Í gær var einn maður handtekinn vegna sprengjuhótunar sem barst í ráðhús Reykjanesbæjar í síðustu viku. Fréttablaðið greinir frá þessu.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum var maðurinn handtekinn við komu til landsins. Hótunin barst í almennan póst sveitarfélagsins og var á ensku.
„Það tókst mjög fljótt að rekja sprengjuhótunina og grunaður aðili var handtekinn í gær við komu til landsins,“ segir Gunnar Schram yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum í svari til Fréttablaðsins.
Sem vænta má var starfsfólki mjög brugðið við sprengjuhótunina. Ákveðið var að rýma húsið og í kjölfar þess var framkvæmd leit með sérsveit ríkislögreglustjóra. Rétt er að geta þess að hótunin var talin mjög ótrúverðug.
Sjá nánar á vef Fréttablaðsins