Á næstunni hefst tilraunaverkefni á Kópaskeri þar sem bréfapóstur verður borinn út í póstbox.
Kópasker er fyrsti staðurinn á Íslandi þar sem þetta er gert. Verkefnið var unnið í samstarfi við sveitarfélagið og verður einungis ráðist í það á Kópaskeri til að byrja með.
„Við höfum fengið jákvæð viðbrögð frá íbúum staðarins og byrjum á dreifingunni í júlí,“ segir Kjartan Flosason, forstöðumaður pósthúsa.
Bréfum er dreift tvisvar í viku þó að bréfasendingum hafi fækkað verulega, eða um 80% síðan árið 2010.
„Við settum upp póstbox á Kópaskeri síðasta haust sem hefur afkastagetu til að afhenda bæði pakka og bréf á staðnum. Við teljum að skynsamlegra sé að sameina dreifikerfi bréfa og pakka í minni þéttbýliskjörnum með því að nýta póstboxin sem alhliða dreifileið. Við höfum undirbúið þetta verkefni vel í samstarfi við sveitarfélagið svo vonandi fer þetta vel af stað,“ segir Kjartan enn fremur.
Á næstu dögum mun hvert heimili fá skráningarblað í pósti. Nöfn allra íbúa heimilisins eru skráð á blaðið og því skilað í póstkassann við Skerjakollu. Miðað er við að einn aðili á hverju heimili sé skráður sem tengiliður fyrir móttöku á almennum bréfasendingum.
Þegar póstur berst í hólfið
Send eru SMS-skilaboð eða tölvupóstur þegar bréf berst í póstboxið. Viðtakandi hefur þrjá daga til að sækja póstinn en eftir það sækir pósturinn hann og geymir á pósthúsinu á Húsavík. Þá getur viðtakandi haft samband og óskað eftir því að fá póstinn aftur í póstboxið.
„Það verður gaman að fylgjast með því hvernig til tekst. Við viljum koma á framfæri þökkum til íbúanna fyrir að taka þátt í þessu framsækna tilraunaverkefni. Ef einhverjar spurningar vakna verðum við íbúum Kópaskers innan handar. Rúnar Traustason, rekstrarstjóri Póstsins á Húsavík, verður í Skerjakollu miðvikudaginn 5. júlí, milli kl. 16 og 18, og hann mun aðstoða og útskýra ef með þarf. Annars svarar þjónustuverið spurningum alla virka daga og spjallmennið Njáll á posturinn.is veit sínu viti. Ef þetta verkefni gengur vel þá er ekki ólíklegt að þessi lausn verði innleidd víðar í smærri þéttbýliskjörnum,“ segir Kjartan.