Borgari varð vitni að skemmdarverki á vegg Melabúðarinnar við Hofsvallagötu í gærkvöld. Stutt myndband sem viðkomandi sendi DV sýnir mann sem virðist á besta aldri ganga hröðum skrefum af vettvangi.
Atvikið átti sér stað kl. 20:41 í gærkvöld, föstudagskvöld. Lýsir innsendandi því þannig, í texta og myndbandi, að maðurinn hafi spreyjað eins og sést á meðfylgjandi mynd, gengið hratt burtu, stigið upp í bíl sinn og ekið í burtu.
Veggjakrotið er býsna stórt og virðist sýna auga og fyrir neðan upphafsstafina HNP eða HNÞ.
„Þetta var ekki unglingur, þetta var fullorðinn maður sem spreyjaði á Melabúðina, fór í bílinn sinn og keyrði síðan í burtu. Þetta myndband var tekið kl. 20:41 24.02.2023,“ segir í skilaboðunum til DV.