Skiptum á þrotabúi K.S.K. 1777, sem áður hét Protak, eld- og hljóðvarnir, er lokið. Þetta kemur fram í tilkynningu í Lögbirtingablaðinu. Greiddar voru rétt rúmlega 12 milljónir króna upp í forgangskröfur en ekkert var greitt upp í almennar kröfur sem námu rúmlega 108 milljónum króna. Lýstar kröfur voru tæplega 126 milljónir.
Fyrirtækið sérhæfði sig í eld- og hljóðvörnum. Eigandinn, Jón Arnar Pálmason, á að baki langan lista af gjaldþrotum og kennitöluflakki. Í nóvember síðastliðnum dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur hann í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum í rekstri K.S.K. 1777, bæði hvað varðar skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu skatta.
Jón Arnar var þegar kallaður „margdæmdur skattsvikari“ í frétt Vísis árið 2015 en þá var hann dæmdur í eins og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi fyrir meiriháttar brot á skattalögum og þurfti að greiða 32,5 milljónir í sekt til ríkissjóðs.
Protak, fyrirtæki Jóns, er á lista yfir þjónustuaðila í brunavörnum á heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar – HMS – er að finna fyrirtækið Protak ehf, sem sérhæfir sig í brunaþéttingum og hljóðvarnarkerfum. Á vef stofnunarinnar eru þjónustuaðilar taldir upp í stafrófsröð, sjá hér
Jón Arnar Pálmason á að baki langan lista af gjaldþrotum og kennitöluflakki, og í flestum eða öllum tilvikum er um að ræða fyrirtæki í sömu starfsemi, þ.e. brunaþéttingum og hljóðvörnum. Samkvæmt heimildum DV hefur verið mælt með starfsemi fyrirtækja Jóns á námskeiðum á vegum HMS.