fbpx
Fimmtudagur 02.maí 2024
Fréttir

Heyrnarlaus kona stefnir RÚV – Sigurlín var sagt upp eftir 36 ára starf

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 5. apríl 2023 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur mál sem Sigurlín Margrét Sigurðardóttir hefur höfðað gegn Ríkisútvarpinu ohf. (RÚV). Sigurlín, sem starfaði hjá RÚV frá 1985 til 2021 við flutning táknmálsfrétta,  vill fá staðfest með dómi að vinnusamband hennar við RÚV hafi í raun verið launþegasamband en ekki verktakavinna, eins og RÚV skilgreindi fyrirkomulagið.

Sigurlín féllst á að afhenda DV stefnuna í málinu en vildi ekki tjá sig um það að öðru leyti en því að hún stæði við það sem í stefnunni stendur. Þar kemur fram að í upphafi ferils Sigurlínar hjá sjónvarpi allra landsmanna hafi ekki verið gerður skriflegur samningur en hún hafi starfað samkvæmt vaktaplani sem RÚV ákvað og fengið tímakaup sem skiptist í dagvinnu og yfirvinnu. Laun hafi hækkað í samræmi við almenna kjarasamninga og launavísitölu.

„Í öndverðu leit stefnandi svo á að hún hefði verið ráðin sem launþegi enda hafði hún óskað eftir því og bar starfið öll merki þess réttarsambands. Þrátt fyrir það var henni gert að skila reikningum fyrir vinnu sinni,“ segir í stefnunni.

Samningur kom eftir 23 ár

Í stefnunni er það ennfremur rakið að skriflegur samningur hafi verið gerður við Sigurlín 1. ágúst árið 2008, eftir að hún hafði starfað hjá RÚV í 23 ár. Samningurinn gilti til 31. júlí 2009. Samningurinn var nefndur Verksamningur og segir þar að stefnandi taki að sér að vera verktaki. Ennfremur að samningurinn framlengist um sex mánuði í senn ef honum er ekki sagt upp með eins mánaðar fyrirvara.

Sagt upp þegar nýtt fyrirkomulag var tekið upp

Nýtt fyrirkomulag við þjónustu RÚV við heyrnarskerta og heyrnarlausa tók gildi 1. september árið 2021 og þar með lauk sérstökum táknmálsfréttatíma. RÚV ákvað þá að semja við Miðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra um túlkun aðalfréttatíma og Krakkafrétta á táknmál, en túlkendur eru fólk með heyrn.

Sigurlín var sagt upp störfum 1. júlí 2021. Henni var boðið að framlengja starfið um tvo mánuði og síðan voru einhverjar viðræður um áframhaldandi störf hennar. Ekkert hefur hins vegar gerst í þeim málum frá því 1. nóvember árið 2021.

„Ákvörðunin hefur haft mikil áhrif á líf stefnanda og valdið henni miklu tjóni,“  segir í stefnunni. Bent er á að hún sé heyrnarlaus einstaklingur sem tjái sig á táknmáli og aðgengi hennar að annarri vinnu en þeirri sem hún sinnti áratugum saman á RÚV sé erfitt. Hafi Sigurlín átt mjög erfitt með að fá vinnu eftir uppsögnina vegna heyrnarleysis.

Bent er á að RÚV sé fyrirtæki í eigu ríkisins og því sé ætlað að stuðla að menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi, eins og kveðið er á um í lögum um Ríkisútvarpið.

RÚV hafi mögulega bakað sér bótaábyrgð

Í stefnunni er bent á að Sigurlín hafi alloft á sínum langa starfsferli hjá RÚV óskað eftir að vera launþegi hjá fyrirtækinu. Það hafi verið RÚV sem hafi krafist verktakasambands.

„Stefnandi telur að samningssamband hennar við RÚV hafi haft þann blæ að vera vinnusamningur, klæddur í búning verksamnings,“ segir ennfremur í stefnu Sigurlínar.

Er bent á að RÚV hafi mögulega bakað sér bótaábyrgð gagnvart henni þar sem undir sé greiðsla orlofs og greiðsla launa í uppsagnarfresti, auk möguleikans á því að ekki hafi verið rétt staðið að uppsögn Sigurlínar.

Hið opinbera eigi að gera betur

Lögmaður Sigurlínar er Sævar Þór Jónsson. Er DV falaðist eftir viðtali sagðist hann ekki vilja tjá sig um efnisatriði málsins að svo stöddu enda sé það á frumstigi innan dómskerfisins. Hann vill þó láta hafa eftir sér að hann telji málið sorglegt enda sé hér vegið að hópi fólks sem á erfitt með að finna sér farveg á almennum vinnumarkaði.

„Hið opinbera á að passa betur upp á að tryggja jafnan aðgang að atvinnutækifærum og það á eins vel við um opinber hlutafélag sem eru í eigu ríkisins, eins og RÚV, og aðrar ríkisstofnanir. Það hefur verið fullreynt að ræða bæði við ráðherra og stjórn RÚV og þrátt fyrir loforð um úrbætur þá hefur því miður ekkert orðið úr því. Málið er að mati umbjóðanda míns mikilvægt prófmál,“ segir Sævar Þór.

DV leitaði viðbragða hjá Stefáni Eiríkssyni, útvarpssjóra RÚV, sem sagði:

„Þetta er í hefðbundnum farvegi hjá okkur og í höndum okkar lögmanns. Ekki meira um það að segja.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

FréttirPressan
Í gær

Þetta eru þær tegundir starfa sem gervigreindin mun fyrst gera óþörf

Þetta eru þær tegundir starfa sem gervigreindin mun fyrst gera óþörf
Fréttir
Í gær

Lögregla kölluð út vegna varðelds í garði – Reyndist vera tveir einstaklingar með kattareyru að grilla

Lögregla kölluð út vegna varðelds í garði – Reyndist vera tveir einstaklingar með kattareyru að grilla
Fréttir
Í gær

Umdeild reglugerðardrög Willums aftur lögð fram – „Ég segi nei við svona voðaverkum“ 

Umdeild reglugerðardrög Willums aftur lögð fram – „Ég segi nei við svona voðaverkum“ 
Fréttir
Í gær

Leyniskjöl sögð staðfesta skelfilegan dauðdaga íranskrar táningsstúlku sem mótmælti reglum um klæðaburð

Leyniskjöl sögð staðfesta skelfilegan dauðdaga íranskrar táningsstúlku sem mótmælti reglum um klæðaburð
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Skýr skilaboð frá „Hakkavélinni“ – Þetta dugir ekki

Skýr skilaboð frá „Hakkavélinni“ – Þetta dugir ekki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Munaði hálfum sentimetra að hundur klóraði í auga dóttur Kristínar – „Ég vil ekki að þetta komi fyrir önnur börn“

Munaði hálfum sentimetra að hundur klóraði í auga dóttur Kristínar – „Ég vil ekki að þetta komi fyrir önnur börn“