„Eftir 12 ára reynslu í þessum geira get ég því miður staðfest að öryggi og aðbúnaður bæði barna og starfsmanna er oft á tíðum ábótavant, svo vægt sé til orða tekið. Mikill skortur er á viðeigandi aðstoð og úrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda, álag á starfsfólk oft yfirþyrmandi og þjónusta við börn er, að mér virðist, rekin út frá excel skjali – krónum og aurum, frekar en út frá mannúð, öryggi og velferð. Vegna þessa eiga sér stað alvarleg atvik reglulega og því raun bara tímaspursmál hvenær eitthvað svo alvarlegt gerist að það krefst raunverulegra viðbragða þeirra sem bera ábyrgð á barnaverndarmálum,“ segir Sigurður Hólm Gunnarsson iðjuþjálfi, framkvæmdastjóri hjá Allir Sáttir og fyrrverandi forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga hjá Barnavernd Reykjavíkur.
Sigurður starfaði sem forstöðumaður í Hraunbergi, skammtímaheimili fyrir unglinga, árin 2010-2022. Þekkir hann því málefnið af eigin reynslu sem starfsmaður og yfirmaður úrræðis fyrir börn með fjölþættan vanda og sem þolandi líkamsárásar í starfi.
Rætt var við Sigurð í fréttaskýringaþættinum Kveik sem sýndur var síðastliðinn þriðjudag, 14. febrúar. Þátturinn fjallaði um skort á viðeigandi úrræðum fyrir börn sem eiga um sárt að binda og glíma oft við alvarlegan hegðunarvanda. Í þættinum var einnig viðtal við Tinnu Guðrúnu Barkardóttur sem varð fyrir hrottalegri líkamsárás í Vinakoti, sem er einkarekið úrræði.
Sigurður segir í færslu á Facebook að viðtalið við hann hafi eðlilega verið mikið klippt til og því vilji hann skrifar nokkur orð sem geta vonandi skýrt afstöðu hans betur og gert eitthvað gagn. Eftir líkamsárásina á Tinnu fyrir tæpu ári, í mars 2022, skrifaði Sigurður um málefnið og birti að hluta í færslu á Facebook þá, en birtir nú færsluna í heild.
Færslu Sigurðar má lesa í heild sinni neðst, en hér er stiklað á helstu atriðum.
Sigurður segir starfsmenn og stjórnendur Vinakots hafa ítrekað bent á að stúlkan sem réðist á Tinnu Guðrúnu hafi áður sýnt af sér ofbeldishegðun og hefði átt að fá þjónustu í öruggara umhverfi. Í úrræði sem ekki er í boði að sögn Sigurðar, sem segist vegna 12 ára reynslu í starfi geta
„staðfest að öryggi og aðbúnaður bæði barna og starfsmanna er oft á tíðum ábótavant, svo vægt sé til orða tekið. Mikill skortur er á viðeigandi aðstoð og úrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda, álag á starfsfólk oft yfirþyrmandi og þjónusta við börn er, að mér virðist, rekin út frá excel skjali – krónum og aurum, frekar en út frá mannúð, öryggi og velferð.“
Gerði reglulega athugasemdir við starfsmannafjölda
Tinna Guðrún var vegna manneklu ein á vakt þrátt fyrir að ættu alltaf lágmark að vera tveir starfsmenn á vakt og tveir starfsmenn með stúlkunni sem á hana réðst.
„Í öllum þeim úrræðum sem ég þekkti til var sem dæmi alltaf bara einn starfsmaður á vakt í einu yfir nóttina. Ég gerði reglulega athugasemdir við þetta en svörin voru alltaf á þá leið að tvímönnun væri í senn óþörf og kostaði of mikið. Ég ræddi þessi mál ítrekað innan vinnustaðarins og líka á opinberum vettvangi,“ segir Sigurður og vísar í grein sem hann skrifaði fyrir níu árum um málið, árið 2013.
Starfsmaður Hraunbergs dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn börnum
Sigurður segir ekkert hafa gerst í þessum málum á hans vinnustað, Hraunbergi, fyrr en árið 2018, þegar starfsmaður sem hafði unnið þar lengi var til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um alvarleg kynferðisbrot gegn börnum. Vísar Sigurður þar til Guðmundar Ellerts Björnssonar, sem dæmdur var í Landsrétti 11. júní 2020 til 5 ára fangelsis fyrir kynferðisbrot gegn þremur börnum.
Allt snerist um sparnað
Segir Sigurður að viðtöl við hann í fjölmiðlum og skoðanir hans um að óboðlegt væri að aðeins einn starfsmaður væri á vakt hafi fallið í grýttan jarðveg hjá yfirstjórn velferðarsviðs Reykjavíkur. Skýrsla innri endurskoðunar nokkrum vikum síðar staðfesti þó skoðun Sigurðar um að tryggja yrði minnst tvo á hverri vakt. Segir Sigurður að allt hafi snúist um peninga og sparnað, ekki vinnuaðstæður starfsfólks eða öryggi barna.
„Mín reynsla í starfi eftir sem áður var áfram sú að alltaf ætti að spara. Mikill tregi til að bæta mönnun eftir þörfum og mikill þrýstingur á að taka á móti fleiri börnum en húsrúm leyfði og á móti ungmennum með alvarlegan hegðunarvanda sem engan veginn var hægt að veita örugga og viðunandi þjónustu. Ítrekaðar athugasemdir mínar, og annarra, bæði munnlegar og skriflegar voru virtar að vettugi. Það þurfti einfaldlega að spara og endalaust kvabb um að kostnaður per barn væri of mikill. Allt snérist um peninga. Ekki um velferð og öryggi skjólstæðinga eða starfsmanna. Skiljanlega voru vinnuaðstæður því oft ómögulegar.”
Segir Sigurður það ekkert nýtt að alvarleg ofbeldisatvik eða mjög hættulegar aðstæður komi upp í búsetuúrræðum fyrir börn og ungmenni. Nokkur alvarleg atvik hafi átt sér stað bara síðasta ár á Hraunbergi. Um hafi verið að ræða ungmenni sem sett voru inn á heimili sem var ekki hannað til að sinna þörfum þeirra og öryggi, þrátt fyrir að segi í ákvæðum barnaverndarlaga að vista eigi þau ungmenni á Stuðlum eða barna- og unglingadeild Landspítalans.
Veikindaleyfi vegna líkamsárásar
Sigurður var sjálfur sendur í veikindaleyfi af lækni vegna áverka og afleiðinga líkamsárásar seint í janúar 2022. Segir Sigurður að árásin hafi ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins fyrr en nokkrum vikum síðar eftir margar ítrekanir hans.
„Í kjölfarið, eftir að ég fór í veikindaleyfi, var ráðist ítrekað að öðrum starfsmönnum. Um var að ræða líkamsárásir og líflátshótanir þar sem fólk varð fyrir höggum og spörkum og í sumum tilfellum voru notuð eggvopn eða önnur áhöld til að ógna. Lögreglan kom ítrekað á staðinn til að fjarlægja einstaklinga en þeir einfaldlega sendir aftur nokkru síðar þrátt fyrir mjög ógnandi hegðun og ofbeldi. Það er algjör hending að enginn hafi slasast alvarlega.”
Lokað vegna myglu og einkaaðilum falinn reksturinn
Viku eftir að Sigurður fór í veikindaleyfi var tilkynnt að Hraunbergi yrði lokað vegna myglu og var öllu starfsfólki sagt upp. Ákveðið var að fela einkaaðilum áframhaldandi umönnun skjólstæðinga Hraunbergs. Segir Sigurður einkarekstur í þessum geira vafasaman, þar sem rekstraraðilar tapi á því að tryggja mönnun í manneklu.
Að lokum beinir Sigurður orðum sínum til okkar allra:
„Við sem samfélag verðum og eigum að tryggja að börn og þeir starfsmenn sem vinna með börnum fái þann stuðning sem þeim ber og þar á kostnaður ekki að skipta nokkru máli. Við búum í auðugu landi og getum gert svo miklu betur. Ég veit um fátt annað sem er eins mikilvægt og að tryggja velferð barna. Ég trúi ekki öðru en að stjórnmálamenn, stjórnendur, stéttarfélög og almenningur allur hljóti að vera mér sammála.”