Guðmundi Elís Sigurvinssyni, sem handtekinn var í gær við höfnina í Reykjanesbæ, var sleppt að lokinni skýrslutöku. Ekki verður farið fram á gæsluvarðhald yfir honum og segir Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum í samtali við Vísi: „Nei það verður ekki farið fram á gæsluvarðhald, það er ekkert tilefni til þess.“
Guðmundur Elís var handtekinn eftir að tilkynnt var að fimmtán ára stúlka í Vestmannaeyjum hefði ekki skilað sér heim á sunnudagskvöld. Eftir ábendingu frá fjölskyldu stúlkunnar um að hún gæti verið með Guðmundi Elís fannst hún um borð í bátnum Grímsnes, sem hann starfar á sem sjómaður. Báturinn var þá við veiðar á Suðurnesjum.
Stúlkan er fædd 2007 og verður sextán ára á árinu. Guðmundur Elís verður 24 ára í júlí.
Rannsókn málsins er á forræði Lögreglunnar í Vestmannaeyjum. Segir Jóhannes óvíst hvort málinu sé lokið. „Við bíðum eftir skýrslu frá Suðurnesjum og tökum svo stöðuna.“
Hvað er gæsluvarðhald?
Gæsluvarðhald er tímabundin frelsissvipting sem lögregla getur beitt í þágu rannsóknar eða meðferðar sakamáls á grundvelli dómsúrskurðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Gæsluvarðhald er ekki afplánun en kemur að yfirleitt til frádráttar fangelsisrefsingu ef viðkomandi er dæmdur til fangelsisrefsingar í kjölfar gæsluvarðhalds.
Um gæsluvarðhald er fjallað í 14. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, um skilyrði gæsluvarðhalds segir í 95. grein:
95. gr.
Sakborningur verður því aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald að fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, enda hafi hann náð 15 ára aldri. Auk þess verður að vera fyrir hendi eitthvert eftirtalinna skilyrða:
a. að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni,
b. að ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar,
c. að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið eða rökstuddur grunur leiki á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi,
d. að telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings ellegar hann sjálfan fyrir árásum eða áhrifum annarra manna.
Einnig má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald þótt skilyrði a–d-liðar 1. mgr. séu ekki fyrir hendi ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Ekki er heimilt að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sýnt þykir að brot, sem hann er sakaður um, muni aðeins hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna fangelsisrefsingu miðað við aðstæður. Enn fremur skal eftir föngum gæta þess að sakborningur verði ekki látinn sæta gæsluvarðhaldi lengur en sýnt þykir að fangelsisrefsing verði dæmd.
Ekki er heimilt að úrskurða sakborning til að sæta gæsluvarðhaldi lengur en í tólf vikur nema mál hafi verið höfðað gegn honum eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess, sbr. a-lið 1. mgr.
Ekki má úrskurða sakborning yngri en 18 ára í gæsluvarðhald nema telja megi víst að önnur úrræði sem vísað er til í 1. mgr. 100. gr. eða mælt er fyrir um í barnaverndarlögum geti ekki komið í stað þess.