og svíkja samninga og þeir gera bara það sem þeir vilja. Þar að auki hefur Daði komið fjölmörgum eignarfélögum á hausinn eftir að hafa straujað þau að innan,“ segja systurnar. 

Systurnar þrjár velta því fyrir sér hvort að þetta séu bestu mennirnir á Íslandi til þess að vera í viðskiptum við, jafnvel upp á milljarða fjárfestingar.

„Eða er það hugsanlegt að það sé tengsl þarna á milli að þetta sé faðir ráðherra og hversu skuggalega fljótt hafi skipulagi verið breytt til að rýma fyrir vindmyllugarði,“ segja systurnar og segja þær alls ekki þær einu sem finnst grunsamlegt hvernig þessi vindmyllugarður var samþykktur, og fjallað hefur verið um þetta á mörgum fréttamiðlum og vísa þær meðal annars í frétt Heimildarinnar.

Systurnar velta fyrir sér hvernig Ásmundur Einar og Daði sem hefur orðið gjaldþrota fjórum sinnum að þeirra sögn virðast stöðugt hafa óheft aðgengi að lánsfé, sem sé sjaldnast borgað til baka. Segja þær að nú sé búið að flytja Sólheimabúið yfir á Daða, og því er Ásmundur Einar alveg „ótengdur“ þessu máli, þrátt fyrir að vera einkaerfingi föður síns. Systurnar þrjár segjast giska á hvað hann muni segja:

„Ég tók einarða afstöðu með vindmöllum í byrjun, en í mörg ár hef ég ekki komið nálægt vindmyllum. Núna í dag eru þessar vindmyllur mér við öllu óviðkomandi.”

Systurnar segjast gefa Ásmundi Einari fullt leyfi til að nota þessa yfirlýsingu sér að kostnaðarlausu, og spara sér þar með kostnað við almannatengil.

Dönustaðafólkið dreymir um vindmyllur

Segja systurnar að það sem hafi áhrif á þeirra ættardeilu sé að Dönustaðafólkið virðist alveg fullkomlega sannfært um það að það verði líka reistur vindmyllugarður á Dönustaðalandi. „Hvaðan sú sannfæring kemur skal ekki segja, en systurnar þrár eru sannfærðar um að Dönustaðafólkið haldi að það skaði nú ekki að hafa ráðherra innan fjölskyldunnar,“ og vísa til fundar sem haldinn var eftir átakafundinn 28. febrúar, sem fjallað var um í fimmta þætti hlaðvarpsins.

„Þá var Dönustaðafólkið allt í einu einstaklega almennilegt við eigendur Lambeyra. Á fundinum þar á undan hafði Dönustaðafólkið reynt að ákveða einhliða hvernig landamerki Lambeyra og Dönustaða ættu að vera, ásamt því að styðja að fullu Daða og Valdimar og þeirra stórfelldu skemmdarverk á Lambeyrum undanfarin ár. Þessi almennilegheit þóttu þess vegna frekar grunsamleg, og fljótt kom sannleikurinn í ljós. Dönustaðafólkið ítrekaði á fundinum hversu mikilvægt væri að allir eigendur Dönustaða sýndu samheldni og myndu semja saman við fyrirtækið sem sér um Vindmyllugarðana. Það væri því afar mikilvægt að eigendur Lambeyra myndu veita fullt umboð til samninga fyrir þeirra hönd. Eðli málsins samkvæmt var þvi neitað. Trú systranna þriggja er sú að Dönustaðafólkið sé sannfært um að það geti orðið ríkt á því að styðja Daða og Valdimar, og er þetta fólk er því tilbúið að styðja þessa menn fram í rauðan dauðann til þess að svo geti orðið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Leyniskjöl sögð staðfesta skelfilegan dauðdaga íranskrar táningsstúlku sem mótmælti reglum um klæðaburð

Leyniskjöl sögð staðfesta skelfilegan dauðdaga íranskrar táningsstúlku sem mótmælti reglum um klæðaburð
Fréttir
Í gær

Vægur dómur fyrir ofbeldi í nánu sambandi

Vægur dómur fyrir ofbeldi í nánu sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segja samdrátt vera staðreynd í rússneska hagkerfinu

Segja samdrátt vera staðreynd í rússneska hagkerfinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Er þetta versta stefnumót sögunnar? Frábært kvöld þar til hún þurfti að fara á klósettið

Er þetta versta stefnumót sögunnar? Frábært kvöld þar til hún þurfti að fara á klósettið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bresku Rúanda-lögin koma illa niður á Írum – Setja neyðarlög

Bresku Rúanda-lögin koma illa niður á Írum – Setja neyðarlög
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þarf að sitja af sér fangelsisdóm í Noregi eftir afbrot á Ásbrú

Þarf að sitja af sér fangelsisdóm í Noregi eftir afbrot á Ásbrú